Sigurður Freysteinsson Okkur langar að minnast vinar okkar með nokkrum orðum.

Flest okkar kynntust Sigga í Menntaskólanum í Kópavogi og þar myndaðist kjarninn í vinahópnum sem hélt saman óslitið upp frá því. Þegar menntaskóla lýkur fara menn oftast hver í sína átt, stofna fjölskyldur og þá eiga vinahópar það til að tvístrast. Þessi hópur er þó undantekning og eigum við það að stórum hluta Sigga að þakka. Vináttan styrktist og hópurinn stækkaði þegar fleiri félagar bættust í hópinn. Í fyrstu voru skemmtanir aðaldriffjöðrin í samkomum hópsins en með tímanum fóru önnur áhugamál að vega þyngra.

Sigurður var einn af stofnfélögum í vísindafélaginu Röðli þar sem gömlu og nýju félagarnir hittust reglulega. Síðar hrinti hann af stað matarklúbbi og áhuginn og árangurinn sést best á því að hann var orðinn listakokkur, sérstaklega í ítalskri og austurlenskri matargerðarlist. Í þessum félögum kom vel fram hvað Siggi var einbeittur og fylginn sér.

Siggi var merkilegur maður um margt og eftirminnilegur. Hann hafði mikla námshæfileika og tileinkaði sér að því er virtist fyrirhafnarlaust námsefnið. Í menntaskóla sat hann ávallt á aftasta bekk og tók varla bækurnar upp úr töskunni. Þegar kom að prófum mætti hann of seint, en skilaði prófinu fyrstur allra. Öllum til mikillar furðu varð hann með þeim hæstu á prófunum.

Hann var í eðli sínu fjölfræðingur. Mest áberandi var áhugi á raunvísindum. Tölvur voru hans ær og kýr frá unglingsárum og átti hann oft í harðri glímu við tölvufíkla um Commodorinn, einu tölvuna í menntaskólanum á þeim tíma. Hann hafði gaman af vísindaskáldsögum hverskonar. Hugvísindaáhuginn lýsti sér hvað best í þekkingu á tungumálum, áhuga á samanburðarmálfræði og íslenskri tungu en kunnátta hans í íslensku var frábær. Einnig hafði hann brennandi áhuga á ýmsum fornum fræðum eins og tengslum Íslendinga við Kelta og ásatrú.

Siggi átti í langri baráttu við sjúkdóm sem hann fór ekki í felur með. Þess vegna náði hann ekki að nýta sér þá miklu hæfileika sem honum voru gefnir sér til gagns. Undir lokin fór honum mikið fram og virtist hann verða sáttari við tilveru sína. Það varð okkur því mikið áfall að frétta af fráfalli hans í hörmulegu slysi.

Við eigum margar góðar minningar um Sigga en sterkust er kannski minningin um mann sem var ávallt vinur vina sinna.

Við sendum foreldrum og systkinum Sigurðar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ari, Árni og Edda, Ásgeir og Sigrún, Jóhann, Jón Benjamín, Pjetur, Rúnar, Vilmundur og Lilja, Þorkell.