Sigríður Jónsdóttir Elsku mamma mín. Mig langaði aðeins að þakka þér allar skemmtilegu og góðu samverustundirnar, sem við áttum þegar ég var strákur heima á Fróni. Þá vil ég þakka þér fyrir hið glæsilega heimili, sem þú gafst mér, að ekki sé talað um matinn sem þú eldaðir alla daga. Þú varst besti kokkur, sem ég hef þekkt. Kökurnar þínar voru þær bestu sem ég hef smakkað til þessa dags. Ég man að ég flýtti mér heim úr skólanum og fann ilminn alla leið niður á götuhorn af þinni góðu eldamennsku. Betra heimili gat enginn átt.

Mamma mín, ég man þegar þú komst að heimsækja mig til New York, sem var þín uppáhaldsborg. Við áttum þá saman yndislegar stundir. Hve þú varst hrifin af Central Park, sem var steinsnar frá heimili okkar á Park Avenue. Ég minnist þess þegar þú komst eitt sinn heim úr garðinum og sagðir mér að þú hefðir gefið gamalli konu sem sat þar á bekk, nokkra dollara af því hún var svo fátæk og hefði sennilega verið svöng. Mamma, þú hugsaðir alltaf um aðra áður en þú hugsaðir um sjálfa þig. Ég þakka þér fyrir það góða veganesti að hugsa um náungann af hjartagæsku.

Mamma mín, nú ert þú farin í hæstu hæðir og finnst mér það ákaflega leitt að fá ekki að vita um andlát þitt á Spáni eða útför þína. Ég vil að þú vitir að ég var hjá þér allan tímann í anda. Nú ert þú komin aftur til eiginmanns og sonar, föður míns og bróður. Nú ert þú laus við kvalirnar og lyfin. Megi Guð geyma þig, mamma mín. Góða nótt, elskan mín.

Þinn sonur,

Jón Viðar Viggósson,

New York.