Finnbogi Ásgeir Ásgeirsson Margar ljúfar minningar fara um hugann við andlát og útför Finnboga vinar míns. Vinátta okkar nær allt til Melaskóladaganna fyrir 45 árum. Þar hittumst við fyrst í bekknum hennar Fríðu kennara, 7 ára gamlir, og síðan hefur vinátta okkar ekki rofnað. Leiðir okkar lágu saman gegnum gagnfræðaskóla, báðir vorum við Seltirningar og bjuggum þar um langt árabil. Jafnvel þegar við fórum í sveitina, lentum við báðir í Borgarfirði, og hittumst við ýmis tækifæri þau sælu sumur. Þannig hafa örlögin hagað því til að við höfum ævinlega verið nærri hvor öðrum.

Áhugamál okkar fóru saman í svo mörgu, meðal annars fórum við bátsferðir út á Skerjafjörð á bátkænu sem pabbi lagði okkur til. Þá var róið inn á Fossvoginn, út í Akurey og víðar og þótti ekkert athugavert við þá útgerð ungra manna. Við fórum í hjólaferðir, og á unglingsárunum fórum við að stunda böll saman, fórum í í Þórskaffi og "sveitaböll" í Hlégarði og víðar, sem þá voru í tísku meðal unga fólksins. Og auðvitað fórum við í vel heppnaðar útilegur. Heimili Finnboga að Marbakka stóð mér alltaf opið, og eins var það heima hjá mér, þar var Finnbogi nánast eins og heimamaður. Margar góðar minningar á ég frá Marbakkaheimilinu, sem var glæsilegt menningarheimili. Foreldrar Finnboga og systkini reyndust okkur litlu strákunum ávallt vel og gott var til þeirra að sækja.

Eftir að við stofnuðum fjölskyldur héldust tengslin sem fyrr og fórum við saman í ferðalög með börnin til Mæjorka og síðar til Tenerife á Kanaríeyjum og til Flórída. Þrátt fyrir breytingar á högum okkar beggja, hélst gott samband okkar í milli fram á síðasta dag. Andlát Finnboga vinar míns var mér mikið áfall svo óvænt sem það var.

Finnbogi var raungóður og tryggur vinur og félagi, um það geta margir borið. Hans er saknað af stórum hópi vina í dag. Líf hans var eins og margra, ekki eilífur dans á rósum, hjá honum skiptust á skin og skúrir.

Ég vil að lokum þakka Finnboga gengin ár, hann var mér mikill og tryggur vinur um áratuga skeið. Eddu, börnunum þeirra, systkinum og ættingjum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Finnboga Ásgeirssonar.

Ásgeir S. Ásgeirsson.