SUMARSTARF Vinnuskólans í Reykjavík er hafið og verða rúmlega 3 þúsund unglingar þar við vinnu, fræðslu og leik í sumar. Að sögn Arnfinns Jónssonar, skólastjóra, eru það ívið færri þátttakendur miðað við sl. ár þrátt fyrir að árgangarnir séu nánast jafn stórir.
Rúmlega 3 þús. unglingar í Vinnuskólanum

Með stærri vinnu-

stöðum landsins SUMARSTARF Vinnuskólans í Reykjavík er hafið og verða rúmlega 3 þúsund unglingar þar við vinnu, fræðslu og leik í sumar. Að sögn Arnfinns Jónssonar, skólastjóra, eru það ívið færri þátttakendur miðað við sl. ár þrátt fyrir að árgangarnir séu nánast jafn stórir. "Það er eins og aðsóknin sé einhverra hluta vegna örlítið minni en munurinn er ekki mikill eða milli 10 til 20 manns en þetta mun skýrast í lok vikunnar þegar þau hafa öll sótt sín vinnukort," sagði hann.

Unglingarnir eru á aldrinum 14­16 ára og er Vinnuskólinn með stærstu vinnustöðum landsins. Leiðbeinendur eru um 200 og munu þeir kenna unglingunum rétt vinnubrögð og aðstoða þau við vinnuna. Meðal verkefna Vinnuskólans eru opin svæði í borginni og opinberar lóðir auk þess sem nemendur sinna görðum hjá um 600 ellilífeyrisþegum sé þess óskað.

Eldri nemendur taka að sé stærri verkefni í samvinnu við gatna- og garðyrkjudeild borgarverkfræðings og fjölmargir vinna utan Reykjavíkur, svo sem í Heiðmörk við skógrækt og á Nesjavöllum að átaki í uppgræðslu.

Auk vinnunnar taka unglingarnir þátt í fræðslustarfi m.a. í samstarfi við Jafningjafræðslu Félags framhaldsskólanema um forvarnarfræðslu, söfn eru heimsótt og framandi menningarheimar kynntir. Einnig eru elstu nemendunum kynnt réttindi og skyldur á vinnumarkaðinum.



Morgunblaðið/Arnaldur HÓPUR úr Vinnuskólanum við störf í Sæviðarsundi. Þau eru Nína, Þórey, Ívar, Eva, Sigríður, María, Halldór, Björgvin og Jakob.