MAÐUR hefur orðið uppvís að því að misnota krítarkortanúmer reykvískrar konu og versla fyrir það í gegnum Netið fyrir tugi þúsunda króna. Svo virðist sem maðurinn hafi komist að krítarkortanúmeri konunnar í tölvufyrirtæki, sem konan hefur viðskipti við, og notað það síðan í viðskiptum sínum við bandaríska tölvuverslun í gegnum Netið.
Misnotaði krítarkort upp á tugi þúsunda Söluaðili þarf að sanna að varan hafi komist í réttar hendur

MAÐUR hefur orðið uppvís að því að misnota krítarkortanúmer reykvískrar konu og versla fyrir það í gegnum Netið fyrir tugi þúsunda króna. Svo virðist sem maðurinn hafi komist að krítarkortanúmeri konunnar í tölvufyrirtæki, sem konan hefur viðskipti við, og notað það síðan í viðskiptum sínum við bandaríska tölvuverslun í gegnum Netið. Að sögn Leifs Steins Elíassonar aðstoðarframkvæmdastjóra VISA Ísland hafa óheiðarlegir viðskiptamenn getað greitt með stolnum krítarkortanúmerum þegar þeir hafa verslað í gegnum síma eða í gegnum Netið. Hins vegar þurfi söluaðili vöru eða þjónustu að sanna það að varan hafi komist í réttar hendur. Takist það ekki geti kortafyrirtækið látið viðskiptin ganga til baka. Að þessu leyti sé því áhættan lítil fyrir krítarkortahafann.

Að því er fram kemur í DV í gær gaf maðurinn, sem misnotaði krítarkortið, upp sitt eigið nafn í viðskiptum sínum í gegnum Netið, en heimilisfang fyrrnefnds tölvufyrirtækis. Á þann hátt gat hann nálgast þær vörur sem hann hafði keypt. Upp komst hins vegar um þjófnaðinn þegar konan, eigandi krítarkortsins, kom heim úr fríi sínu erlendis frá og sá að reikningurinn hljóðaði upp á mun hærri upphæð en hún hafði verslað fyrir í fríinu.

Hægt að stöðva færsluna

Leifur Steinn sagði í samtali við blaðamann Fréttavefjar Morgunblaðsins í gær að þegar korthafi fái yfirlit yfir færslu frá VISA Ísland geti hann gert athugasemdir við viðskiptabanka sinn, sjái hann einhverjar færslur sem hann kannist ekki við. Viðskiptabankinn komi þessu athugasemdum síðan áleiðis til VISA Ísland. Geti söluaðilinn ekki sannað að viðskiptavinurinn hafi fengið viðkomandi vöru þá sé færslan bakfærð á hann. "Áhættan er þannig lítil fyrir viðskiptavininn," sagði Leifur Steinn. "Eina vandamálið er ef viðkomandi söluaðili lætur sig hverfa af markaði. Hins vegar höfum við þann háttinn á hér á landi að við borgum söluaðilum innanlands um svipað leyti og við innheimtum frá korthöfum. Þannig að við getum stoppað færsluna í kerfinu innan örfárra daga."