Finnbogi Ásgeir Ásgeirsson

"Sjá, Tíminn, það er fugl, sem flýgur hratt, hann flýgur máske úr augsýn þér í kveld!" (Omar Khayyám.)

Tíminn nemur staðar og hugurinn reikar, næstum hálfa öld til baka, heim á Húsavík. Snáði átti von á stórum frænda sínum, þó aðeins ári eldri, í heimsókn sunnan úr Reykjavík. Það var Bimbi frændi að koma í sumarheimsókn til afa síns og ömmu og okkar allra frændsystkinanna "heima á Húsavík." Og seinna fékk svo þessi sami snáði að fara suður að heimsækja Bimba frænda sinn í Reykjavík, að upplifa stórborgina með Tívolí, strætó og miðbæjarrúntinum á kvöldin. Lífið fékk nýjan svip. Heimsborgir gerðust ekki stærri né meiri í þá daga og enginn var meiri heimsborgari í augum snáða en Bimbi frændi, sem alla þekkti og allt kunni og virtist eiga vini í hverju húsi.

Finnbogi Ásgeir var elskað barn og allstaðar velkominn, yndi og eftirlæti síns stóra frændgarðs, enda bar þessi glæsilegi drengur með sér lífsgleði, góðvild og hlýju hvar sem hann kom. Þessir eiginleikar voru veganesti hans út í lífið og starfið; alúð og hressilegt viðmót og umfram allt góðvild í allra garð.

Það er þannig sem við munum Bimba frænda okkar og minnumst hans nú á kveðjustund. Ofanrituð persnesk ljóðlína frá 11. öld, úr Rubáiyát eftir Khayyám er sígild ábending um hverfulleika lífsins og mikilvægi þess að við fjarlægjumst ekki og gleymum, heldur ræktum tryggð og vina- og ættarbönd, því hratt flýgur stund.

Við getum líka verið þess minnug að í hinum harða heimi eru gleði og góðvild ekki alltaf goldin að jöfnu. Þar verða oft þeir sem ríkast hafa að gefa einnig þeir sem mest þurfa að gjalda. Um hlutskipti gefendanna orti Davíð Stefánsson: "Fáir njóta eldanna, sem fyrstir kveikja þá." Það er með sorg og söknuði sem við kveðjum nú elskaðan og góðan dreng, sem nú er farinn í sína hinstu ferð heim til afa og ömmu.

Bjarni Sigtryggsson.