AÐ UNDANFÖRNU hefur margt verið skrifað og skeggrætt í pólitíkinni hér á landi og kemur þar margt til enda nýlega yfirstaðnar sveitarstjórnarkosningar og óvenjuleg spillingarmál hafa verið að koma upp á yfirborðið sem tengjast ríkisstjórninni.
Hugleiðingar um lýðræðið

Er hollt fyrir lýðræðisríki, spyr Sigþór Sigurðsson í opnu bréfi til Hannesar Hólmsteins, að kjósendur sameinist um einn stjórnmálaflokk.

AÐ UNDANFÖRNU hefur margt verið skrifað og skeggrætt í pólitíkinni hér á landi og kemur þar margt til enda nýlega yfirstaðnar sveitarstjórnarkosningar og óvenjuleg spillingarmál hafa verið að koma upp á yfirborðið sem tengjast ríkisstjórninni. Að venju hefur Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor við Háskóla Íslands farið mikinn og látið frá sér í ræðu og riti ýmislegt sem kemur mér spánskt fyrir sjónir. Sú er ástæða þess að ég rita þessa grein og beini henni fyrst og fremst til þín, kæri Hannes. Ég lít reyndar svo á að þú sért talsmaður Sjálfstæðisflokksins og vænti þess að þú getir svarað ýmsum spurningum mínum um stöðu mála í íslenskri pólitík sem mig fýsir að fá svar við. Jafnvel þú getir svarað fyrir þinn ástsæla forsætisráðherra sem einnig hefur látið margt undarlegt út úr sér undanfarið, enda finnst mér þú stundum minna á Skræk, hans félaga Napóleóns, alla daga að skýra út stjórnlist foringja þíns fyrir almenningi.

Skömmu fyrir kosningarnar heyrði ég til þín í útvarpi þar sem þú settir fram athyglisverða kenningu um meint tengsl borgarstjórans í Reykjavík við alla fjölmiðla landsins. En þar ásakaðir þú fjölmiðla á Íslandi um að vera í allsherjar samsæri um að styðja Ingibjörgu Sólrúnu og R-listann í Reykjavík gegn þínum flokki, Sjálfstæðisflokknum. Reyndar tók sjálfur forsætisráðherra landsins upp þykkjuna í þér og birtist í sjónvarpi og lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu eftir kosningarnar að R-listinn hefði notið alveg sérstakrar velvildar og þjónkunar allra fjölmiðla í landinu. Raunar svo að hann kunni engin dæmi úr sögunni um að pólitísk hreyfing væri hafin yfir alla gagnrýni. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér blöskraði svo vanstilling forsætisráðherrans og barnaskapur að ég fór hjá mér fyrir framan sjónvarpsskjáinn. Blessaður forsætisráðherrann, sem ég hef alla tíð talið greindan og duglegan mann, féll verulega í áliti hjá mér og svo er um fleiri. Í sjálfu sér var ég ekki hissa á þínum ummælum enda ertu frægur samsærissmiður en forsætisráðherra landsins verður að gæta betur að orðum sínum þó að hann sé sár og fýldur yfir úrslitum í sveitarstjórnakosningum. Í framhaldi af þessu lýsti forsætisráðherra yfir mikilli ánægju sinni með úrslit kosninganna fyrir Sjálfstæðisflokkinn og réttilega, enda flokkurinn með 42% fylgi á landsvísu og hreinan meirihluta víða um landið. En mikið vill meira.

Í framhaldi af þessu spyr ég þig Hannes: Hvenær verða þú og vinur þinn forsætisráðherra landsins og formaður Sjálfstæðisflokksins fullkomlega ánægðir með valdahlutföllin í landinu? Verður það þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð hreinum meirihluta á Alþingi og í öllum sveitarstjórnum hringinn í kringum landið? Getið þið félagarnir ekki unað neinum utan ykkar valdaklíku að halda um stjórnartauma á nokkrum stað? Jafnvel þó um sé að ræða fólk sem stjórnar vel, hefur ekki verið staðið að neinni spillingu og meirhluti kjósenda er ánægður með? Getur verið að það sé hollt fyrir lýðræðisríki að kjósendur sameinist um einn stjórnmálaflokk, eina hugmyndafræði, eina skoðun og hafi sér einn foringja um langan aldur? Síðasta dæmið sem við höfum um slíkt stjórnfyrirkomulag er í Indónesíu. Getur verið að frjálsir og óháðir fjölmiðlar séu þeir einir sem gagnrýna og ráðast eingöngu gegn pólitískum andstæðingum ykkar? Er einhver karl eða kona sem felur sig bakvið hið sakleysilega heiti, Sjálfstæðisflokkurinn, sem leggur allt í sölurnar fyrir völd?

Ég vonast eftir því, Hannes, að þú getir svarað þessum áleitnu spurningum sem leitað hafa á mig undanfarið og kannski þú getir bætt við pólitískum skýringum á því afhverju þér og forsætisráðherra landsins er svo umhugað um afdrif Alþýðuflokksins sem vinnur að því að leggja sjálfan sig niður um þessar mundir. Er það vegna þess að fnykurinn úr fjósi framsóknar er að verða óþolandi í ríkisstjórninni þar sem hvert axarskaftið rekur annað af hendi framsóknarráðherranna með Finn Ingólfsson í broddi fylkingar?

Höfundur er verkfræðingur og áhugamaður um stjórnmál.

Sigþór Sigurðsson