STOFNFUNDUR um hlutafélagið Landsmót 2000 ehf., vegna landsmóts hestamanna sem halda á árið 2000 á félagssvæði hestamannafélagsins Fáks, var haldinn sl. sunnudag á Selfossi. Sátu fundinn fulltrúar 14 af 16 hestamannafélögum á Suðurlandi, allt frá Lómagnúpi í Hvalfjarðarbotn, auk fulltrúa frá Hrossaræktarsambandi Suðurlands.
Hestamenn stofna

félag um landsmót árið 2000

STOFNFUNDUR um hlutafélagið Landsmót 2000 ehf., vegna landsmóts hestamanna sem halda á árið 2000 á félagssvæði hestamannafélagsins Fáks, var haldinn sl. sunnudag á Selfossi. Sátu fundinn fulltrúar 14 af 16 hestamannafélögum á Suðurlandi, allt frá Lómagnúpi í Hvalfjarðarbotn, auk fulltrúa frá Hrossaræktarsambandi Suðurlands.

Fulltrúar félaganna sem fundinn sátu skráðu sig fyrir því hlutafé sem skipt hafði verið á þau hlutfallslega samkvæmt félagafjölda í hverju hestamannafélagi og fulltrúi Hrossaræktarsambands Suðurlands tilkynnti um þátttöku sambandsins í félaginu. Í frétt frá Landssambandi hestamannafélaga segir að einhugur hafi ríkt um þá breytingu að fara þá leið að deila áhættu í hlutfalli við félagafjölda hvers félags en hafa hana ekki jafna án tillits til félagafjölda eins og verið hefur.

Stjórn félagsins skipa eftirtaldir og hafa þegar skipt með sér verkum: Haraldur Haraldsson, Fáki, er formaður, Kristinn Guðnason, Geysi, er varaformaður, ritari er Halldór Guðmundsson, Ljúfi, og meðstjórnendur þau Þóra Ásgeirsdóttir, Gusti, Halldór Halldórsson, Andvara, Snæbjörn Sigurðsson, Trausta og Jón Albert Sigurbjörnsson, Fáki.