Á LISTAHÁTÍÐ Reykjavíkur hefur margt góðra verka verið sýnt bæði af innlendum og erlendum uppruna, flutt af íslenskum og erlendum listamönnum. Meðal þess sem hátíðin bauð upp á er sýning Íslenska dansflokksins á verkunum "Night" eftir Jorma Outinen sem hann byggir á þjóðlagi frá 9.
Þriggja verka sýning

Íslenska dansflokksins

Á LISTAHÁTÍÐ Reykjavíkur hefur margt góðra verka verið sýnt bæði af innlendum og erlendum uppruna, flutt af íslenskum og erlendum listamönnum. Meðal þess sem hátíðin bauð upp á er sýning Íslenska dansflokksins á verkunum "Night" eftir Jorma Outinen sem hann byggir á þjóðlagi frá 9. öld, "Stoolgame" eftir Jirí Kylián sem lýsir valdníðslu mannsins og miskunnarleysi hans og "La Cabina 26" eftir Jochem Ulrich sem var frumsýnt af Íslenska dansflokknum á síðasta ári og lýsir örvæntingu, ástríðu og baráttu listamanna fyrir tilvistarrétti sínum.

Eins og kunnugt er heldur dansflokkurinn uppá 25 ára afmæli sitt á þessu ári og er sýningin liður í hátíðahöldum sem lýkur síðar á árinu. Mikill uppgangur hefur verið hjá dansflokknum síðustu misseri og hefur aðsókn að sýningum þeirra aukist jafnt og þétt enda hefur verkefnaval verið fjölbreytt, nútímalegt og skemmtilegt.

Auk Íslenska dansflokksins komu fram gestadansararnir Cameron Corbett og Leszek Kuligowski en aðeins voru haldnar tvær sýningar í tilefni listahátíðar.



Morgunblaðið/Jón Svavarsson ÁSDÍS Ingvadóttir, Anna Norðdahl, Nadía Banine og Peter Andersson voru mætt til að njóta listdansins.

ÁSDÍS Magnúsdóttir og Jochem Ulrich veltu vöngum yfir verkum Jorma Outinen og Jirí Kylián sem voru sýnd fyrir seinna hléð.

ANNA Ringsted, Eva María Jónsdóttir, Rebekka Sigurðardóttir og Atli Rafn Sigurðsson báru saman bækur sínar í hléi.

ÞÓRHILDUR Þorleifsdóttir færði Íslenska dansflokknum afmælisgjöf í lok sýningar og hafði á orði stórfengleika sýningarinnar en húsið nötraði í miðri sýningu þegar jarðskjálfti uppá 5,3 á Richter reið yfir.