Sigríður Árnadóttir
Hún nafna mín lét engan ósnortinn sem henni kynntist. Hispursleysi hennar, einlægni, hnyttin tilsvör og spurningar gerðu litbrigði
mannlífsins fjölskrúðugri en ella.
Við áttum samleið um nokkurra ára skeið eftir að hún eignaðist heimili á Sæbraut. Það gat sópað svo að henni Siggu, að eftir var tekið og mörgum þótti stundum nóg um. Tómið sem hún skilur eftir sig er því mikið. Á hinn bóginn hafði hún líka þörf fyrir að draga sig út úr skarkala daglegs lífs og njóta einveru. Þá fór hún gjarna niður í fjöru þar sem hún gat dvalið löngum stundum við að horfa og hlusta á taktfast öldugjálfrið. Þegar leiðir okkar skildi þannig að við hættum að hittast nær daglega, man ég hvað ég saknaði þess að eiga ekki von á því að hressileg stúlka birtist skyndilega inni á skrifstofu hjá mér til þess að ganga úr skugga um hvort ég hefði lagt símtólið rétt á eða til þess að hagræða ýmsum hlutum sem höfðu færst of mikið úr skorðum að hennar mati. Í leiðinni dembdi hún oft yfir mig spurningum eða staðhæfingum, sem endurspegluðu sérstakan hugarheim, en einhverfa setti mark sitt á hugsun hennar og hegðun. Oft voru þetta sömu spurningarnar og hún hafði svo margsinnis spurt áður. Ef ég leiddi þær hjá mér, svaraði hún þeim bara sjálf og ef þær voru ögrandi, gaf hún sjálfri sér smá tiltal, sem var endurómun af umvöndunum annarra. Stundum voru spurningarnar þess eðlis að þeim var ekki auðsvarað, eins og þegar hún á tímabili spurði oftsinnis einarðlega hvers vegna sjórinn væri svona blautur.
Við hittumst síðast í veislu fyrir tæplega mánuði. Það geislaði af Siggu og einn gestanna hafði á orði hvað hún væri orðin falleg ung kona. Einhver orðaði það svo að hún væri eins og rós, sem væri komin að því að springa út. Þegar Sigga hafði heilsað mér hátt og hressilega eins og alltaf, hljómuðu kunnuglegar spurningar: "Sigga Lóa, hvað erum við búnar að þekkjast lengi? Hefurðu alltaf þekkt mig? Hvenær ætlar þú að koma á Sæbrautina?" Svo var hún rokin í burtu áður en mér gafst tóm til þess að svara, enda vissi hún sjálfsagt að ég vissi að hún vissi svörin. Þau skiptu heldur ekki alltaf máli, því spurningarnar voru ekki endilega liður í þekkingaröflun, heldur oft miklu frekar hluti af sérstæðum samskiptaháttum.
Daginn eftir fráfall Siggu þegar ég átti stund með starfsfólkinu á Sæbraut, var þögnin sem þá grúfði yfir hópnum rofin af bægslagangi nokkurra smáfugla sem reyndu að koma sér fyrir utan við gluggann. Að því búnu hófu þeir að syngja svo fallega að unun var að hlusta á. Sólin hafði stuttu áður náð að brjótast í gegnum dimm og drungaleg skýin og að umvefja okkur geislum sínum. Skyndilega dró ský fyrir sólu á ný og fuglarnir flugu á brott. Við vorum þess fullviss að hún Sigga okkar hefði verið að kveðja og þakka fyrir sig.
Við fráfall Siggu er mér ofarlega í huga þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að kynnast einstakri og heillandi stúlku sem kenndi mér svo margt. Ég votta fjölskyldu hennar, sambýlisfólki, aðstoðarfólki og vinum, mína dýpstu samúð.
Sigríður Lóa Jónsdóttir.