Anna Soffía Steindórsdóttir Okkur langar til að minnast föðursystur okkar, Önnu Soffíu Steindórsdóttur, nokkrum orðum.

Við minnumst þess hlýhugar sem ætíð mætti okkur á heimili þínu. Sérstaklega eru okkur jólin minnisstæð sem við héldum sem börn á heimili þínu og eigum við okkar bestu minningar frá hátíðarstundunum með þér. Alltaf tókstu á móti okkur opnum örmum. Sem börn fengum við oft að gista og var þá setið við spil langt fram eftir kvöldi. Einnig minnumst við, nú fyrir hátíðirnar, laufabrauðsbakstursins hin síðari ár sem þú kallaðir litlu jólin.

Það var okkur mikið hryggðarefni þegar faðir okkar sagði okkur að þú ættir við alvarleg veikindi að stríða, en við dáðumst að lífsvilja og baráttuþreki þínu í þeim hremmingum, sem gaf okkur aukinn kraft og sannfæringu þess að lífið sé gjöf sem skal njóta og aldrei má láta deigan síga.

Elsku Gulli og Siggi, við sendum okkar innilegustu samúð og biðjum góðan Guð að leiða okkur í gegnum sorgina.

Haraldur Páll Gunnlaugsson, Steindór Gunnlaugsson.