Í SUMAR koma 45 skemmtiferðaskip til Reykjavíkur og með þeim um 23.000 farþegar. Þegar hefur fyrsta skipið haft hér viðkomu og næsta skip er væntanlegt í dag. Að sögn Ágústs Ágústsonar markaðsstjóra Reykjavíkurhafnar er sú vinna sem lögð hefur verið í að kynna höfnina að skila sér. Í sumar skipta átta skemmtiferðaskip um farþega í Reykjavík, en það er aukning frá því sem verið hefur.
45 skemmtiferðaskip væntanleg til Reykjavíkur í sumar með 23 þúsund farþega Þrjár perlur á sama deginum

Í SUMAR koma 45 skemmtiferðaskip til Reykjavíkur og með þeim um 23.000 farþegar. Þegar hefur fyrsta skipið haft hér viðkomu og næsta skip er væntanlegt í dag. Að sögn Ágústs Ágústsonar markaðsstjóra Reykjavíkurhafnar er sú vinna sem lögð hefur verið í að kynna höfnina að skila sér. Í sumar skipta átta skemmtiferðaskip um farþega í Reykjavík, en það er aukning frá því sem verið hefur.

Tvöföldun farþega

"Þetta er alveg nýtt hjá okkur. Með þessu tvöfaldast farþegafjöldi hvers skips. Þetta gerist þannig að nýir farþegar koma með leiguflugi og fólkið sem er um borð fer með flugvélinni til baka. Þetta er draumastaðan því með þessu stoppa skipin hér í 2-3 daga og allir farþegar fá einhverja skipulagða útsýnisferð. Auk þess þurfa skipin að taka hér vistir og fleira," sagði Ágúst en til samanburðar má geta þess að að meðaltali hafa skipin um 8-9 stunda viðdvöl í Reykjavík.

Af þessum skipum er til dæmis eitt bandarískt og þar fara 650 farþegar frá borði og aðrir 650 farþegar koma inn. Einnig eru nokkur skipanna þýsk en Þjóðverjar hafa verið að reyna að stytta ferðir með þessum hætti til að geta boðið upp á ódýrari ferðir með skemmtiferðaskipum. Nokkuð hefur dregið úr komu þýskra ferðamanna með skemmtiferðaskipum hingað til lands á undanförnum árum og er þar helst um að kenna bágu efnahagsástandi í landinu að mati Ágústs.

Skipin að stækka

Hann sagði að það væri regla frekar en hitt að skip kæmu hingað til lands ár eftir ár. Dæmi eru um að sama skipið hafi komið í árlega í 25 ár, og sum kæmu nokkrum sinnum á hverju sumri.

Aukning hefur verið í komu skemmtiferðaskipa. Árið 1988 komu 24 skip til Reykjavíkur og með þeim 9.100 farþegar en árið 1997 komu 47 skip og með þeim um 21.000 farþegar. "Á tíu ára tímabili hefur þetta rúmlega tvöfaldast og farþegafjöldinn hefur aukist enn meira. Skipin eru að stækka og fleiri farþegar eru um borð."

Ágúst segir að ekki hafi verið gerð ítarleg könnun á gjaldeyristekjum sem skemmtiferðaskip koma með inn í landið. Fyrir nokkrum árum var þó gerð könnun í samstarfi við Háskólann þar sem kom í ljós að hver ferðamaður eyddi 5.000 krónum í verslunum en í þeirri könnun voru ekki skoðaðar aðrar tekjur sem hljótast af komu skipanna eins og hafna- og vitagjöld, tollar, tekjur af útsýnisferðum, kaupum á vistum og fleiru. "Svo má ekki gleyma því að á þessum 45 skipum eru um 10.000 manns í áhöfn og margir þeirra fara í land og kaupa sér einhverja þjónustu til dæmis."

Ágúst segir að rekstur skipanna sé auðvitað hugsaður út frá viðskiptasjónarmiði og því ekki óeðlilegt að stundum sendi skipin gáma á undan sér með vistum í stað þess að kaupa matinn dýrari hér á landi. "En svo eru auðvitað keyptar hér vistir eins og ferskt grænmeti, mjólkurvörur og lax til dæmis," segir Ágúst sem er bjartsýnn á frekari vöxt í skipakomum til Reykjavíkur.

Mekka skemmtiferðaskipanna

Lögð hefur verið áhersla á að kynna höfnina fyrir aðilum í ferðaþjónustu undanfarin ár með góðum árangri. Að sögn Ágústs er mikil samkeppni um skipin og allir vilja fá til sín skemmtiferðaskip að hans sögn. "Við verðum að sýna fram á að við getum boðið upp á eitthvað áhugavert að skoða auk þess sem við verðum að markaðssetja höfnina sem slíka, dýpt hennar og annað."

Reykjavíkurhöfn tekur þátt í sýningu í Miami í Bandaríkjunum árlega sem Ágúst segir að sé "Mekka" skemmtiferðaskipanna. Aðspurður segir hann að þó ferðamennskan í kringum skipin sé ekki á höndum hafnaryfirvalda hafi höfnin haft frumkvæði að því að fá skip til Reykjavíkur og er þá unnið í samstarfi við hafnaryfirvöld á Ísafirði og á Akureyri og umboðsmenn skipanna. "Hafnirnar eru í eigu bæjanna og skipakomur hafa jákvæð áhrif á bæjarlífið."

Hver höfn yrði montin

Skipin sem hingað koma eru flest glæsileg en sum þó glæsilegri en önnur. Ágúst er sérlega stoltur af þremur skipum sem koma í sumar og öll verða þau í Reykjavíkurhöfn sama daginn, 23. júlí, og farþegar um borð alls 3.350. "Ég held að hver höfn myndi verða montin af að fá þessi skip til sín öll á sama deginum. Þetta eru skipin Elisabeth II, Pacific Princess og Crystal Symphony. Þetta eru allt perlur. Þau koma frá Ameríku og sólarhringurinn um borð kostar dágóðan pening," segir Ágúst.

Hann segir að til dæmis bjóði Crystal Symphony einungis upp á svítur fyrir gesti sína og hver þeirra sé með sérstökum glersvölum. "Sólarhringurinn á þessu skipi og sambærilegum skipum kostar svona 56-98.000 krónur."

Skemmtiferðaskip skipta um farþega hérlendis

Skipin stoppa í tvo til þrjá daga eða 8-9 klukkutíma