Valborg Elísabet Hermannsdóttir Haustið 1940 settust um 30 nýir nemendur í 3. bekk lærdómsdeildar Menntaskólans í Reykjavík. Fyrir voru í bekknum álíka margir nemendur, sem höfðu náð prófi upp í 1. bekk gagnfræðadeildar MR tveim árum áður. Við nýnemar flutum inn á gagnfræðaprófi frá þeim tveim gagnfræðaskólum, sem þá voru í Reykjavíkurborg og frá Flensborg í Hafnarfirði. Gamla MR-húsið við Lækjargötu var þá í hers höndum í bókstaflegum skilningi og skólinn leigði átta stofur á efstu hæð háskólans að sunnanverðu. Þar hitti ég Valborgu fyrst á ganginum fyrir utan 3. bekkjarstofuna. Hún var þá svo litfríð og ljóshærð, fremur smá vexti og glaðleg í viðmóti og ákveðin í að samlagast þessum nýju bekkjarsystkinum. Ekki leið á löngu þar til góð kynni tókust með okkur Valborgu og Áslaugu Kjartansdóttur, og síðar Málfríði Björnsdóttur. Við Áslaug komum úr Ágústarskólanum en Valborg úr Ingimarsskólanum, báðir nefndir eftir skólastjórunum, en Fríða kom úr Flensborg eins og góðum Hafnfirðingi sæmdi. Þessi kynni hafa nú enst í nærri sextíu ár og ég man ekki til að á þau hafi borið nokkurn skugga. Áslaug og Valborg voru sessunautar öll menntaskólaárin og slíkar aldavinkonur að fágætt má teljast. Að öðrum ólöstuðum held ég að enginn hafi reynst Valborgu betur í vetrarhríð vaxinnar ævi en þau Áslaug og Frank Cassata, maður hennar. Við vonum af hjarta, vinir hennar, að þau megi hljóta sín laun, ef ekki þessa heims þá hinum megin.

Skólaárin liðu hjá í áhyggjuleysi. Valborg var góður og samviskusamur nemandi og skólaþegn. Á sumrum stunduðum við flest vinnu hingað og þangað um landið eins og tíðkast enn. Við Valborg fórum báðar austur í Fljótshlíð í kaupavinnu og hittumst alloft þá, þöndum gæðingana bæ frá bæ í fylgd Óla Berg sem átti vísar viðtökur á hverjum stað. Ég tók tryggð við Hlíðina vænu, en Valborg fór norður í Skagafjörð sumarið eftir, vildi skoða landið eins og hún orðaði það, enda gerðu stelpur á okkar aldri ekki víðreist í þá daga. Ragnheiður móðir Valborgar var prestsdóttir ættuð úr Skagafirði, þótt hún væri fædd og uppalin í Hvammi í Norðurárdal syðra og teldi sig jafnan Borgfirðing, held ég.

Við lukum stúdentsprófi vorið 1944. Valborg var strax staðráðin í því að leggja stund á lyfjafræði, en hún var með próf úr máladeild og þurfti því að lesa allt námsefni stærðfræðideildar á einum vetri og ganga undir próf. Sama gerði Fríða Bjarna, eins og við kölluðum frú Málfríði jafnan. Síðan hófst lyfjafræðinámið. Valborg fór í Ingólfsapótek en Fríða í Reykjavíkur"abó".

Engar kvartanir bárust frá apótekurum eða skjólstæðingum, svo þeim hlaut að vegna vel, telpunum. Á þessum árum stofnuðum við saumaklúbb, vinkonurnar. Skopist nú ekki að sauma- og spilaklúbbum, góðir hálsar. Þeir eru jafn ómissandi og ættarmót og Rotarý-fundir, allt þetta viðheldur góðum kynnum. Valborg kom auk þess með Ragnheiði systur sína í félagsskapinn og Betty mágkonu sína. Þessi klúbbur lifir enn, þó farið sé að strjálast um fundi. Hlé varð á þátttöku þeirra Valborgar og Fríðu í tvö ár, meðan þær luku kandídatsprófi í Kaupmannahöfn. Þær skiluðu sér svo aftur til starfa, Valborg þó aðeins skamma hríð, því hún hafði á námsárunum trúlofast kollega sínum Kurt Steenager-Jacobsen og flutti aftur til Kaupmannahafnar, þar sem þau giftu sig ekki löngu síðar. Nokkrum árum seinna fékk Kurt stöðu hjá dönsku lyfjafyrirtæki, sem hafði m.a. bækistöð í Austurlöndum nær. Þau hjónin bjuggu því bæði í Thailandi og á Jövu næstu árin. Þau eignuðust ekki börn, en ættleiddu tvo danska drengi, bræður sem heita Pétur og Jón, og búa nú í Kaupmannahöfn. Fjölskyldan flutti eftir allmörg ár eystra aftur til Danmerkur. Allt virtist leika í lyndi, en þó fór nú svo að þau skildu, hjónin, og drengirnir fylgdu Valborgu. Heilsu hennar var þegar tekið að hraka, m.a. gekkst hún undir aðgerð á hnjám, en aðgerðin heppnaðist ekki vel og var hún mörg síðustu árin bundin hjólastól. Parkinsons-veiki bættist síðar við þá kröm sem fyrir var. Henni reyndist erfitt að búa við óhagstæð kjör í heimsborginni, og svo fór að hún flutti heim og fékk vist á Elliheimilinu Grund. Var ekki annað að sjá en þar færi vel um hana, og hún nyti þess að sjá fólkið sitt og gömlu vinina. Áslaug varð sem fyrr hennar aðal hjálparhella.

Af og til hittist gamli saumaklúbburinn, þó varla nógu oft. Vorið 1994 héldum við upp á 50 ára stúdentsafmæli. Valborg var þá svo hress að hún gat tekið þátt í veislum og ferðalögum. Mörg bekkjarsystkinin höfðu þá ekki séð hana um árabil og urðu fagnaðarfundir. Valborg var að eðlisfari bjartsýn og létt í lund, þótt stundum þyrmdi yfir hana þunglyndi og vonleysi, og lái henni það hver sem vill. Annars bar hún ekki harma sína á torg og bar sig oftast vel.

Okkur fannst oft, vinkonunum, að hún lifði í draumaheimi, og legði þá á ráðin um ýmislegt, sem aldrei gat orðið vegna þeirrar fötlunar, sem hún bjó við. Eða var þetta kannski hennar aðferð til að sætta sig við óbærileg kjör?

Fyrir rúmu ári fór Valborg til Kaupmannahafnar að hitta drengina sína og fyrsta barnabarnið. Hafði hún að því er virtist ánægju af ferðinni.

Og nú er hún öll, laus úr viðjum hrörnandi líkama. Mig langar til að kveðja hana með tveim síðustu erindunum úr ljóði Snorra Hjartarsonar Í Úlfdölum. Við konurnar í saumaklúbbnum sendum systrum hennar, sonum og vandafólki innilegar samúðarkveðjur.

Í vængjum felldum ég vafinn lá

þær viðjar binda ekki lengur

með nýjum styrk skal ég strengi slá

og stirna langnættið eldum,



uns óskakraftur minn endurrís

úr ösku ljóðs míns og hjarta,

úr mistri og sorta skín svanaflug

og sólin gistir mig aftur.

Sigríður Ingimarsdóttir.