SÉRSTAKAR leiguíbúðir fyrir aldraða hafa ekki þekkst hér á landi. Nú stefnir sjómannadagsráð á að reisa hús með leiguíbúðum fyrir aldraða við Hrafnistu í Hafnarfirði. Guðmundur Hallvarðsson, formaður sjómannadagsráðs, segir markmiðið vera að bjóða eldri borgurum upp á nýja möguleika.
Sjómannasamtökin hyggjast reisa leiguíbúðir við Hrafnistu í Hafnarfirði

Gefur eldri borgurum tækifæri til að njóta efri ára

SÉRSTAKAR leiguíbúðir fyrir aldraða hafa ekki þekkst hér á landi. Nú stefnir sjómannadagsráð á að reisa hús með leiguíbúðum fyrir aldraða við Hrafnistu í Hafnarfirði. Guðmundur Hallvarðsson, formaður sjómannadagsráðs, segir markmiðið vera að bjóða eldri borgurum upp á nýja möguleika. "Þessi leið gefur eldri borgurum tækifæri til að njóta efri áranna án þess að þurfa að hugsa um fasteignagjöld og viðhald eigna með tilheyrandi kostnaði," sagði hann.

Á stefnuskránni til að byrja með er að reisa eitt hús með 26 íbúðum og hefjast framkvæmdir um næstkomandi áramót að fengnu samþykki bæjaryfirvalda í Hafnarfirði. Íbúðirnar verða tveggja til þriggja herbergja af stærðinni 70 til 90 fm og verður mánaðarleigan á bilinu 50 til 60 þúsund krónur. Að sögn Guðmundar er verið að koma til móts við aldurshópinn á milli 60 til 70 ára sem vill e.t.v. ekki endilega fjárfesta í nýrri eign sem þarf síðan að hugsa um viðhald á en hefur samt hug á að minnka við sig. Væntanlegir íbúar munu geta nýtt sér þá þjónustu sem fyrir er á Hrafnistu.

Aukið ráðstöfunarfé væntanlegra leigjenda

Gert er ráð fyrir því að íbúar eigi fjárhagslegar eignir, t.d. vegna sölu á eigin íbúðarhúsnæði. Hugmyndin er sú að væntanlegir leigjendur leggi fjárhagslegar eignir inn á svokallaðan fjárvörslureikning hjá verðbréfafyrirtæki eins og VÍB. Leiga íbúðarinnar verður svo greidd út af þessum reikningi.

Þetta fyrirkomulag getur aukið ráðstöfunartekjur viðkomandi einstaklinga verulega. Sem dæmi má nefna að hjón sem eiga tíu milljónir króna í fjárvörslu hafa t.a.m. um 115 þúsund krónur til ráðstöfunar eftir að greidd hefur verið húsaleiga, hiti og rafmagn í tuttugu ár eftir að reikningurinn er stofnaður. Þessi upphæð bætist að sjálfsögðu við aðrar ráðstöfunartekjur.

Í framtíðinni er stefnt að því að reisa tvær íbúðablokkir í viðbót á þessu sama svæði. Þá er hugmyndin að þjónustukjarni muni rísa á þessu sama svæði þannig að íbúar þurfi ekki að fara langa leið til að sækja í matvöruverslanir og aðra þjónustu.

"Bygging þessara leiguíbúða er liður í framkvæmd stefnu sjómannadagsráðs sem hefur það að markmiði sínu að verða leiðandi í þjónustu og umönnun aldraðra," segir Guðmundur.

VÆNTANLEGAR leiguíbúðir koma til með að rísa suðaustan megin við Hrafnistu í Hafnarfirði. Myndin sýnir íbúðablokkirnar en það er Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar sem hannaði húsin.

ÞESSI mynd sýnir neðstu hæðina sem snýr í átt að eldri húsunum.