ANNA SOFFÍA STEINDÓRSDÓTTIR

Anna Soffía Steindórsdóttir fæddist í Reykjavík 4. janúar 1923. Hún lést á Sjúkrahúsi Reykjavíkur 10. desember 1997. Foreldrar hennar voru Steindór Gunnlaugsson, lögfræðingur, f. 1889, d. 1971, og kona hans Bryndís Pálmadóttir, húsmóðir, f. 1897, d. 1988. Bróðir Önnu Soffíu er Gunnlaugur Pálmi Steindórsson, framkvæmdastjóri, kvæntur Guðrúnu Haraldsdóttur, húsmóður. Anna Soffía ólst upp í Reykjavík og stundaði nám við Barnaskóla Reykjavíkur og Verzlunarskóla Íslands þaðan sem hún lauk verzlunarskólaprófi árið 1940. Hún hóf þá störf hjá Rafmagnseftirliti ríkisins þar sem hún vann fram á mitt ár 1953. Hinn 26. júní 1948 giftist Anna Soffía Páli Sigurðssyni rafmagnsverkfræðingi. Páll var fæddur á Vífilsstöðum 24. október 1917, sonur hjónanna Sigurðar Magnússonar, yfirlæknis, og Sigríðar Jónsdóttur Magnússon, hjúkrunarkonu. Páll lést 16. desember 1966. Árið 1967 hóf Anna Soffía störf hjá Domus Medica og starfaði þar sem skrifstofustjóri til ársins 1993 er hún lét af störfum fyrir aldurs sakir. Páll og Anna Soffía eignuðust tvo syni: Sigurð, f. 1952, matvæla- og lyfjafræðing, og Gunnlaug Þór, f. 1957, kvikmyndagerðarmann, dagskrárgerðarmann hjá íþróttadeild Sjónvarps. Gunnlaugur er kvæntur Kristínu Björgu Þorsteinsdóttur, dagskrárgerðarmanni og húsmóður og eiga þau tvær dætur: Önnu Kristínu, f. 1993, og Bryndísi Sæunni Sigríði, f. 1995. Útför Önnu Soffíu fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 10.30.