Mönnum hefur verið tíðrætt um að rólegra hafi verið á hlutabréfamarkaði að undanförnu en til að mynda á sama tíma í fyrra. Ívar Páll Jónssonræddi við Stefán Halldórsson framkvæmdastjóra Verðbréfaþings Íslands og fleiri sérfræðinga á hlutabréfamarkaðnum um mögulegar aðgerðir til að bæta þar úr.
ÐHugmyndir um aðgerðir á hlutabréfamarkaðnum

Viðskiptafyrirkomulag

til endurskoðunar

Mönnum hefur verið tíðrætt um að rólegra hafi verið á hlutabréfamarkaði að undanförnu en til að mynda á sama tíma í fyrra. Ívar Páll Jónsson ræddi við Stefán Halldórsson framkvæmdastjóra Verðbréfaþings Íslands og fleiri sérfræðinga á hlutabréfamarkaðnum um mögulegar aðgerðir til að bæta þar úr.

STEFÁN Halldórsson segir að þótt velta á hlutabréfamarkaði sé minni en á sama tíma í fyrra sé samanburður við það tímabil varla marktækur. "Það er rétt að rifja upp að það var óvanalega mikil hreyfing á markaðnum fyrstu mánuði ársins í fyrra og aprílmánuður þá var reyndar algjör metmánuður. En vissulega hefur verið frekar rólegt yfir markaðnum að undanförnu," segir hann.

Til útskýringar á þessari lægð segir Stefán að þessi markaður gangi í fyrsta lagi í bylgjum eins og allir aðrir. "Í öðru lagi geri ég ráð fyrir að það gæti áhrifa þeirrar verðlækkunar sem varð á hlutabréfum frá maímánuði í fyrra," segir Stefán.

Þetta er fyrsta verulega almenna verðlækkunin á markaðnum í mörg ár, en Stefán segir að leita þurfi allt aftur til áranna '91-'93 til að finna sambærilegt ástand. Þá, rétt eins og nú, hafði verðlækkun á hlutabréfum veruleg áhrif í þá átt að draga úr viðskiptum.

Inn í þetta blandast líka spurningin um framboð nýrra verðbréfa og það sem menn gætu kallað áhugaverð tækifæri. "Þegar farið er í markaðsútboð á nýjum félögum sem talin eru áhugaverðir kostir, með einkavæðingu eða öðrum hætti, myndast gjarnan ákveðin spenna á markaðnum, viðskipti glæðast og verð hækkar. Í þessum efnum hefur verið mjög rólegt síðustu mánuði, lítið komið af nýjum félögum og bréfum á markað. Ef skriður kemst á einkavæðingaráform, sem eru á döfinni, mun það ugglaust hafa jákvæð áhrif," segir Stefán. Meðal þeirra fyrirtækja sem búist er við á markað eru þrír bankar og Íslenskir aðalverktakar.

Markaðurinn viðkvæmur fyrir fjárfestingum erlendis

Stefán segist halda að menn hafi séð þess merki í tölum frá Verðbréfaþingi og Seðlabankanum um fjárfestingar að hlutabréfamarkaðurinn sé talsvert viðkvæmur fyrir því þegar fjárfestingar Íslendinga erlendis aukist. Þá verði minna fjármagn í umferð á markaðnum. "Seinni part sumars í fyrra og æ síðan hefur verið talsvert fjárstreymi til útlanda, sem einkum er rakið til lífeyrissjóða. Ljóst er að þessir peningar eru ekki á sama tíma að örva viðskipti með íslensk verðbréf."

Enn eitt atriðið sem má nefna er sú vaxtalækkun sem hefur staðið yfir hér innanlands. Hún hefur leitt til miklu öflugri og líflegri viðskipta með skuldabréf en áður hefur sést. Augljóslega binda slík viðskipti bæði athygli og fjármuni á kostnað hlutabréfamarkaðarins. "Þetta hefur víkkað það svið markaðsviðskipta sem stórir aðilar, svosem viðskiptabankar og verðbréfafyrirtæki, hafa tekið þátt í," segir Stefán. Sem dæmi má nefna að gjaldeyrisviðskipti hafa verið færð yfir á markaðsform og millibankamarkaður er nú með skipulegri hætti en áður var.

Aðgerðir til að örva markaðinn

Að sögn Stefáns koma nokkrar aðgerðir til greina til að örva hlutabréfamarkaðinn. "Í fyrsta lagi höfum við verið að vinna að því að styrkja innviði þingsins í öllum efnum; endurskoðað reglur; tekið upp Vaxtarlista og fleira. Vonandi leiðir það til að traust fjárfesta á markaðnum vex og að útgefendur verðbréfa hlutafélaga telji það eftirsóknarverðara en áður að koma með bréf sín inn á markað."

Í öðru lagi segir Stefán að viðskiptavakafyrirkomulag sé til athugunar. "Við höfum fylgst vel með ávinningnum af þeim breytingum sem hafa orðið á viðskiptavakafyrirkomulagi skuldabréfamarkaðarins. Þar hefur Seðlabankinn, sem áður var nánast eini umtalsverði viðskiptavakinn á ríkisverðbréfum, í áföngum dregið sig út úr því hlutverki, en stutt við bakið á öðrum þátttakendum til að taka upp merkið. Þetta hefur, í raun og veru nokkuð hratt, leitt til mjög öflugrar þátttöku stórra fjármagnsstofnana í viðskiptum og verðmyndun á skuldabréfamarkaði. Þetta viljum við yfirfæra á hlutabréfamarkaðinn. Geta þingaðilarnir sjálfir kannski gerst öflugri viðskiptavakar hlutabréfa? Þetta er á döfinni hjá okkur á næstunni."

"Svartur kassi" á morgnana?

Í þriðja lagi hefur komið til athugunar að breyta viðskiptaháttum. "Þá höfum við til að mynda horft til þess hvort ástæða sé til að taka upp annars konar verðmyndun á morgnana, í upphafi viðskipta, en áður hefur tíðkast, vegna þess að oft vill enginn vera fyrstur að leggja inn tilboð á morgnana. Við erum engan veginn að finna upp hjólið í þeim efnum, því langflestar kauphallir í heiminum hafa verið með sérstaka tilhögun á opnun viðskipta og verðmyndun við þær aðstæður. Ég get nefnt sem dæmi að þegar nýir markaðir eru að taka til starfa í nýfrjálsum löndum, Austur-Evrópu og víðar, er oft byrjað á því að halda nokkurs konar lokað útboð, þar sem aðilar setja inn tilboð sem eru öðrum ósýnileg. Öll tilboðin renna inn í tölvukerfi, "svartan kassa" svokallaðan, þar sem fer fram pörun, og á opnunartímanum kemur útprentun sem segir til um þau viðskipti sem orðið hafa og þannig verður til opnunarverð. Líka er tekið fram hvað gekk af og þau tilboð halda áfram á markaðnum þegar opnað er fyrir almenn viðskipti," segir Stefán.

"Við höfum áhuga á að prófa þetta. Þetta er byggt á góðri reynslu annarra kauphalla og væntanlega fer þetta í gang í haust, eftir undirbúningsvinnu í sumar. Fyrst þurfum við líka að leita stuðnings markaðarins, því við ákveðum þetta ekki ein."

Í fjórða lagi vill Verðbréfaþingið laða að erlenda fjárfesta. "Við teljum að mjög mikilvægt skref verði stigið á næstunni þegar línur skýrast um starfsemi verðbréfamiðstöðvar. Núna er verið að móta ramma um eignarskráningu og uppgjör verðbréfaviðskipta og afla hugbúnaðar. Við vonumst til að þetta komist í framkvæmd snemma á næsta ári.

Reynslan sýnir að gamaldags pappírsviðskipti og fremur ótraustvekjandi uppgjörsferli hafa fælt marga erlenda fjárfesta frá. Þó ekki sé hægt að segja að uppgjörsferlið sé ótraustara en annars staðar lítur það sérkennilega út í augum þeirra sem eiga að venjast meiri aga og skipulagi," segir Stefán.

Ber að beina sparnaði í hlutabréfakaup?

"Í fimmta og síðasta lagi sýnist brýnt á þessu þenslustigi sem nú er, að leita leiða til að örva innlendan sparnað, en það er mál sem er kannski einna helst á könnu stjórnvalda. Skattaafslátturinn sem átti sinn þátt í að efla hlutabréfamarkað er að fjara út og kannski þarf eitthvað að koma í staðinn. Manni heyrist á umræðunni að það sé brýnt að fá heimilin í landinu til að eyða minna og spara meira. Þá kemur upp spurningin hvort ekki sé áhugi að beina þeim sparnaði yfir í hlutabréf, hvort sem það er gert með skattaafslætti eða öðrum leiðum. Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir stjórnvöld; til skammst tíma vegna þenslu og til lengdar getur vel verið ástæða til að hugleiða hvatningu til langtímasparnaðar."

Stefán Halldórsson