Gengi hlutabréfa Íslenskra aðalverktaka hf. gæti orðið um 3,1, samkvæmt lauslegu mati sérfræðinga Verðbréfastofunnar hf., og markaðsvirði fyrirtækisins því 4,3 milljarðar kr. þegar hafin verður sala á hlut ríkisins og Landsbankans í haust. Í grein Helga Bjarnasonarkemur fram það álit að hagnaður síðasta árs, alls um 215 milljónir kr.
Íslenskir aðalverktakar hf. á hlutabréfamarkað fyrst íslenskra verktakafyrirtækja Markaðsvirði áætlað

4,3 milljarðar kr.

Gengi hlutabréfa Íslenskra aðalverktaka hf. gæti orðið um 3,1, samkvæmt lauslegu mati sérfræðinga Verðbréfastofunnar hf., og markaðsvirði fyrirtækisins því 4,3 milljarðar kr. þegar hafin verður sala á hlut ríkisins og Landsbankans í haust. Í grein Helga Bjarnasonar kemur fram það álit að hagnaður síðasta árs, alls um 215 milljónir kr., sé of lítill miðað við aðstæður. Rekstur utan varnarsvæða skilar fyrirtækinu litlum hagnaði þótt þaðan komi helmingur veltunnar.

RÍKISSJÓÐUR og Landsbanki Íslands, sem eiga liðlega 70% hlutabréfa í Íslenskum aðalverktökum hf., ætla að bjóða 25­32% hlut í félaginu til sölu í haust, eftir að Aðalverktakar hafa fengið skráningu á Verðbréfaþingi Íslands. Unnið er að undirbúningi skráningar, verðmats og sölu en áformað er að salan fari fram með líkum hætti og sala á hluta af bréfum ríkisins í Íslenska járnblendifélaginu, það er að segja að starfsmönnum og almenningi verði gefinn kostur á að kaupa ákveðna skammta og afgangurinn verði síðan seldur með tilboðssölu.

Lítil arðsemi eigin fjár

Ákveðin vandkvæði eru á því að áætla markaðsvirði Íslenskra aðalverktaka hf. vegna þess að ekkert verktakafyrirtæki er skráð á Verðbréfaþingi Íslands. Sérfræðingar Verðbréfastofunnar hf. telja þess vegna best að bera fyrirtækið saman við verktakafyrirtæki á Norðurlöndunum. Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri Verðbréfastofunnar hf., bendir á danska verktakafyrirtækið Höjgaard Holding sem er skráð á Copenhagen Stock Exchange. Carnegie fjárfestingarbankinn áætlar veltu danska fyrirtækisins í ár tæpa 32 milljarða íslenskra króna og hagnað tæpa 1,9 milljarða. Eigið fé félagsins er liðlega 16 milljarðar og markaðsvirði rúmir 18 milljarðar. V/h hlutfall er því 9,77 og v/e hlutfall 1,14. Þessar tölur sýna að fjárfestar í Danmörku meta þetta fyrirtæki á um það bil 10 þegar miðað er við hlutfall veltu og hagnaðar og 1,10 til 1,20 þegar miðað er við eigið fé.

Verðbréfastofan áætlar veltu Íslenskra aðalverktaka hf. fyrir tólf mánaða tímabil, frá júní 1997 til júní 1998, 6 milljarða og hagnað 450 milljónir. Í báðum tilvikum er um að ræða lauslegt mat byggt á rekstri fyrirtækisins þá sjö mánuði á síðasta ári sem það starfaði. Eigið fé var um áramót tæplega 3,2 milljarðar kr. Aðaleigendur félagsins hafa ákveðið að skerða efnahaginn með því að lækka hlutaféð um 800 milljónir kr. og greiða út til hluthafanna. Var það gert að ráði sérfræðinga sem undirbúa sölu félagsins. Eigið fé verður eftir þá aðgerð tæplega 2,4 milljarðar kr.

Ef notuð eru sömu v/h og v/e hlutföll og hjá Höjgaard Holding ætti markaðsvirði Íslenskra aðalverktaka að vera tæpir 4,4 milljarðar kr. miðað við hlutfall veltu og hagnaðar en aðeins tæpir 2,7 milljarðar kr. miðað við eigið fé. "Rekstur Íslenskra aðalverktaka hefur ekki gengið sem skyldi undanfarin ár. Arðsemi eigin fjár hefur verið slök miðað við þau miklu verðmæti sem liggja í fyrirtækinu. Íslenskur hlutabréfamarkaður myndi vilja sjá fyrirtækið fara á markað með v/h hlutfall í kringum 9. Miðað við þetta og að heildarhlutafé í ÍAV verði 1.400.000 kr. þegar það fer á markaðinn þá ætti gengi bréfanna að vera í kringum 3,1. Við skjótum á að markaðsvirði verði þá 4.340.000 kr.," segir Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri Verðbréfastofunnar hf.

Minnkandi verkefni hjá Varnarliðinu

Íslenskir aðalverktakar hf. voru sem kunnugt er stofnaðir 1. júní 1997 á grunni samnefnds sameignarfélags. Félagið rekur starfsemi innan varnarsvæða í eigin nafni en auk þess á félagið dótturfélög sem annast verktakastarfsemi bæði hér á landi og erlendis. Það rekur einnig innkaupa- og þjónustuskrifstofu í Norfolk í Bandaríkjunum.

Verkefni ÍAV fyrir Varnarliðið hafa verið að minnka og hélt sú þróun áfram á síðasta ári er unnið var að verklokum nokkurra stærri verkefna. Félagið hefur fengið vilyrði fyrir því að halda tilnefningu íslenskra stjórnvalda sem verktaki fyrir Varnarliðið til ársins 2003 en jafnframt hefur verið mörkuð sú stefna að útboð verði aukin og að í framtíðinni verði öll stærri verk boðin út á alþjóðlegum markaði. Á þessu ári rennur til dæmis út samningur um rekstur ÍAV á Olíustöðinni í Hvalfirði en félagið hefur rekið þessa starfsemi fyrir Varnarliðið um árabil. Þótt félagið ætli sér að bjóða í öll verk á Vellinum og hafi þar mikla reynslu er ljóst að umhverfið er að breytast og mun það áreiðanlega hafa mikil áhrif á rekstur félagsins og afkomu.

Innlend og erlend verkefni

Við þessu hefur verið brugðist með því að sækja verkefni á almennan verktakamarkað, bæði á Íslandi og erlendis. Hefur sú starfsemi farið fram í dótturfélögum til aðgreiningar frá starfseminni á varnarsvæðum. Þannig hefur dótturfélagið Lava hf. unnið að byggingu álvers Norðuráls á Grundartanga og byggingu stórrar vöruskemmu fyrir Þyrpingu hf. í Sundahöfn. Auk þess á Lava hf. helminginn á móti Veli hf. í Ísafli ehf. sem vinnur að gerð Hágöngumiðlunar fyrir Landsvirkjun. Auk þess hefur félagið unnið fyrir Hitaveitu Reykjavíkur, bæði á Nesjavöllum og við Reykjaæð, á grundvelli útboða og ýmis smærri verk fyrir ýmsa aðra.

Aðalverktakar eiga 91% í Nesvikri hf. sem flytur út vikur frá Snæfellsnesi. Minna hefur orðið úr vikurútflutningi en reiknað var með í upphafi, þó er áætlað að flytja út 20 þúsund tonn í ár. Aðalverktakar eiga í fleiri félögum, meðal annars tæplega 9% hlut í Íslenska magnesíumfélaginu hf. sem undirbýr byggingu magnesíumverksmiðju á Reykjanesi.

Þegar hlutafélagið var stofnað 1. júní sl. tók það við samstarfsverkefnum sem sameignarfélagið hafði unnið að erlendis. Það á nú fyrirtækið Ger GmbH í Þýskalandi, Greenland Prime Contractor í Grænlandi og Iceland Prime Technologies í Bandaríkjunum. Starfsemi fyrirtækjanna erlendis hefur ekki gengið vel, að því er virðist. Á Grænlandi hefur verið unnið að gerð flugbrautar og brúarsmíði og hafa þar orðið tafir og kostnaðarsamar breytingar sem málaferli standa um og þannig voru 38 milljónir kr. færðar til skammtímaskulda í ársreikningi félagsins vegna neikvæðrar eiginfjárstöðu grænlenska félagsins. Ger á ennþá óseldar 11 íbúðir í Þýskalandi og bandaríska félagið á fimm stórar byggingarlóðir í Florida.

Lítil arðsemi dótturfélaga

Erfiðleikar dótturfélaganna endurspeglast í reikningum Íslenskra aðalverktaka fyrir síðasta ár. Heildarhagnaður fyrirtækjasamsteypunnar var liðlega 215 milljónir kr. Þar af komu liðlega 205 milljónir frá móðurfélaginu en einungis innan við 10 milljónir frá dótturfélögum, þótt þau síðarnefndu hafi skapað tæplega helming veltunnar. Erfitt er að meta afkomuna út frá kennitölum vegna þess að starfsemin nær ekki yfir heilt ár og samanburðartölur fyrir fyrirrennara fyrirtækisins, sameignarfélagið, eru ekki birtar. Afkoman í heild mætti þó vera betri, þegar litið er til gríðarlega góðs fjárhags félagsins og starfsemi þess í vernduðu umhverfi á Keflavíkurflugvelli. Einnig ætti það að njóta uppsveiflunnar á almenna verktakamarkaðnum á Íslandi í gegn um dótturfélögin. Loks má nefna að tækjakostur félagsins er að mestu afskrifaður en það þýðir að félagið stendur frammi fyrir miklum fjárfestingum á því sviði eins og fram kom hjá Stefáni Friðfinnssyni framkvæmdastjóra á nýafstöðnum aðalfundi Íslenskra aðalverktaka. Við svona aðstæður verður að gera kröfu til mikillar arðsemi, meiri en þetta félag skilar. Samkvæmt ofangreindum upplýsingum um skiptingu hagnaðar, virðast vandræðin einkum stafa af lítilli arðsemi í dótturfélögum.

Ekki er unnt að fá yfirlit yfir afkomu einstakra dótturfélaga. Þó virðist ljóst að meginhluti þess 10 milljóna króna hagnaðar dótturfélaga sem gefinn er upp í reikningunum kemur af starfsemi Lava hf. Þess ber jafnframt að geta að flest verk Lava og annarra innlendra dótturfélaga eru óuppgerð og reikningsskil þeirra byggjast því á áfangainnlausn tekna. Tapið af erlendu verkefnunum kemur ekki inn í reikningana nú nema að litlu leyti, að sögn Úlfars Arnar Friðrikssonar forstöðumanns fjármálasviðs, því það hefur verið gjaldfært jafnóðum í reikningum sameignarfélagsins. Úlfar telur rétt að líta á hagnaðinn af samstæðunni í heild en ekki skiptinguna á milli móðurfélags og dótturfélaga. Bendir í því sambandi á að móðurfélagið selji dótturfélögunum ýmsa þjónustu og starfsemi dótturfélaganna skapi þannig verkefni fyrir starfsmenn og vélar móðurfélagsins og hluti hagnaðar verkanna komi þannig fram hjá móðurfélaginu.

Jafngóð og best þekkist

Rekstur Íslenskra aðalverktaka er í eðli sínu áhættusamur eins og annarra verktakafyrirtækja. Því ættu stjórnendur félagsins að setja sér háleit arðsemismarkmið. Það gera þeir að vísu með almennum orðum, það er að segja með því að stefna að því að ávöxtun eigin fjár verði til lengri tíma litið jafngóð og best þekkist hjá fyrirtækjum á Verðbréfaþingi Íslands. Þessi markmið hafa hins vegar ekki verið útfærð í tölum.

ÍSLENSKIR aðalverktakar byggja kerskála Norðuráls á Grundartanga.