Leikstjórn: Peter Schrøder. Handrit: Peter Bay og Jørgen Kastrup. Kvikmyndataka: Kirk Bruel. Tónlist: Jan Glæsel. Aðalhlutverk: Waage Sandø, Inge Sofie Skovbe, Birthe Neuman, Puk Scharbau, Amelie Dollerub og Kristian Halken. lengd 195 mín. Dönsk. Háskólabíó, júní 1998. Leyfð öllum aldurshópum. HÉR er sögð ævisaga danska rithöfundarins Lise Norregaard, sem m.a.
Stúlka í heimi stráka Bara stelpa (Kun en pige) Sögulegt drama

Leikstjórn: Peter Schrøder. Handrit: Peter Bay og Jørgen Kastrup. Kvikmyndataka: Kirk Bruel. Tónlist: Jan Glæsel. Aðalhlutverk: Waage Sandø, Inge Sofie Skovbe, Birthe Neuman, Puk Scharbau, Amelie Dollerub og Kristian Halken. lengd 195 mín. Dönsk. Háskólabíó, júní 1998. Leyfð öllum aldurshópum. HÉR er sögð ævisaga danska rithöfundarins Lise Norregaard, sem m.a. á heiðurinn af hinum stórvin sælu "Matador" þáttum sem mörgum eru enn í fersku minni. Lítil stúlka fæðist árið 1917, inn í fjölskyldu sem vill dreng. Faðirinn er vel stæður kaupmaður sem verður fyrir hroðalegum vonbrigðum með frumburðinn. Hann er aldamótamaður og húsbóndi á sínu heimili. Í hans augum eru karlar sjálfskipaðir stjórnendur, virðulegir hanar í hópi hávaðasamra pútna. "Bara stelpa" fjallar um kúgun kvenna á fyrri hluta 20. aldar. Spurningin hvers vegna karlarnir ráði en konurnar sitji heima, er meginviðfangsefnið og svarið er einfalt: formgerð samfélagsins miðar markvisst að því fyrirkomulagi. Það þarf sterk bein til að þola stöðuga höfnun, vanmat fjölskyldu og mismunun. En Lise á sér draum, að verða blaðamaður. Með óbilandi þrautseigju og skapfestu tekst henni að ná markmiði sínu, en lendir þó að lokum í hjónabandi og gríðarlegum barneignum. Hún þarf að horfast í augu við líf sitt og aðstæður til að komast að niðurstöðu um framtíðina. Í myndinni er sögð löng og mikil saga sem spannar yfir 30 ár. Sjónarhornið einskorðast við söguhetjuna, enda er myndin unnin upp úr sjálfsævisögu Norregaard. Leikur, kvikmyndataka, tónlist, leikstjórn og tæknivinna er allt til stakrar fyrirmyndar, og útlit myndarinnar minnir mikið á fyrrnefnda "Matador" þætti. Lise elst upp í umhverfi hliðstæðu því sem sagt er frá í þáttunum og myndin ætti að vera fengur fyrir sanna aðdáendur þeirra. Fyrir þá sem hvorki hafa áhuga á "Matador" né sögulegri þróun stöðu kvenna á þessari öld, er hún trúlega helst til langdregin og hæg. Nokkuð vantar á að myndin nái flugi sem sjálfstætt verk, því boðskapurinn leyfir ekki styttingar sem hefðu verið nauðsynlegar til að herða á frásögninni. Sem söguleg epík stendur hún þó fyrir sínu. Guðmundur Ásgeirsson