Anna Soffía Steindórsdóttir
Elskuleg tengdamóðir mín Anna
Soffía Steindórsdóttir er látin á 75. aldursári. Þegar ég kynntist Gunnlaugi mínum þá eignaðist ég ekki aðeins mína aðra fjölskyldu heldur líka elskulega vinkonu sem var hún Anna Soffía mín. Samverustundirnar urðu fjölmargar og koma þá fyrst upp í hugann heimsóknir okkar í sumarhúsið í Hestlandi í Grímsnesi. Bústaðurinn var reistur sumarið 1989 og var það Önnu Soffíu mikið gleðiefni. Hún sá þaðan heim að Kiðjabergi þar sem hún dvaldist löngum sem barn hjá afa sínum og ömmu. Anna Soffía kaus að nefna sumarbústaðinn Höfða eftir fæðingarstað móður sinnar á Höfðaströnd í Skagafirði og sameinaði þarna tvo staði sem voru henni kærir.
Anna Soffía var þó Reykjavíkurbarn. Hún var fædd og uppalin í höfuðstaðnum og bjó þar alla tíð. Eftir verzlunarskólapróf hóf hún störf hjá Rafmagnseftirliti ríkisins og þar kynntist hún mannsefni sínu, Páli Sigurðssyni rafmagnsverkfræðingi. Þau gengu í hjónaband 1948 og bjuggu fyrst í stað á Öldugötunni en reistu sér síðan glæsilegt hús í Snekkjuvogi 9 og bjó Anna Soffía þar til æviloka. Hún hafði gaman af að segja frá því hvernig umhorfs var í hverfinu 1953 er þau fluttu inn; gengið á plönkum yfir moldarsvað og í næsta nágrenni var fjós og kýr í haga. Synirnir urðu tveir, Sigurður og Gunnlaugur Þór. Lífið brosti við fjölskyldunni, en þá kom reiðarslagið er Páll varð bráðkvaddur 16. desember 1966. Páll var mikill mannkostamaður og öllum harmdauði. Ég hef á tilfinningunni að Anna Soffía hafi aldrei borið sitt barr eftir fráfall Páls. Ekki var bara að hún missti eiginmann, vin, félaga og föður drengjanna sinna, heldur fannst henni að eftir að hún varð ekkja þá sneri fólk baki við henni og hún væri ekki lengur gjaldgeng meðal þeirra sem hún hafði áður umgengist og litið á sem vini sína.
Það var mikil blessun að foreldrar hennar, Steindór og Bryndís, fluttu til hennar og drengjanna og héldu með þeim heimili, Steindór til dauðadags og Bryndís meðan heilsa hennar leyfði.
Anna Soffía hafði yndi af ferðalögum og fór talsvert víða, m.a. til gömlu Sovétríkjanna, Grikklands og Ungverjalands.
Ég kynntist Önnu Soffíu árið 1989 og minnist margra gleðistunda. Bestu minningarnar tengjast þó fæðingu dætra okkar Gunnlaugs en þær voru ömmu sinni til mikils yndis og gleði.
Síðustu árin hallaði undan fæti heilsufarslega hjá Önnu minni. Í sumar greindist hún svo með krabbamein og lést eftir erfiða sjúkdómslegu 10. þessa mánaðar.
Elsku Anna Soffía, ég þakka þér fyrir allt, nú ertu komin til Páls þíns sem þú elskaðir svo heitt og saknaðir svo mikið.
Þín tengdadóttir,
Kristín Björg Þorsteinsdóttir.