Af Kálfatindum má sjá norður allar Strandir allt að Hornbjargi, segir Haukur Jóhannesson, og til austurs sést yfir Húnaflóa og Skaga allt til Tröllaskaga. AUSTURSTRANDIR er svæðið nefnt austan Hornbjargs allt suður í Kaldbaksvík. Tiltölulega fáir ferðamenn fara um þetta svæði. Hluti þess er allerfiður yfirferðar og akfær vegur nær aðeins norður í Ingólfsfjörð.
Stórbrotin náttúra á Ströndum

Af Kálfatindum má sjá norður allar Strandir allt að Hornbjargi, segir Haukur Jóhannesson , og til austurs sést yfir Húnaflóa og Skaga allt til Tröllaskaga.

AUSTURSTRANDIR er svæðið nefnt austan Hornbjargs allt suður í Kaldbaksvík. Tiltölulega fáir ferðamenn fara um þetta svæði. Hluti þess er allerfiður yfirferðar og akfær vegur nær aðeins norður í Ingólfsfjörð. Þar fyrir norðan verður að ferðast um á tveimur jafnfljótum. Allt er þetta svæði fjöllótt og stórskorið og náttúran hrikaleg. Há og brött fjöll eru við alla firði og ganga þau víða í sjó fram þannig að ekki verður farið fyrir þau nema eftir einstigum eða að sæta sjávarfjöllum. Byggð er aðeins í og við Trékyllisvík í Árneshreppi. Ferðafélag Íslands hefur nýlega fest kaup á jörðinni Norðurfjörður II og rekur þar nú sæluhús. Á þessum slóðum eru náttúran einkar fjölbreytt og landslag stórbrotið. Einnig er dýralíf fjölbreytt, mikið af fuglum og töluvert af sel. Aðstaða fyrir ferðamenn er góð á þessum slóðum. Verslun er á Norðurfirði og skammt utan við Krossnes er sundlaug á sjávarbakkanum. Frá Norðurfirði er hægt að fá flutning á bát norður Strandir, t.d. til Reykjafjarðar eða Dranga. Upplagt er fyrir göngufólk að skilja farartæki sín eftir í Norðurfirði, fá far norður í Reykjarfjörð og ganga svo á nokkrum dögum til baka til sama lands.

Í Trékyllisvík er kjörið gönguland. Þar er bæði hægt að fara í léttar og erfiðar gönguferðir. Þar eru margir sögustaðir sem tengjast Finnboga sögu ramma, Flóabardaga og galdrafárinu sem gekk yfir um miðja sautjándu öldina. Má þar einkum benda á Kistu þar sem þrír dæmdir galdramenn voru brenndir í september 1654. Kista er sérkennileg klettaskora niður í fjöru skammt vestur af Stóru-Ávíkurbænum. Einn þessara manna á að sögn að hafa losnað af bálinu og leynst með reyknum og komist í helli undir Reykjaneshyrnu sem síðan hafi fengið nafnið Þórðarhellir. Það er um klukkustundargangur frá Litlu-Ávík í Þórðarhelli en einungis um tíu mínútna gangur frá vegi í Kistu. Skoðunarverður er forn kirkjugarður og kirkjutóft í Bæ. Þar segir sagan að Finnbogi rammi hafi reist kirkju sem síðar hafi verið færð í Árnes. Í Árnesi er fornt naust sem nefnist Flosanaust eða Trékyllisnaust og þar áttu austmenn að hafa brotið skip sitt á landnámsöld og smíðað annað upp úr flakinu sem var klunnalegt í laginu, breitt um miðjuna. Það fékk nafnið Trékyllir og af því á víkin síðan að hafa dregið nafn.

Víða á þessum slóðum eru stakir drangar og stapar sem um hafa skapast þjóðsögur. Oftast eru þær tengdar tröllum. Árnesstapar eru þekktastir en þar á tröllahjónin úr Hornbjargi að hafa dagað uppi. Einnig eru sagnir um að tvö tröll hafi ætlað að hlaða fyrir Norðurfjörð en nóttin verið fullstutt og þau hafi orðið að steini er dagur rann. Sitthvorum megin eru klettabríkur sem talin eru merki um fyrirhleðsluna. Að sunnan er Tröllahlaði en Bergið að norðan.

Sagnir af Guðmundi góða eru margar og nær ávallt tengdar örnefnum. Í fyrndinni og reyndar alla tíð uns akvegur var lagður, þóttu ferðalög um Urðirnar undir Hlíðarhúsafjalli, milli Mela og Norðurfjarðar, vera varhugaverð, einkum að vetri. Þegar Guðmundur góði var þar á ferð settist hann í sæti sem er í klettastapa sunnanvert við Norðurfjörð og blessaði Urðirnar og mælti svo fyrir að þar skyldi engum hlekkjast á. Sætið heitir nú Gvendarsæti og er í vegbrúninni.

Út frá skála Ferðafélagsins er hægt að ganga á há fjöll, m.a. Kálfatinda og Hlíðarhúsafjall. Af þessum fjöllum er gríðarmikið útsýni. Af Kálfatindum má sjá norður allar Strandir allt að Hornbjargi og til austurs sést yfir Húnaflóa, Skaga og til Tröllaskaga. Uppganga á þessi fjöll er fremur hæg. Gengið er á Kálfatinda af svonefndu Eiði, milli Norðurfjarðar og Ingólfsfjarðar, og þaðan upp hrygg vestur af þeim.

Höfundur er forseti FÍ.

HLÍÐARHÚSAFJALL í Trékyllisvík.