ÁSA Einarsdóttir er nýráðinn framkvæmdastjóri á fjármálasviði hjá þýska skipaflutningafélaginu Bischoff Gruppe sem Samskip hefur keypt. Elmar Gíslason ræddi við hana á dögunum og forvitnaðist um starfsemi þessa nýja dótturfyrirtækis Samskipa sem hefur aðsetur í Bremen og hvaða augum Ása lítur möguleika þess í framtíðinni.
ÐÁsa Einarsdóttir hefur tekið við framkvæmdastjórastöðu hjá nýju dótturfyrirtæki Samskipa í Þýskalandi

Framtíðin í Eystrasaltinu

ÁSA Einarsdóttir er nýráðinn framkvæmdastjóri á fjármálasviði hjá þýska skipaflutningafélaginu Bischoff Gruppe sem Samskip hefur keypt. Elmar Gíslason ræddi við hana á dögunum og forvitnaðist um starfsemi þessa nýja dótturfyrirtækis Samskipa sem hefur aðsetur í Bremen og hvaða augum Ása lítur möguleika þess í framtíðinni.

ÞRÁTT fyrir að ekki séu nema 7 ár síðan Ása útskrifaðist úr viðskiptadeild Háskóla Íslands, þá hefur hún þegar öðlast mikla reynslu á þeim vettvangi sem snýr að rekstri fyrirtækja í sjóflutningum. Strax að loknu námi réð Ása sig til starfa hjá Eimskipi, þar sem hún vann í tvö ár við bókhald og í útflutningsdeild. Árið 1993 ákvað hún að söðla um og flutti sig yfir til keppinautanna í Samskipum sem áttu talsvert undir högg að sækja á þeim tíma. Staðan í dag er hins vegar talsvert önnur, veltan hefur aukist úr 3,5 milljörðum árið 1993 í að verða sex milljarðar króna í fyrra. Félagið rekur 21 dótturfyrirtæki beggja vegna Atlantshafs auk þess að hafa nýlega gengið frá kaupum á Bischoff Gruppe, sem var með jafn mikla veltu og móðurfyrirtækið á síðasta ári en samanlögð velta Samskipa og dótturfélaga á þessu ári er áætluð nálægt 13 milljörðum króna.

Grunnurinn lagður með aðkomu Bischoff 1994

Ása telur engan vafa leika á því að uppgang Samskipa og þá velgengni sem félagið hefur notið síðustu ár, megi m.a. rekja til samstarfsins við Bischoff Gruppe sem hófst árið 1994. Stærsti hluthafi í félaginu á þeim tíma var Landsbanki Íslands með um 85% eignarhlut á sínum snærum eftir fall Sambandsins. Ákveðið var að ráðast í hlutafjáraukningu með það fyrir augum að styrkja reksturinn. Bischoff Gruppe var á meðal þeirra sem keyptu hlut í félaginu og Ása segir að þar með hafi grunnurinn að bættum rekstri verið lagður því sú reynsla sem þeir báru með sér og það góða orðspor sem fór af þýska félaginu á erlendum mörkuðum, gerði það að verkum að tiltrú manna á Samskipum jókst og aðrir fjárfestar tóku að sýna félaginu áhuga.

Meginskipulagsbreytingar þegar frágengnar

Eftir einungis tveggja ára starf hjá Samskipum, var Ása ráðin framkvæmdastjóri nýs dótturfélags í Hull sumarið 1995 þar sem hún hefur unnið að uppbyggingu síðastliðin þrjú ár með dyggri aðstoð Kristjáns Pálssonar, sölustjóra, sem mun nú taka við hlutverki Ásu og stjórna rekstrinum í framtíðinni.

Eftir að umræður hófust á mögulegum kaupum Samskipa í Bischoff Gruppe á síðasta ári, fór Ása ásamt Róbert Wessman, þáverandi deildarstjóra útflutningsdeildar Samskipa og núverandi forstjóra Bischoff Gruppe, til Þýskalands til að kanna jarðveginn. Niðurstaðan varð sú að Samskip keypti félagið í heild sinni og tók formlega við rekstrinum í byrjun maí sl.

Ása segir að þegar hafi verið ráðist í ýmsar skipulagsbreytingar, en bætir við að mikið verk sé enn óunnið. Búið er að endurskipuleggja reksturinn frá grunni og skiptist hann nú í þrjú svið: Flutningasvið, rekstrarsvið og fjármálasvið sem Ása veitir forstöðu: "Nýja skipulagið gerir rekstrarfyrirkomulag Bischoff einfaldara í sniðum og samræmdara því skipulagi sem Samskip og önnur dótturfyrirtæki byggja á." Til að auka samhæfingu fyrirtækjanna enn frekar verður innleitt nýtt tölvu- og upplýsingakerfi fyrir þýska félagið sem Samskip hefur þróað á liðnum árum.

Sterk markaðsstaða í Eystrasaltslöndunum og nágrenni

Markaðssvæði skipaflutningadeildar Bischoff Gruppe liggur aðallega í löndum Norður-Evrópu og Eystrasaltsríkjunum. Félagið hefur t.a.m. öðlast sterka stöðu í St. Pétursborg eftir að hafa verið fyrsta og eina erlenda skipafélagið sem fékk leyfi til að stunda þangað reglubundnar siglingar á dögum kalda stríðsins. Eftir endalok Sovétríkjanna hefur markaðurinn opnast og umferðin að sama skapi aukist. Ása segir Bischoff nú njóta þess umfram "nýliðana" sem hafa viðkomu í St. Pétursborg, að búa að mikilli reynslu á þeim markaði auk þess sem Bischoff hefur þar eigið athafnasvæði til umráða sem kemur sér vel í höfn sem annar ekki skipaumferðinni. Skip Bischoff sigla einnig vikulega til Riga auk þess sem gert er út á siglingaleiðina England-Skandinavía, með viðkomu í Hollandi. Þessum verkefnum sinna átta skip auk leiguskipa sem bætt er við eftir þörfum.

Meðal dótturfyrirtækja Bischoff er skipaleiga sem Ása segir grundvöll þess að geta viðhaldið þeim sveigjanleika sem félagið ræður yfir: "Fjöldi leiguskipa getur verið mjög mismunandi eftir verkefnum hverju sinni en skipaleigan gerir okkur kleift að bregðast fljótt við þörfum markaðarins með því að fjölga eða fækka leiguskipum í flotanum, eftir því sem við á."

Ása telur að styrkur Bischoff á hinum ört vaxandi rússneska markaði muni auka möguleika félagsins til muna og sé m.a. grundvöllur þeirra viðræðna sem Samskip Inc. í Norfolk á um þessar mundir við tvo stærstu kjúklingaframleiðendur í Bandaríkjunum um að félagið annist árlega flutninga á 50 þúsund tonnum af frosnum kjúklingum til Rússlands.

Aukin skilvirkni

Þrátt fyrir að nýir eigendur Bischoff Gruppe hafi þegar lagt grunninn að skipulagi félagsins í framtíðinni, þá er að sögn Ásu enn mikið verk óunnið hvað varðar hagræðingu þar sem markmiðið er að auka skilvirkni og arðsemi af einstökum rekstrareiningum: "Þannig leikur enginn vafi á að ákveðnar skipulagsbreytingar hafi þurft að eiga sér stað en þeirri vinnu er nú að ljúka og fyrir liggur að fínpússa reksturinn enn frekar á næstu mánuðum. Við áætlum að stöðugildum hjá Bischoff hafi fækkað um 40 og er heildarfjöldi starfsmanna eftir fækkun 240.

Þá segir Ása skipakost og siglingaleiðir félagsins einnig vera til endurskoðunar: "Áherslan verður áfram á þann markað sem Bischoff hefur byggt upp í löndunum við Eystrasaltið og nágrenni með tengingu við siglingar Samskipa til Íslands og Bandaríkjanna. Við ætlum okkur hins vegar að reyna að gera enn betur á svæðinu auk þess sem útlit er fyrir að skipunum verði fækkað og stærri farkostir með meiri burðargetu fengnir til verka á siglingaleiðunum."

Spennandi verkefni

Það er ekki á hverjum degi sem ungar íslenskar konur ráðast til forystustarfa hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum eins og Bischoff Gruppe.

Ása kveðst líta framtíðina björtum augum. Þrátt fyrir að hefja störf í nýju landi með menntaskólaþýskuna eina að vopni til að byrja með, segist hún fullviss um að rekstur Bischoff eigi eftir að auka veg Samskipa enn frekar á komandi árum.

Morgunblaðið/Þorkell ÁSA Einarsdóttir Veltan í ár nálægt 13 milljörðum

Miklir möguleikar í Rússlandi