DEILURNAR standa um vatn. Fyrir árið 1992 fóru að meðaltali um 15 rúmmetrar vatns á sekúndu á ári úr Skaftá við árkvíslar (Brest) yfir Eldhraun, með tilheyrandi aur og sandburði.
Þurrkar í ám og vötnum í Skaftárhreppi

Grunnvatnsgeymar undir Eldhrauni líklega að gefa sig

Síðan menn byrjuðu að "stýra" rennsli Skaftár um miðja þessa öld, hefur ástand náttúrunnar á svæðinu í kringum Eldhraun farið versnandi, þar á meðal í veiðilækjunum Grenlæk og Tungulæk. Ekki eru allir á eitt sáttir um hverju eða hverjum er um að kenna. Þóroddur Bjarnason kynnti sér málið en útlit er fyrir að næsta skref verði gerð umhverfismats fyrir svæðið í heild

DEILURNAR standa um vatn. Fyrir árið 1992 fóru að meðaltali um 15 rúmmetrar vatns á sekúndu á ári úr Skaftá við árkvíslar (Brest) yfir Eldhraun, með tilheyrandi aur og sandburði. Þar fór það út á hraunið, hvarf niður í grunnvatnsgeymslur undir því og kom síðan hreint og síað fram undan hrauninu í ám og vötnum. Þetta hækkaði jarðvatnsstöðu í Fljótsbotni og umhverfi og kom mest fram í auknu rennsli í Eldvatni í Meðallandi þó hugsanlega hafi þetta vatn skapað þrýstiáhrif yfir í Grenlæk og Tungulæk, samkvæmt rannsóknum Snorra Zóphaníassonar hjá Orkustofnun.

Vegagerðin byggði varnargarð árið 1992 þar sem þessu vatni var veitt aftur út í Skaftá og bættist í rennsli árinnar í austur, í átt að Kirkjubæjarklaustri. Að mati Snorra kemur þetta Grenlæk til góða þar sem vatnið sækir meira út á hraunið við Skál og Holtsdal.

Bændur vilja hinsvegar vatnið aftur en Vegagerð ríkisins og Landgræðsla ríkisins segja að ekki verði við það unað að áin fái að bera hindrunarlaust sand og annað út á hraunið og fylla í það þannig að hún flæði að lokum lengra og lengra nær veginum í leysingum. Sandurinn sem hún skilur eftir fýkur upp og getur lokað þjóðveginum. Auk þess skemmast jarðir og náttúruperlan Eldhraun er í hættu. Allt þetta tengist síðan afkomu Skaftárhrepps sem hefur tekjur af ferðamannaþjónustu á svæðinu meðal annars. Margir eiga því hagsmuna að gæta og sýnt er að snúið verður að leysa málin þannig að allir verði ánægðir.

Enn fer þó vatn niður eftir Bresti en minna en áður og hjá vegagerðinni segjast menn hafa komið til móts við bændur með lögn tveggja röra í stífluna þar sem fara um nokkrir rúmmetrar á sekúndu.

Lítið vatn, minni árangur

Landeigendur við Grenlæk og Tungulæk, tveggja af bestu og verðmætustu sjóbirtingsveiðiám landsins, sem eru yfirfall af grunnvatni sem safnast undir Eldhraun, segja veiðisumarið líklega ónýtt í ár vegna mikilla þurrka í ánum. Framkvæmdir hafa verið nú í vor við Skaftá, stutt frá Grenlæk og Tungulæk, sem miða að því að koma vatni stystu leið út í lækina en enn á eftir að koma í ljós hverju þær áorka enda er lítið vatn í Skaftá og það dregur úr möguleikum á árangri.

Grenlækur og Tungulækur eru "nágrannar" og svipaðir að stærð. Er grunnvatn nær ákveðnu magni í grunnvatnsgeyminum undir Eldhrauni seitlar það út í lækina.

Garðurinn sem byggður var í síðustu viku beinir vatni úr Skaftá yfir Eldhraun stystu leið og vonast er til að vatn komi fram í Grenlæk og Tungulæk á næstu dögum en lækirnir eru báðir uppþornaðir að stórum hluta. Ofarlega í Grenlæk eru vaxtarstöðvar sjóbirtingsins en þar er nú allt þurrt og skaðinn því tilfinnanlegur. Veita má vatni út á hraunið þar til Skaftá verður jökullituð, eða fram til 20. júní næstkomandi.

Erlendur Björnsson bóndi í Seglbúðum segir að um milljóna tjón sé að ræða fyrir sig og aðra bændur í veiðifélagi Grenlækjar og hann hefur ákveðið að leita réttar síns, eins og hann orðar það. "Mér finnst það liggja mjög ljóst fyrir að þegar tekið er vatn af manni á maður að geta fengið það aftur," segir Erlendur.

Að hans sögn verður hann að bregða búi á Seglbúðum ef skaðinn er varanlegur. "Ég get sagt þér eins og er að ég bý ekki öðruvísi en að hafa tekjur af þessu." Erlendur kennir Vegagerðinni um þurrkinn en Vegagerðin kennir afbrigðilegu veðurfari nú síðla veturs um og vitnar í skýrslu Snorra Zóphaníassonar hjá Orkustofnun frá árinu 1997.

Menn farnir að tala saman

Lækjamálið hefur verið mikið hitamál undanfarin ár og aðilar sem að því standa, bændur sem eiga hagsmuna að gæta, sem og opinberir aðilar, settust loks niður nú í ár til að ræða hvernig bregðast megi við ástandinu. Að sögn Harðar Davíðssonar eins eiganda Grenlækjar og talsmanns veiðifélagsins, hefur lengi verið stirt á milli manna enda hafa bændur reynt að knýja á um aðgerðir undanfarin ár, án árangurs. "Það helsta sem hefur áunnist í þessum málum í vetur er að menn eru farnir að ræða saman," sagði Hörður í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að mörg ár geti tekið að endurbyggja ána sem veiðiá.

Skaftá er sambland af jökulá og bergvatnsá. Við Skaftárdal skiptir hún sér, annar hlutinn fer til vesturs en hinn til austurs í átt að Kirkjubæjarklaustri. Aurburður og sandfok á svæðinu hafa smám saman sest í hraunið þar sem áin fer um í leysingum og skapað sandfláka sem síðan blása upp. Ein leið til að reyna að stemma stigu við þessu er að setja upp lokubúnað í stífluna í Bresti þar sem aðeins yrði hleypt bergvatni út á hraunið en þegar jökulvatn ykist í leysingum á sumrin yrði lokað fyrir.

Um þetta talar Freysteinn Sigurðsson hjá Orkustofnun meðal annars í skýrslu sinni "Lindir í Landbroti og Meðallandi, uppruni lindavatnsins". Hann segir að koma verði eins miklu vatni og mögulegt er að hausti og vori á hraunið og fylla grunnvatnsstöðuna í hrauninu eins og kostur er, meðan sem hreinast vatn er í Skaftánni.

Sem dæmi um það magn sem Skaftá ber fram reyndist svifaur vera 217 millilítrar á lítra í aurburðarsýni úr Skaftá við Kirkjubæjarklaustur frá 25. maí 1984. Ef það sama gildir um Brest, þá er hér um að ræða meir en 400 tonn af svifaur á sólarhring sem berst út í hraun.

Hörður segir að hægt væri að leysa málið með því að reyna að veita vatni annars staðar en hingað til hefur verið reynt. Hann segir að allt haldist í hendur í náttúrunni, allt sé hluti af fæðukeðjunni og því sé fuglalíf í votlendi líka í hættu, til dæmis út af þurrkunum í lækjunum.

Hörður segir hagsmuni hafa rekist á, hagsmuni vegagerðar og landgræðslu. Hann segir að stjórnvöld séu nú loks komin að þessu máli en ljóst er að ef halda á áfram að eiga við náttúruna gæti það orðið kostnaðarsamt.

Ekki eru þó allir á einu máli um hverjir eiga að borga frekari aðgerðir á svæðinu. Deilt er um til dæmis hverjir eigi að borga hugsanlegt umhverfismat svæðisins og þá í framhaldi þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru eftir að niðurstaða úr umhverfismati liggur ljós fyrir. Tvö ár gæti tekið að gera slíkt mat.

"Þetta er skólabókardæmi um að það eigi setja svona mál í mat á umhverfisáhrifum. Þetta er svo fjölþætt að menn sjá ekki alveg fyrir afleiðingarnar," segir Árni Bragason forstjóri Náttúruverndar.

"Með umhverfismati yrði allavegna kominn úrskurður um hvað ætti að gera," segir Trausti Baldursson sameindalíffræðingur og sviðsstjóri hjá Náttúruvernd ríkisins. "Ég get ekki séð að öllu eðlilegu hvaða aðili það ætti að vera sem ákveður það hvernig Skaftá lítur út, því væri umhverfismat og úrskurður í kjölfarið kannski besta leiðin í málinu."

Trausti segir að burtséð frá öðru þá sé þarna til dæmis í húfi hvort varðveita á Eldhraunið sem er stærsta hraun sem runnið hefur á sögulegum tíma í heiminum og er vaxið mjög sérstökum og fallegum mosa eða hvort fara á fyrir því hrauni eins og eldri hraunum sem fyllst hafa sandi og framburði og síðan hefur gróið yfir.

Hlaupin hafa bjargað okkur

Erlendur bóndi í Seglbúðum segir að það sem hafi "bjargað" bændum við Grenlæk síðan Vegagerðin setti upp varnargarðinn hafi verið hlaup sem komið hafi fram og fyllt upp grunnvatnsbirgðirnar undir hrauninu. "Við höfum lifað á því æði lengi," sagði Erlendur sem fullyrðir að Vegagerðinnni sé um vatnsleysið í Grenlæk að kenna og þau náttúruspjöll sem þar hafa orðið.

"Það væri fráleitt að telja að lækurinn væri þurr nema vegna þessarar stíflugerðar. Við höfum í okkar málflutningi lagt áherslu á það að Grenlækur er á náttúruminjaskrá fyrir óvenjumikið lífríki sitt og því sé það skylda ríkisins að sjá til þess að vernda lífríkið með nægu vatnsrennsli allt árið um kring."

Beinar tekjur af veiðinni í lækjunum skipta milljónum króna fyrir hvern bónda á ári að sögn Erlendar. "Magnús Jóhannesson hjá veiðimálastofnun á Suðurlandi fór nýlega um svæðið og var dolfallinn yfir ástandinu. Hann og menn hans voru magnþrota eftir að hafa farið um langan þurran farveg þar sem áður voru hrygningarstöðvar sjóbirtingsins. Við sjáum fram á ónýtt sumar. Það voru teknir af okkur 15 ­ 18 rúmmetrar af vatni en enginn vill trúa okkur. Það er ekki fyrr en lækur er þurr að gripið er til aðgerða og það er fullseint. Þetta gerist þrátt fyrir margra ára baráttu bænda fyrir að gripið verði í taumana."

Vegagerðin hefur mikilla hagsmuna að gæta. Hún þarf að vernda þjóðveginn fyrir vatni og sandi og það er meginástæðan fyrir uppsetningu varnargarðsins við Brest.

Helgi Jóhannesson hjá Vegagerð ríkisins segir að varnargarðurinn hafi verið gerður til að minnka framburð sands út á hraunið og jafnfram minnka það vatn sem kemur niður að veginum við Brest.

Árið 1992 var sett rör ofarlega í garðinn sem var síðan lækkað árið 1993. "Engu að síður höfðu bændur við Grenlæk og fleiri enn áhyggjur og ákveðið er að hefja rannsóknir og er það Orkustofnun sem sér um þær. Niðurstöður voru þær að ekki væri hægt að segja að þetta minnkaði vatn í Tungulæk né Grenlæk. Skýringin er sú að út af gerð þessa garðs fer meira vatn í áttina að Klaustri og rennsli í átt að Grenlæk eykst því í raun og veru. Ekki má gleyma því að vatn síast einnig í gegnum árfarveginn sjálfan og bætist þaðan í grunnvatnið," segir Helgi.

Hann segir að bændur hafi byggt garð á sínum tíma sem hélt í síðasta Skaftárhlaupi með þeim afleiðingum að vatn fór yfir veginn. "Ég er ekki að segja að það sé honum að kenna en við erum að vinna í samvinnu við þá að því að gera yfirfall á þann garð til að í hlaupi geti rennsli farið aftur út í Skaftá Við reynum að vinna með bændum að lausnum."

"Síðan gerist það núna að það er svona ofboðslegur þurrkur á svæðinu og enginn snjór. Ég held að allir séu sammála um það að þessi þurrkur í Grenlæk sé fyrst og fremst útaf afbrigðilegu veðurfari núna síðla vetrar og það passar við það sem Snorri Zóphaníasson hjá Orkustofnun segir í skýrslu sinni sem hann gerði á síðasta ári," segir Helgi.

"Eftir að hafa skoðað rennslisgögn og veðurfarsskýrslur frá þeim tíma sem síritar hafa verið reknir á svæðinu virðist höfundi að veðurfar að vetri, sérstaklega síðla vetrar, sé langáhrifamest þeirra þátta sem ráða grunnvatnsstöðu og rennsli lækja í Landbroti og Meðallandi næsta sumar á eftir," segir Snorri í skýrslu sinni.

Aldrei minna vatn en nú

Snorri hefur nú nýlokið við aðra skýrslu um vatnabúskap svæðisins. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að sér sýnist grunnvatnsgeymirinn undir Eldhrauni vera að gefa sig. Það virðist geta verið helsta ástæðan fyrir vatnsþurrðinni, sem sé reyndar áberandi mikil á þessu vori. Hann segir að í Fljótsbotni hafi vatnsborð aldrei farið neðar síðan mælingar hófust en nú í apríl.

"Það er eitthvað meira að gerast en venjulega. Í haust var mikið rennsli í Skaftá og í desember og janúar mjög mikið og það sama var uppi á teningnum í Tungulæk og Grenlæk. Þegar kemur fram í febrúar ­ mars minnkar hratt í ánum og í lok mars fer það niður fyrir það sem áður hefur gerst. Ástæðan er sú að í vetur var mikil úrkoma í desember ­ janúar sem skilaði sér strax niður út í sjó. Óvenju lítill snjór settist fyrir í hrauninu en hann er vanalegast varasjóður fyrir grunnvatnsgeymana undir hrauninu.

Það er athyglisvert að stærsta vatnsfallið, Eldvatn í Meðallandi, hefur rýrnað hlutfallslega mest. Vatnið þar byggist mest á heildarstöðu grunnvatns og mér virðist sem grunnvatnsrennslið undir öllu vatnasviði Skaftár, sem ræðst af langtíma meðaltali úrkomu á svæðinu, hafi minnkað ," segir Snorri.

Hann segir að sér virðist stíflan við Brest ekki hafa úrslitaáhrif á vatnsmagn í Grenlæk en það er öfugt við það sem bændur álíta.

"Það væri sennilega mjög lítið í honum núna, jafnvel þótt enginn garður væri í Bresti."

Ein hugmynd, sem er í athugun hjá Landsvirkjun, er að hleypa Skaftánni í Langasjó og virkja þar.

"Landsvirkjun myndi taka ána það ofarlega að hún myndi einungis taka jökulvatnið. Þá yrði hægt að halda uppi rennsli í austurátt með aðgerðum í Skaftárdal. Þessi lausn hefur bæði kosti og galla en hún gæti kannski orðið besta lausnin."

Morgunblaðið/RAX HYLUR undir Stórafossi í Grenlæk. Hann er góður mælikvarði á hve mikið grunnvatnsstaða í Eldhrauni þarf að hækka til að vatn fari að renna í lækinn. Vatnsyfirborð hylsins þarf að hækka um 3 metra svo vatn haldi áfram niður árfarveginn.

Ljósmynd/Trausti ??? HÉR sést vel hvernig Skaftá hefur skilið fyllt upp í hraunið með framburði sínum. Ef áin fengi að renna óhindrað um Eldhraun myndi það hverfa smátt og smátt undir framburð árinnar.

VARNARGARÐURINN umdeildi sem vegagerðin reisti og beindi vatni því sem áður rann um Brest eftir Skaftá í átt að Kirkjubæjarklaustri. Neðst í garðinum sést annað rörið sem sett var í ána til að hleypa vatni yfir hraunið.

GARÐURINN sem bændur byggðu stutt frá bænum Skál og beindi vatni út á hraunið. Vegagerðin rauf hann eftir að Skaftá fór yfir þjóðveginn í hlaupi í fyrra sumar.

Morgunblaðið/Hanna FRAMKVÆMDIRNAR sem nú voru við garðinn. Vonast er eftir að vatn skili sér úr þessari kvísl í Grenlæk og Tungulæk von bráðar.

TAFLA.

kort