Sigurður Freysteinsson Ég vil minnast Sigurðar Freysteinssonar, vinar míns, með nokkrum orðum.

Ég kynntist Sigurði þegar hann kom inn í bekkinn minn í barnaskóla. Við vorum þá flest 11 ára gömul, en Sigurður 10, því hann var einu ári á undan. Hann var þá nýlega fluttur heim frá Þýskalandi með foreldurm sínum. Bekkurinn okkar var stilltur og prúður, gjarnan kallaður "englabekkurinn", og það orðspor breyttist ekki við innkomu Sigurðar því hann var góður námsmaður og lét lítið fyrir sér fara. Hann var dálítill einfari sem krafðist ekki mikillar athygli, hvorki kennara né samnemenda. En einræni Sigurðar stafaði ekki af því að hann væri mannafæla, heldur vegna þess að hann hafði önnur áhugamál en flestir strákar á hans aldri. Hann var til dæmis ekki mikill áhugamaður um boltaleiki eða aðrar íþróttir. Alltaf var hann samt til í að vera með ef vantaði í bekkjarliðið í knattspyrnu. Ótal sóknum andstæðinganna hratt hann með því að boltinn fór í hann, og stundum gerði hann sér lítið fyrir og rak tána í boltann. Var þá fagnað vel og innilega. Það var líkt því að Sigurður væri að gera vísindalega rannsókn á knattspyrnuiðkun með veru sinni inni á vellinum og hver veit nema sú hafi verið raunin? Ég minnist einnig hástökkskeppni í leikfiminni. Hástökk var ekki sérgrein Sigurðar fremur en knattspyrna en hann lét sig hafa það að taka atrennuna og hlaupa niður bandið. Aðhlátri hinna tók hann með slíku jafnaðargeði að hann ávann sér með því meiri virðingu en margur stökkfrár maðurinn.

Það var á sviði hins andlega og vitsmunalega sem Sigurður skaraði fram úr á sinn hægláta hátt. Við urðum samferða í gegnum gagnfræðaskólann og síðan menntaskólann, vorum bekkjarfélagar í eðlisfræðideild Menntaskólans í Kópavogi. Þar kom maður ekki að tómum kofunum hjá honum þegar vantaði hjálp við að leysa erfið stærðfræðidæmi eða eðlisfræðivandamál. Lausnirnar runnu upp úr honum og voru jafnan skrifaðar með örskrift í litla reiknisbók hans. Raunvísindi lágu mjög vel fyrir Sigurði en færri vita að það gerðu einnig tungumál. Ég komst að því síðar að hann hafði djúpa þekkingu á tungumálum og var mikill áhugamaður um málvísindi.

Það kom að því að Sigurður tók að brjótast út úr fari hins þögla og stillta náunga sem enginn þurfti að veita athygli. Umbrotatímar fylgdu í kjölfarið, þeir voru honum nauðsynlegir á þroskabrautinni. Prúðmennska, hæverska og rökhyggja eru allt góðir og gildir mannkostir en þegar þeir verða allsráðandi í sálarlífinu er hætt við að til lengri tíma litið skorti eldsneyti til áframhaldandi þroska.

Lausn Sigurðar á þessu var að gefa víkingnum í sér lausan tauminn um stundarsakir og má segja að sumir hafi á stundum haft áhyggjur af því hvert stefndi. Það endaði þó þannig að von bráðar var Sigurður sestur á skólabekk í Háskólanum og farinn að nema eðlisfræði og tölvufræði af kappi.

Við hittumst oft í Vísindafélaginu, félagsskap okkar nokkurra menntaskólafélaga, þar sem við bárum saman bækur okkar. Sigurður var óþreytandi við að hóa saman hópnum til fagnaðar eða vísindafunda. Þar fundum við fyrir því hvað Sigurður hafði vaxið sem persónuleiki og finnst nú sárgrætilegra en orð fá lýst að honum skyldi ekki auðnast að njóta fullorðinsáranna og þess þroska sem hann hafði aflað sér.

Ég sendi fjölskyldu, vinum og ættingjum Sigurðar dýpstu samúðaróskir.

Jón Erlingur Jónsson.