CUNARD skemmtiferðaskipafélagið hefur skýrt frá fyrirætlunum um smíði nýs risafarþegaskips, Project Queen Mary, sem muni kalla fram "anda liðins tíma þægilegra ferðalaga á sjó". Forstjóri Cunards, Larry Pimentel, sagði að fyrirætlunin mundi leiða til smíði "stærsta og mikilfenglegasta" farþegaskips, sem smíðað hefði verið, og að það yrði "ímynd glæsileika, stíls og þokka".


Cunard hyggur á smíði risaskipa



Ósló. Reuters.

CUNARD skemmtiferðaskipafélagið hefur skýrt frá fyrirætlunum um smíði nýs risafarþegaskips, Project Queen Mary , sem muni kalla fram "anda liðins tíma þægilegra ferðalaga á sjó". Forstjóri Cunards, Larry Pimentel, sagði að fyrirætlunin mundi leiða til smíði "stærsta og mikilfenglegasta" farþegaskips, sem smíðað hefði verið, og að það yrði "ímynd glæsileika, stíls og þokka".

Hann kvað það takmark félagsins að smíða nýja kynslóð farþegaskipa, sem yrðu "hátindur skipasmíðalistarinnar." Takmarkið væri að "endurvekja gullöld siglinganna handa þeim sem ekki hefðu lifað þá fyrri."

Enn hefur ekki verið ákveðið hve stórt skipið verður og hve marga farþega það mun taka. Fyrirtækið segir hugmyndina að þróa næstu kynslóð úthafsfarþegaskipa, en ekki að smíða skip, sem eigi að koma í staðinn fyrir aðalfarþegaskip Cunards, Queen Elizabeth .

Keypt fyrir 500 millj. dala Carnival Corp keypti Cunard skipafélagið af Kværner ASA í apríl fyrir 500 milljónir dollara og sameinaði það Seabourn Cruise Line. Carnival sagði að Masa skipasmíðastöð Kværners í Finnlandi hefði verið viðriðin áætlunargerðina.

Cunard Line Ltd rekur tvenns konar skemmtiferðaskip, Cunard og Seabourn.

Í flotanum eru þrjú Seabourn skip ­ Pride , Spirit og Legend ­ og fimm Cunard skip ­ Queen Elizabeth , Vistafjord , Royal Viking Sun og Sea Goddess I og II. Fyrirtækið stendur fyrir um það bil helmingi skemmtisiglinga í heiminum.