Sigurður Freysteinsson

Eigi má sköpum renna.

Eða hvernig má það vera að við Hraunbrautarsystkin þurfum að kveðja Sigga hinsta sinni í dag? Hvernig má það vera einmitt nú þegar losnað hafði um þau fantatök sem fullorðinslífið tók á þessum mæta mannkostadreng? Flest var lagt í vöggu Sigga í meira mæli en annarra, nema helst harka og grimmd.

Enginn veit hvar skruggan skellur niður, nú var það inni á því heimili sem á æskuárunum var næst okkar eigin. Með þeim hætti sem ekki verður skilið, ekki verður samþykkt, en ekkert þýðir samt að mótmæla.

Fyrirvaralaust vantar í systkinahópinn sem að vísu átti ferna foreldra en var sem einn fram að unglingsárum. Siggi var þriðji elztur af okkur sextán barnabörnum afa og ömmu á Selfossi og var það ávallt mikil gleði okkar elztu bræðra að fá hann heim frá mikilúðlegu Þýzkalandinu á sumrin. Miðpunkturinn Selfoss í þá rósrauðu daga, ungarnir alltaf í kringum afa og ömmu, þeim jafnt og ungunum til gleði og gæfu lífið á enda.

Með árunum skiptist þessi hópur í tvennt. Svenni og Siggi móðurbræður bjuggu áfram á Selfossi með sín átta börn, átta okkar þurftum að slíta okkur þaðan og setjast að suður í Kópavogi. En í því sveitarfélagi skorti okkur reyndar ekki ævintýrin frekar en fyrir austan. Þar sem sjónlína var á milli heimila okkar Nínubarna og Ingubarna var samgangurinn mikill. Í óteljandi ævintýraferðum upp í kirkjuholt, í kring um voginn eða bara heima í herbergi naut hugmyndaflug Sigga sín. Skapaðir voru óteljandi eigin heimar, ímyndunaraflinu voru engin takmörk sett. Og það var jafnan Siggi sem leiddi atburðarásina.

Einkum eru gönguferðirnar fyrir voginn eftirminnilegar. Það var lagt í'ann með nesti, þýzkan sjónauka í leðurtösku og höfuðin full af ævintýraþrá og hugmyndum. Við áttum okkur leynileg virki í Öskjuhlíðinni og sem fyrr gekk Siggi fremstur í að spinna upp spennandi söguþráð. Þótt fullorðinsárin hafi beint okkur á ólíkar brautir þá binda sameiginleg ævintýri bernskunnar okkur böndum sem enginn rýfur ­ nema dauðinn.

Það er okkur huggun harmi gegn að Siggi er hjá góðum fyrir handan. Enginn fær þó skynjað þá djúpu sorg sem nú ríkir á Kársnesbraut 33, nema hafa sjálfur misst frumburð eða elztabróður í miðju lífshlaupi. Hugur okkar og mömmu er hjá ykkur, Gunnsi, Ragga, Inga og Freysteinn, er við kveðjum okkar góða bróður.

Ari, Kjartan, Auðunn, Hrafn og Þóra.