ÚTFLUTNINGSVERÐMÆTI sjávarafurða hefur hækkað mun meira á þessu ári en ráð var fyrir gert í þjóhagsspá. Þannig hefur afurðaverðmæti þorskaflans aukist um 30% á fyrstu 4 mánuðum þessa árs samnborið við sama tíma í fyrra. Orsakir þessa má rekja til minnkandi framboðs á erlendum mörkuðum, sérstaklega á bolfiskafurðum, samfara samdrætti í fiskafla nágrannaþjóðanna.
Afurðaverðmæti þorskaflans aukist um 30% Útlit fyrir áframhaldandi hækkanir

ÚTFLUTNINGSVERÐMÆTI sjávarafurða hefur hækkað mun meira á þessu ári en ráð var fyrir gert í þjóhagsspá. Þannig hefur afurðaverðmæti þorskaflans aukist um 30% á fyrstu 4 mánuðum þessa árs samnborið við sama tíma í fyrra. Orsakir þessa má rekja til minnkandi framboðs á erlendum mörkuðum, sérstaklega á bolfiskafurðum, samfara samdrætti í fiskafla nágrannaþjóðanna. Búast má við áframhaldandi hækkunum, m.a. í kjölfar kvótaaukningar sem fulltrúar stóru sölusamtakanna segja að hafi mjög góð áhrif á ímynd Íslands á mörkuðunum. Þeir vara þó við ýmsum hættum.

Kristján Hjaltason, framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, segir aflasamdrátt í Barentshafi fyrst og fremst hafa leitt til skorts á markaðnum og hækkunar á bolfiski, einkum þorski. "Afli úr Barentshafi hefur dregist umtalsvert saman, auk þess sem minni veiði hefur verið í Eystrasalti. Í augnablikinu eru ekki horfur á auknum afla á þessu svæði. Hins vegar hefur einnig verið samdráttur í veiðum á alaskaufsa og því getur sú tegund ekki bætt upp samdrátt í þorski. Verðið hefur því hækkað því viðskiptavinurinn hefur ekki getað leitað neitt annað. En eins og horfurnar eru nú er ekki víst að þessi góða sala minnki á næstunni."

Kristján segir fullvíst að salan minnki um leið og neytendur þurfi að borga hærra verð. Þá leiti neytandinn í aðrar vörur og spurning sé þá aðeins í hvaða mæli það gerist. "Það er hreinlega ekki til nægur fiskur fyrir markaðinn í bili. Eins má benda á að afurðaverð hafa lækkað mikið frá árinu 1991 og tími til kominn að þau hækkuðu aftur, sérstaklega í Evrópu."

Ísland getur sér gott orð

Kristján segir aukningu á þorskkvóta hérlendis kannski ekki hafa mikið að segja á markaðnum hvað magn varðar en áhrifin séu engu að síður góð. "Viðskiptavinir leita eðlilega til þess lands þar sem þeir sjá aukningu. Einnig hefur umræða um sjálfbærar fiskveiðar leitt til þess að stærstu viðskiptavinir okkar úti í heimi, til dæmis verslunarkeðjur í Bretlandi, eru undir þrýstingi frá umhverfissamtökum um að hegða sér á ábyrgan hátt í innkaupum. Þá leita þeir meðal annars til aðila sem eru ábyrgir í umgengni um sína auðlind. Þar hafa Íslendingar getið sér gott orð. Upprunamerkingar og rekjanleiki verða sífellt mikilvægari og hjálpar okkur mikið. Það höfum við fundið greinilega á síðustu vikum," segir Kristján.

Þrýstingur frá kaupendum

Aðalsteinn Gottskálksson, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Íslenskra sjávarafurða, segir greinilegan skort á hráefni á mörkuðum erlendis, sérstaklega á þorsk- og karfaafurðum. Það eigi við um alla markaði. "Verð á blokkaframleiðslu er nú orðið samkeppnishæft við unnar afurðir á Bandaríkjamarkað og slíkt gerist ekki nema þegar vöntun er á hráefni."

Aðalsteinn segir margvísleg tilboð í gangi á markaðnum um þessar mundir sem einkennist af því að menn hafi skuldbundið sig til að afhenda vöru á tilsettum tíma og verði því að fá hráefni hvað sem það kostar. "Það er hins vegar erfitt að sjá hver framþróunin verður í þessum málum. En það er ennþá spenna á markaðnum. Kvótaaukningin nú er því gulls ígildi þegar þörfin fyrir vöruna er mikil. Það hefur bæði góð áhrif fyrir okkur sem erum að selja íslenska vöru en einnig gefur það Íslandi góða ímynd að geta sýnt fram á að sjálfbærar veiðar skili árangri. Á meðan eru aðrar þjóðir að draga saman veiðar."

Verðum að vera á varðbergi

Aðalsteinn bendir þó á að í örum afurðaverðshækkunum geti falist hættur. "Ein af afleiðingum þess gæti verið að menn fari að leita að annarri og ódýrari vöru. Hættan er sú að hækkunin verði of mikil og hafi í för með sér neysluáhrif. Ef neytendur færa sig úr fiski yfir í aðrar próteinvörur gæti orðið mjög erfitt að ná því til baka. Þannig að um ástandið í dag má segja að í því felist bæði tækifæri og hættur. Við verðum því að vera á varðbergi," segir Aðalsteinn.