ÍSLENSKI hlutabréfamarkaðurinn hefur verið mjög rólegur það sem af er árinu. Úrvalsvísitala Verðbréfaþings lækkaði um 0,5% á fyrsta ársfjórðungi og hélt áfram að lækka í apríl, en í maí tók hún nokkurn kipp sem má meðal annars rekja til frétta af auknum þorsk- og loðnukvóta.
ÐTorgið

Hvað má gera til að örva

hlutabréfamarkaðinn?

ÍSLENSKI hlutabréfamarkaðurinn hefur verið mjög rólegur það sem af er árinu. Úrvalsvísitala Verðbréfaþings lækkaði um 0,5% á fyrsta ársfjórðungi og hélt áfram að lækka í apríl, en í maí tók hún nokkurn kipp sem má meðal annars rekja til frétta af auknum þorsk- og loðnukvóta. Ljóst er að velta á hlutabréfamarkaði hefur verið talsvert minni það sem af er árinu en á sama tíma í fyrra, en þó ber að líta til þess að það var algjör mettími.

Það blasir við að markaðurinn fór framúr sjálfum sér á fyrri hluta síðasta árs. Verðið fór úr samhengi við þau verðmæti sem lágu til grundvallar í fyrirtækjunum. Að hluta til var það vegna þess að nýr hópur fjárfesta lét að sér kveða. Meðal annarra ungt fólk sem jafnvel notaði námslánin sín í hlutabréfakaup og ætlaði sér að drýgja tekjurnar, selja eftir nokkra mánuði. Það gaf sér að þróunin yrði áfram stanslaus upp á við, enda kannski ekki fylgst með markaðnum lengi og ekki kynnst öðru.

Allt í einu, um mitt síðasta ár, fóru stærstu fjárfestarnir að átta sig á því að verðið var komið úr öllu raunhæfu samhengi við stöðu fyrirtækjanna. Þeir drógu því snögglega úr umsvifum sínum. Fjárfestingar á erlendum mörkuðum hafa aukist og samanburður við kjör á þeim er nú orðinn raunhæfari.

Skólagjald

Segja má, vonandi, að þessi þróun á síðasta ári hafi verið síðustu stóru vanþroskamerkin á íslenskum hlutabréfamarkaði, þótt hann sé auðvitað ungur að árum og að mörgu leyti vanþroska og lítt skilvirkur. Vafalaust má líta á síðasta ár sem lærdómsríkt og gott ár; margir ungir fjárfestar hafi borgað viðráðanlegt "skólagjald" og séu nú reynslunni ríkari. Margir töpuðu ugglaust nokkrum tugum þúsunda, sem er sárt fyrir eignalitla en gæti reynst ágætis innstæða á reynslureikningnum seinna meir.

Markaðurinn hefur semsagt í grófum dráttum verið fallandi síðan á miðju síðasta ári, þótt hann hafi tekið smá kipp í maí. Almennt eru minni viðskipti á fallandi markaði en hækkandi. Á fallandi markaði lagast verð hlutabréfa að hugsanlegum taprekstri og hin mannlega viðleitni er að bíða og sjá hvort ástandið lagist ekki.

Eins og kemur fram í viðtali við Stefán Halldórsson framkvæmdastjóra Verðbréfaþingsins í blaðinu í dag hefur verið rætt um hugsanlegar aðgerðir Verðbréfaþings og aðila á hlutabréfamarkaðnum til að hressa upp á hann og örva vöxt. Innviðir þingsins hafa verið að styrkjast að undanförnu og sérfræðingar eru almennt nokkuð sammála um að Verðbréfaþingið hafi staðið sig vel í þeim aðgerðum. Nú er talað um að styrkja viðskiptavakafyrirkomulagið og líta til farsælla aðgerða Seðlabankans, sem hefur verið í áföngum að draga sig út úr hlutverki viðskiptavaka með ríkisverðbréf. Mönnum hefur sýnst nauðsynlegt að styrkja viðskiptavakafyrirkomulagið og mynda fastar reglur um hvað það þýði að vera viðskiptavaki með ákveðin bréf. Ýmsir aðilar hafa verið að lýsa sig viðskiptavaka yfir ákveðnum bréfum og í því hafa falist litlar skyldur. Því hefur verið haldið fram að kerfið þurfi að vera fastara í sessi, þannig að þeir sem kalli sig viðskiptavaka með ákveðin hlutabréf þurfi að takast á hendur meiri skuldbindingar en nú.

Þó ber að hafa í huga að viðskiptavakar búa ekki til markað, en geta hinsvegar gert góðan markað betri. Ef ekki er virkur áhugi meðal kaupenda og seljenda bréfa er viðskiptavakahlutverkið eitt og sér þýðingarlítið og jafnvel varasamt fyrir þann sem það stundar.

Lífeyrissjóðir fjárfesta erlendis

Almennt er talið æskilegt að 20-30% af eignum langtímafjárfesta séu erlendar. Það dreifir augljóslega áhættu og getur jafnvel, í sumum tilvikum, aukið arðsemi. Lífeyrissjóðir stefna nú markvisst að því takmarki að 20% af eignum þeirra um aldamót verði í erlendum verðbréfum. Miðað við að eignir þeirra verði um 450 milljarðar þá, er hægt að gera ráð fyrir u.þ.b. 90 milljarða króna eign í erlendum bréfum.

Þá vaknar spurningin um gagnvirkni, þ.e. fjárfestingar erlendra aðila hér á landi. Vandamálin í því sambandi hafa verið smæð markaðarins, óstöðugleiki íslensku krónunnar fram til 1993 og pappírsviðskipti, en þau eru ekki traustvekjandi í augum útlendinga sem eiga að venjast rafrænum viðskiptum. Í augum þeirra er hagkerfið smátt og seljanleiki bréfa er tiltölulega ótryggur. Hlutabréfamarkaðurinn er mjög grunnur og lítið magn þarf til að breyta verði.

Grundvöllur fyrir verulega auknum vexti á íslenskum hlutabréfamarkaði hlýtur að vera frekari einkavæðing ríkisfyrirtækja. Í Bandaríkjunum og Bretlandi, þar sem lítil velta hlutabréfa er varla áhyggjuefni, eru fyrirferðarmikil fyrirtæki á hlutabréfamarkaði í geirum sem hér eru ríkisreknir. Þar má nefna orkusviðið; virkjanir og dreifingu orku, hitaveitu, rekstur flugvalla og hafna og jafnvel heilbrigðiskerfið, þótt allt tal um aukna þátttöku einkaaðila í rekstri þess sé forboðið nú sem endranær hér á landi.

ÍPJ