Sigursteinn Gunnarsson
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
(V. Briem.) Sunnudagsmorguninn 7. desember bárust okkur þær hörmulegu
fréttir að Steini frændi væri dáinn. Okkur setti hljóð. Maður í blóma lífsins. Hve lífið getur verið hverfult. Sorgin helltist yfir okkur en í gegn brutust gömlu, góðu minningarnar.
Það fyrsta sem kom upp í huga okkar var brosandi andlit Steina. Steini sem alltaf sá til þess að gítarinn og söngbækurnar væru með í för þegar fjölskyldan hittist. Þá er helst að minnast Jónsmessuhátíðanna á Rangárbökkum og þorrablótanna. Og ef því varð við komið var hljómsveitar"græjunum" komið fyrir og hljómsveitin steig á svið með Steina og Sillu fremst í flokki. Þegar komið var til tannlæknisins Steina var sama ljúfa viðmótið til staðar. Og oftar en ekki fór jafn mikill tími í tannviðgerðir og myndaskoðun, hvort sem það voru fjölskyldumyndir eða myndir sem Steini hafði sjálfur málað. Stórt skarð er höggvið í fjölskylduna en minningarnar eiga eftir að lifa í hjörtum okkar um aldur og ævi.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(V. Briem.) Elsku Silla, Sigrún, Stína, Birgir, Gunnar, Óli og fjölskyldur. Við biðjum Guð að styrkja ykkur í þessari miklu sorg og reynum að muna að eftir dimmustu nótt kemur aftur dagur.
Hafdís Alexandersdóttir og fjölskylda.