Sigursteinn Gunnarsson
Hversu oft höfum við ekki rætt
um tilgang lífsins, veru okkar hér á jörðu og spáð í það óræða og ókomna. Svörin við þessum spurningum hafa sjaldnast legið á lausu. Höfum við ekki rætt drauma og táknmál þeirra og möguleika að sjá í þeim eitthvað sem gæti gefið fyrirheit um það sem ekki er komið, en svo gerist allt án nokkurs fyrirboða. Við í vinahópnum þínum höldum samt áfarm að leita svara, en nú við nýjum spurningum. Þú hefur nú möguleika á að takast á við þessar spurningar á nýjum vettvangi og ert trúlega þegar kominn með svör við þeim. Hlutverk okkar hér á jörðinni eru misjöfn sumir afkasta meiru en aðrir, eins og Richard Bach segir "ef þú ert á lífi er hlutverki þínu hér á jörðu ekki lokið".
Kæri vinur, þín verður sárt saknað, "en í þögulli vináttu verða allar hugsanir, allar langanir og allar vonir til, og þeirra er notið í gleði sem krefst einskis". (Kahlil Gibran.)
Baldur.