ÁHRIF kvótabreytinga á kvóta einstakra fyrirtækja eru mjög misjöfn og fara eftir tegundasamsetningu kvóta þeirra. Í heildina hafa kvótabreytingar á næsta ári þó lítil áhrif á kvóta flestra félaga í þorskígildum. Þetta kemur fram í markaðsyfirliti Landsbanka Íslands. Á næsta fiskveiðiári eykst þorskkvótinn verulega eða um 15%, einnig er gert ráð fyrir nokkurri aukningu loðnukvóta.
Misjöfn áhrif kvótabreytinga

ÁHRIF kvótabreytinga á kvóta einstakra fyrirtækja eru mjög misjöfn og fara eftir tegundasamsetningu kvóta þeirra. Í heildina hafa kvótabreytingar á næsta ári þó lítil áhrif á kvóta flestra félaga í þorskígildum. Þetta kemur fram í markaðsyfirliti Landsbanka Íslands.

Á næsta fiskveiðiári eykst þorskkvótinn verulega eða um 15%, einnig er gert ráð fyrir nokkurri aukningu loðnukvóta. Hins vegar minnkar ýsukvóti um 22%, rækjukvóti um 20% og síldarkvóti minnkar um 30%.

Kvótaaukning verður því hjá þeim fyrirtækjum sem hafa hlutfallslega mikinn þorskkvóta án þess að hafa verulegan ýsu- eða rækjukvóta. Þar á meðal eru Tangi hf., Fiskiðjan Skagfirðingur hf. og Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga. Kvótaminnkun verður aftur á móti mest hjá fyrirtækjum sem byggja kvótann að mestu á rækjuveiðum. Þar eru fremst í flokki Fiskiðjusamlag Húsavíkur hf. og Þormóður rammi- Sæberg hf.

Hægt er að segja til um áhrif kvótabreytinganna með því að meta breytingu á þorskígildiskvóta. Hann er reiknaður út eftir verðmæti fisktegunda. Ef það er gert kemur í ljós að kvótabreytingar hafa neikvæð áhrif á fyrirtæki sem byggja á rækjuveiðum en jákvæð áhrif á fyrirtæki sem byggja á loðnu- og þorskveiðum. Þannig verður aukning kvóta í þorskígildum 7% hjá Tanga hf. á Vopnafirði en minnkun um tæp 6% hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur hf.

Jákvæð áhrif meiri en neikvæð

Jákvæð áhrif eru hins vegar meiri en neikvæð áhrif. Skýring þessa er einkum sú að rækju- og síldarkvóti síðasta árs mun ekki nást en hins vegar náðist að veiða nær allan loðnukvótann og þorskkvótinn verður að öllum líkindum allur veiddur.

Þessir útreikningar taka ekki mið af hugsanlegum verðbreytingum sem hafa einnig áhrif á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Sé t.d. miðað við óbreytt verð á þorskkvóta er verðmæti aukningar hans um 25,6 milljarðar króna.