Sigríður Árnadóttir

Sjaldan hefur mér brugðið eins og þegar ég frétti að hún Sigga væri farin frá okkur. Þessi ánægjulega og fallega stúlka sem lífgaði upp hvern einasta dag og létti lund hverrar persónu sem hún hitti. Árin urðu aðeins 22, alltof fá.

Ég átti þess kost að vinna síðastliðið sumar á sambýlinu á Sæbraut 2 á Seltjarnarnesi þar sem Sigga bjó. Allt frá fyrsta degi mínum þar voru ég og hún vinir. En ég var ekki eini vinur hennar. Hún átti marga vini og allir þeir sem einhvern tímann höfðu unnið hjá henni, tengdust henni sérkennilega sterkum böndum. Ef til vill var ekkert svo sérkennilegt við það. Sigga var stórkostleg persóna, ljúf og lífsglöð, og sambland af heimspekingi og fínni dömu. Hún þurfti mikið að spjalla og margs að spyrja. Spurningarnar sem hún spurði komu mér oft til að hugsa um lífið á annan hátt en ég hafði gert: "Er gaman að verða fullorðinn? Vildirðu að stelpurnar þínar væru aftur orðnar litlar? Finnst þér þessi eða hinn sætur, finnst þér þetta eða hitt skemmtilegt? Hvar er eilífðin?" Svona spurningaflóð kom oft ásamt einhverju hrósi um klæðaburð eða klippingu. Fjölskylda mín kom henni líka við. Hún þurfti að vita allt um hana og fékk það líka. Það var notalegt að heyra hana spyrja um ættingja mína og mér fannst að henni fyndust þeir skipta máli, fyrst að hún kynntist mér þá vildi hún gjarnan kynnast allri fjölskyldunni líka. Þó að árin á milli okkar væru þónokkur og ég hefði betur í þeim efnum og ætti því að hafa öðlast ákveðinn þroska, velti ég því oft fyrir mér hvort ég sýndi henni jafn mikla tillitssemi og áhuga í sambandi við persónuleg málefni og hún mér. En áhugi hennar var svo mikill að hún hreif mann með sér og auðvitað fékk hún spurningum sínum svarað. Sigga bar sérstaka virðingu fyrir jólahátíðinni og þótti þau einn skemmtilegasti tími ársins og þótti ósköp kjánalegt þegar einhver var að spila jólalög ef desembermánuður var ekki runnin upp ­ það var ekki til siðs að spila jólalög á sumrin. Sigga kunni þá list að spyrja persónulegra spurninga og tók ekki nærri sér þótt viðkomandi vildi ekki svara. Ef til vill er það þetta sem okkur skortir svo mjög, hreinskilnar spurningar, en bera þó það mikla virðingu fyrir viðmælandanum að láta hann ráða því hvort hann svarar eða ekki.

Sigga gerði ekki mannamun og var jafn yndisleg við alla hvort sem hún hafði þekkt þá lengur eða skemur, það eina sem hún hræddist í fari fólks var einhvers konar ofbeldi og gerði hún þá allt sem hægt var til að þurfa ekki að umgangast viðkomandi einstaklinga. Hún spjallaði við fólkið í búðinni og sundinu, og hvert sem hún fór stráði hún brosinu sínu fallega og gjarnan einhverju hrósi. Ég sakna hennar sem vinkonu og jafnframt þykir mér stórt skarð hafa verið höggvið í hóp íslenskrar æsku hvað varðar lífsþrótt og gleði og Sæbrautin verður aldrei sama heimilið og áður án Siggu.

Langur er vetur, liðið er sumar

langt að bíða vorsins yl.

Örsmáir geislar elskandi sólar,

ylja í löngum vetrarbyl.



Í brjóstum nú kviknar blíða og friður

því birta jóla mun fögur ljóma,

en fegursta rósin er fallin niður

og fáir skilja þá hörðu dóma.



En myndin af þér er í minni skráð,

þú mikli og fríði æskublómi,

sem umvafðir allt, varst elskuð og dáð,

ég ætíð mun minnast þín klökkum rómi.

Innilegar samúðarkveðjur til foreldra, bræðra og allra ættingja Sigríðar Árnadóttur.

Katrín Ragnarsdóttir.