HELGI Hjörvar, annar aðaleigandi hins pólitíska sameignarfélags Arnarsonar & Hjörvars, sem enn er í fullum rekstri þótt óvíst sé hvort það eigi fyrir skuldum, ritar grein í Morgunblaðið 6. þ.m. Líklega hafði hann greinina stutta til þess að hún yrði frekar lesin. Það var illa ráðið. Sjálfs sín vegna hefði hann heldur átt að hafa hana svo langa að enginn nennti að lesa hana.
Magnús Óskarsson Hafragrautur, skeljar og Hjörvar HELGI Hjörvar, annar aðaleigandi hins pólitíska sameignarfélags Arnarsonar & Hjörvars, sem enn er í fullum rekstri þótt óvíst sé hvort það eigi fyrir skuldum, ritar grein í Morgunblaðið 6. þ.m. Líklega hafði hann greinina stutta til þess að hún yrði frekar lesin. Það var illa ráðið. Sjálfs sín vegna hefði hann heldur átt að hafa hana svo langa að enginn nennti að lesa hana. Grein Helga heitir "Nýtt vinstri", sem er heldur óíslenskuleg þýðing á merkingarlitlu erlendu slagorði. Svo fullyrðir hann að krafa um "nýja vinstrið" sé "... ekki aðeins almenn á Íslandi, heldur um allan heim..." Þegar Þórbergur Þórðarson gekk í stúku og hvíslað var að honum leyniorðunum: Guð er kærleikur, sagði hann: "Hvernig veistu það?" Hvernig veit Helgi Hjörvar að allur heimurinn vilji eitthvað "nýtt vinstri"? Helgi skrifar: "Hið nýja vinstri er frjálslynt stjórnmálaafl, víðsýnt og umburðarlynt. Þar rúmast ekki aðeins ólíkar skoðanir, heldur eru þær og þar með hin lýðræðislega umræða forsenda fyrir vexti og viðgangi hennar." Ekki veit ég hver þessi hún er, sem síðasta orðið vísar til. Öll greinin er eftir þessu; illa skrifað og illa hugsað orðagjálfur. Hún minnir á söguna um kennarann sem fékk vonlausar úrlausnir frá nemendum sínum og sagði: "Það er eins og það sé hafragrautur og skeljar í hausnum á ykkur." Annars skil ég vel að erfitt sé að skrifa skýrt um "nýja vinstrið". Er ekki von að vel fari þegar óskýr maður skrifar óskiljanlega grein um svo óljóst fyrirbæri.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.