Ritstjóri: Gísli Sigurðsson Mál og menning 1998, 444 bls., auk 63 bls. inngangs. NÚ Á VORDÖGUM kom út hjá Máli og menningu vönduð heildarútgáfa eddukvæða í ritstjórn Gísla Sigurðssonar íslenskufræðings. Hér er um að ræða stóra bók í fallegu bandi og öskju, með mátulega stóru og læsilegu letri sem prentað er á endingargóðan pappír.
"Hljóðs bið eg allar kindir" BÆKUR Fagurbókmenntir EDDUKVÆÐI Ritstjóri: Gísli Sigurðsson Mál og menning 1998, 444 bls., auk 63 bls. inngangs. NÚ Á VORDÖGUM kom út hjá Máli og menningu vönduð heildarútgáfa eddukvæða í ritstjórn Gísla Sigurðssonar íslenskufræðings. Hér er um að ræða stóra bók í fallegu bandi og öskju, með mátulega stóru og læsilegu letri sem prentað er á endingargóðan pappír. Það sem skiptir þó meira máli er að hér er leitast við að gera kvæðin sem aðgengilegust fyrir hinn almenna lesanda; þau eru prentuð með nútímastafsetningu og þeim fylgja nákvæmar skýringar og útleggingar sem settar eru upp við hlið textans. Hverju kvæði fylgir síðan stuttur eftirmáli þar sem gerð er grein fyrir efni þess, gerð og varðveislu. Hin fornu kvæði verða þannig aðgengileg öllum lesendum, leikum sem lærðum. Á undan kvæðunum fer langur og ítarlegur inngangur ritstjóra þar sem hann gerir grein fyrir helstu handritum eddukvæða, varðveislu þeirra, efniviði, einkennum og fleiri atriðum sem kvæðin varða. Mikinn fróðleik er hér að finna. Gísli ræðir til að mynda rannsóknarhefðina á eddukvæðum, bendir á nýjar áherslur í rannsóknum og túlkunum og dvelur við nýjan skilning fræðimanna á munnlegri hefð. Sú hugmynd að munnleg geymd eddukvæða hafi frá öndverðu miðað að orðréttri varðveislu þeirra og að þær uppskriftir sem við eigum í handritum séu meira og minna ófullkomnar eftirlíkingar hins glataða "frumtexta" eru á undanhaldi. Nýlegri viðhorf til munnlegrar geymdar ganga út frá því að munnlegar bókmenntir hafi verið stöðugum breytingum háðar sem mörkuðust af aðstæðum sagna- eða kvæðamannanna á hverjum tíma: "Sami söngvari gat líka stytt eða lengt kvæði eftir aðstæðum hverju sinni, breytt um stíl og hagrætt söguþræði eftir því hverjir áheyrendurnir voru; konur fóru með önnur kvæði en karlar og aðalhetjurnar breyttu um svip eftir því hvort kveðið var yfir kristnum mönnum eða múslímum. Þrátt fyrir þennan breytileika voru kvæðin mjög hefðbundin að efni og orðfæri þannig að nýsköpun hvers einstaklings var alltaf innan ramma hefðarinnar. . ." Slíkar áherslubreytingar í skilningi á munnlegri geymd hafa mikil áhrif á hvernig menn rannsaka og túlka hin fornu kvæði. Áherslur eldri fræðimanna lágu í að reyna að aldursgreina einstök kvæði, semja kenningar um þróun kvæðanna út frá tilgátum um aldur, um áhrif eins kvæðis á annað og jafnvel var reynt að "feðra" einstök kvæði, að leita "höfundarins". Yngri fræðimenn skoða kvæðin fremur sem afmarkaðar fagurfræðilegar heildir og velta fyrir sér tengslum þeirra við það samfélag sem þau eru sprottin upp úr: "Hvernig var hann [textinn] fluttur, af hverjum og við hvaða tækifæri og hvaða skilningur var lagður í hann á meðan hann var hluti af hefð í lifandi flutningi fólks sem skapaði hann og varðveitti?" Flest eddukvæða eru varðveitt í handriti því er nefnist Konungsbók og var skrifuð um 1270. Eddukvæði Konungsbókar eru hér prentuð í heild sinni og röð kvæðanna látin halda sér eins og þau koma fyrir í handritinu. Þar fer fremst Völuspá, síðan koma Hávamál, þá Vafþrúðnismál, Grímnismál, Skírnismál og síðan koll af kolli allir kvæðaflokkarnir 29 sem handritið geymir. Í Konungsbók er eyða þar sem nokkur blöð hafa glatast úr bókinni og inn í þessa eyðu er hér í þessari útgáfu skotið stuttum kafla og fjórum kvæðaerindum úr Völsungasögu til að lesendur geti gert sér mynd af söguþræði hinna glötuðu kvæða. Á eftir eddukvæðum Konungsbókar fer hér sú uppskrift Völuspár sem varðveitt er í Hauksbók og er fjórum erindum styttri og tæpum tveimur öldum yngri en uppskrift Konungsbókar. Þá koma Baldurskviða (úr AM 748 I 4to), Rígsþula (úr Snorra Eddu), Hyndluljóð (úr Flateyjarbók), Svipdagsmál (varðveitt í 17. aldar pappírshandritum) og síðast Grottasöngur (úr Snorra Eddu). Á undanförnum árum hafa komið fram ýmsar nýjar og spennandi túlkanir á fornbókmenntum, jafnt sögum sem kvæðum. Ritstjóri þessarar bókar Gísli Sigurðsson hefur verið iðinn við að kynna nýjar hugmyndir um munnlega geymd, eins og fram kemur hér að ofan, og nefna má bók Helgu Kress prófessors Máttugar meyjar þar sem settar eru fram róttækar hugmyndir um íslenskar fornbókmenntir. Einnig er vert að nefna afar athyglisverða endurtúlkun Svövu Jakobsdóttur rithöfundar á þeim erindum Hávamála sem fjalla um samskipti Óðins og hofgyðjunnar Gunnlaðar. Þær hefur Svava kynnt bæði í langri fræðigrein í Skírni svo og fært í fagurfræðilegan búning í einni athyglisverðustu íslensku skáldsögu síðari ára, Gunnlaðar sögu. Þessi nýja aðgengilega útgáfa á eddukvæðum auðveldar hinum almenna lesanda að fylgjast með spennandi þróun í íslenskum fornfræðum með því að kynna sér af eigin raun þá texta sem fræðin fjalla um. Þegar haft er í huga að þrír áratugir eru liðnir frá síðustu heildarútgáfu á eddukvæðum á íslensku og að á því tímabili hafa orðið þær miklu áherslubreytingar í rannsóknum og túlkunum á kvæðunum sem um er getið, hlýtur þessi nýja útgáfa að vera fagnaðarefni öllum þeim sem láta sig varða íslenskan bókmenntaarf. Bókin mun fara vel uppi í hillu við hlið Íslendinga sagna og þátta, Sturlungu, Heimskringlu, Grágásar og Vídalínspostillu sem allar tilheyra sömu ritröð. En mikilvægara er þó að bókin verði lesin því hér er um magnaðan skáldskap að ræða og er ekki síst ástæða til að ítreka hversu skemmtileg mörg kvæðanna eru, það munu nýir lesendur kvæðanna vissulega sannreyna. Soffía Auður Birgisdóttir