VALBORG ELÍSABET
HERMANNSDÓTTIR
Valborg Elísabet Hermannsdóttir fæddist á Glitstöðum í Borgarfirði 24. nóvember 1923. Hún lést 12. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ragnheiður Gísladóttir prests í Hvammi í Norðurárdal og Hermann Þórðarson, kennari frá Glitstöðum í sömu sveit. Systkini: Unnur, kennari, Gísli, verkfræðingur, Svavar, verkfræðingur, Guðrún, kennari, Þórdís, kennari, Ragnar, og Ragnheiður, deildarstjóri. Þær Guðrún og Ragnheiður eru einar á lífi. Valborg lauk kandídatsprófi í lyfjafræði 1952. Hún giftist Kurt Steenager, dönskum lyfjafræðingi, og áttu þau tvo kjörsyni. Þau skildu fyrir allmörgum árum. Útför Valborgar Elísabetar fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.