Swingbandið: Reynir Sigurðsson, píanó, Grímur Helgason, klarinett, Helgi S. Skúlason og Dagur Bergsson, víbrafónar og trommur, Örn Arnarsson, bassi. Kvartett Ómars Axelssonar: Ómar, píanó, Hans Jensson, tenórsaxófónn, Gunnar Pálsson, bassi, og Þorsteinn Eiríksson, trommur.

Djasshátíð í Eyjum

DJASS

Akóges, Vestmannaeyjum

DAGAR LITA OG TÓNA

Swingbandið: Reynir Sigurðsson, píanó, Grímur Helgason, klarinett, Helgi S. Skúlason og Dagur Bergsson, víbrafónar og trommur, Örn Arnarsson, bassi. Kvartett Ómars Axelssonar: Ómar, píanó, Hans Jensson, tenórsaxófónn, Gunnar Pálsson, bassi, og Þorsteinn Eiríksson, trommur. Djasskvartett Árna Scheving ásamt Þóru Grétu Þórisdóttur söngkonu: Árni, víbrafónn, Carl Möller, píanó, Gunnar Hrafnsson, bassi, Einar Valur Scheving, trommur. Djassvaktin: Sigurður Flosason, altósaxófónn, Gunnar Gunnarsson, píanó, Tómas R. Einarsson, bassi, og Matthías MD Hemstock, trommur. Tríó Ólafs Stephensens ásamt Reyni Sigurðssyni víbrafónleikara: Ólafur, píanó, Tómas R., bassi, Guðmundur R. Einarsson, trommur. Tríó Björns Thoroddsens ásamt Agli Ólafssyni söngvara. Björn, gítar, Gunnar Hrafnsson, bassi, og Guðmundur Steingrímsson, trommur. Allar hljómsveitirnar léku fyrra kvöldið og einnig það seinna utan tríó Björns. Akóges, 30. og 31.5. 1998.

DAGAR lita og tóna voru haldnir í sjöunda skipti í Vestmannaeyjum um hvítasunnuna. Hátíðin var fyrst haldin í minningu Guðna Hermansens saxófónleikara og listmálara eftir dauða hans og í ár hefði Guðni orðið sjötugur hefði honum enst aldur ­ var jafnaldri Gunnars Ormslevs. Það er Listvinafélagið sem stendur fyrir hátíðinni undir forustu Eyjólfs Pálssonar, sem studdur er af hópi valinkunnra manna s.s. Hermanns meistarakokks Einarssonar og Gauja listmálara í Gíslholti. Ég held að óhætt sé að segja að á árunum eftir stríð og framyfir 1960 hafi íslenskt djasslíf hvergi staðið með slíkum blóma, utan Reykjavíkursvæðisins, sem í Vestmannaeyjum. Ástæður voru margar og ekki síst sú að Vestmannaeyjar voru ein blómlegasta verstöð landsins, mannmergð mikil um hávertíðina, danshallir tvær og samkeppni mikil um gesti. Þýddi þá ekki að bjóða uppá annarsflokks tónlist og voru fengnir færustu hljóðfæraleikarar úr Reykjavík til að leika með heimamönnum.

Ýmsar upptökur hafa varðveist frá þessum tímum og þær elstu með HG sextettinum er Haraldur Guðmundsson trompetleikari stjórnaði. Þetta var hörkugóður svíngsextett og báru þar af tenórsaxófónsólóar Guðna Hermansens, en hann var fremstur vestmanneyskra djassleikara svosem Ormslev íslenskra á þessum árum. Ýmsir aðrir ágætir djassleikarar voru í Vestmannaeyjum á gullárunum s.s. Gísli Bryngeirsson úrsmiður, bróðir Torfa stangarstökkvara sem blés í klarinett, það gerði einnig Huginn Sveinbjörnsson en tvíburabróðir hans, Valgeir, var gítarleikari einsog Gísli Brynjólfsson, afi Írisar Guðmundsdóttur helstu djasssöngkonu Eyjanna, og Páll Steingrímsson kvikmyndagerðarmaður, en bræður hans léku einnig á hljóðfæri, Gísli á saxófón og Jón á píanó. Jón var einstaklega efnilegur djassleikari en fórst kornungur í flugslysi. Af öðrum píanistum verður að geta Alfreðs Washingtons Þórðarsonar og Guðjóns Pálssonar, sem lengi stjórnaði einni helstu danshljómsveit í Reykjavík. Trommarar voru margir í Eyjum: Sigurður Guðmundsson á Háeyri, sem er sá eini af gömlu djassleikurunum er enn býr í Eyjum, Sigurður Þórarinsson mikill burstasnillingur og Sigurjón Jónasson, sem nú er rekstrarstjóri Kirkjugarða Reykjavíkur, en var á þessum árum málarasveinn hjá Guðna Hermansen. Bassasnilling áttu Eyjarnar. Sá var Aðalsteinn Brynjólfsson. Hann lék með helstu djassleikurum landsins eftir að hann fluttist til Reykjavíkur, en býr nú í Danmörku. Gylfi Gunnarsson þyrluflugmaður í Bandaríkjunum var liðtækur trompet- og saxófónleikari og Guttormur Einarsson blés í básúnu. Fleiri mætti telja ­ ekki má gleyma Erling Ágústssyni, sem var landsfrægur dægurlagasöngvari, en gat skattað einsog Ella Fitzgerald og sló víbrafón af miklum móð. Þar að auki hafði hann komið sér upp litlu stúdíói og tók upp Eyjadjassinn og hefur ýmislegt af því varðveist. Svo voru það aðkomumennirnir: Árni Elfar, Axel Kristjánsson, Hrafn Pálsson, Guðmundur Norðdahl, Viðar Alfreðsson og fleiri. En nú er hún Snorrabúð stekkur og á þessari tveggja kvölda djasshátíð mátti aðeins heyra einn Vestmannaeying: Sigurð Guðmundsson trommara, Sigga á Háeyri, sem tók þátt í djammsessjóninni síðara kvöldið.

Fastalandsdjassleikararnir spönnuðu vítt svið frá skólabandi til atvinnuhljómsveita. Þarna var svíng og bíbopp, en ekkert dixí né frjálst.

Swingbandið er skipað nemendum úr Tónlistarskóla Garðabæjar og lék kennari þeirra, Reynir Sigurðsson, á píanó með þeim. Þetta var þokkalegasta skólatónlist, en sem betur fer fengum við að heyra Reyni á aðalhljóðfæri sitt, víbrafóninn, seinna um kvöldið í kompaníi með tríói Óla Steph. Þar fór hann á kostum. Sama mátti segja um kollega hans Árna Scheving sem mætti með nýstofnaðan djasskvartett sinn. Sonur hans, Einar Valur trommari, hættir aldrei að koma manni á óvart og þó ungur sé leikur hann einsog sá sem valdið hefur. Ég hef ekki heyrt betra trommaraefni á Íslandi síðan Pétur Östlund ­ og jafnvel þó fleiri löndum væri bætt í hópinn. Þóra Gréta Þórisdóttir söng með kvartettinum. Hún útskrifaðist frá tónlistarskóla FÍH í maí og lofar góðu. Djasskvartett Árna mun leika víða í sumar og hvet ég tónlistarunnendur til að láta hann ekki framhjá sér fara. Djassvaktin og tríó Björns Thoroddsens hef ég nýlega fjallað um í pistlum mínum, en nú voru nýir trommarar í báðum sveitum. Sá þaulreyndi Guðmundur Steingrímsson með Birni og Matthías MD Hemstock með Djassvaktinni. Guðmundur er einn fremsti trommari okkar og brást ekki aðdáendum sínum þessi kvöld og það gerði Egill Ólafsson ekki heldur. Túlkun hans á Mood Indigo með tríói Björns var firnagóð og hef ég sjaldan heyrt hann ná djasstóninum betur. Matthías lyfti Sveifluvaktinni, sem spilaði mun betur en þegar ég heyrði hana í Múlanum á Sóloni Íslandusi, en kannski hefði Steini Krúpa hæft sveitinni best í gamla New Orleans ópusnum, I Found a New Baby. Þorsteinn Eiríksson, einsog trommarinn heitir réttu nafni, er í kvartetti Ómars Axelssonar þarsem valinkunnir standardar eru leiknir á átakalítinn og ljúfan hátt. Ómar er sléttur og felldur píanisti og tenóristinn Hans Jensson, sem fyrrum blés rokk með Lúdó, er af skóla Stan Getz. Honum tekst best upp þegar hann er sem ljúfsárastur. Gunnar Pálsson bassaleikari fellur vel inní hópinn en einhvernveginn finnst mér einsog Þorsteinn sé þarna dálítið sér á báti. Hann þyrfti harðari svíngnagla til að falla að trommustíl sínum, sem skyldari er Ray Bauduc en Larry Bunker.

Það er alltaf ævintýri að vera á Dögum lita og tóna í Vestmannaeyjum og myndverk Jónda í Lambey voru góður rammi um tónaflóðið. Kannski er helsti galli hátíðarinnar að allar hljómsveitirnar koma fram bæði kvöldin. Þær fá alltof stuttan tíma til að spila. Svo væri ekki ónýtt að fá eina ekta Vestmannaeyjahljómsveit, velæfða, á næstu hátíð.

Vernharður Linnet