EPTA (Evrópusamband píanókennara) og Tónlistarskólinn í Reykjavík standa fyrir fyrirlestri og tónleikum í sal Tónlistarskólans í Reykjavík, Skipholti 33, sunnudaginn 14. júní kl. 17. Þar mun ísraelska tónskáldið og píanóleikarinn Gil Shohat leika Partítu nr. 6 í e-moll eftir J.S. Bach, sundurgreina verkið, útlista frá ýmsum hliðum og bregða nýju ljósi á flutning verka meistarans.

Fyrirlestur og tónleikar

EPTA (Evrópusamband píanókennara) og Tónlistarskólinn í Reykjavík standa fyrir fyrirlestri og tónleikum í sal Tónlistarskólans í Reykjavík, Skipholti 33, sunnudaginn 14. júní kl. 17. Þar mun ísraelska tónskáldið og píanóleikarinn Gil Shohat leika Partítu nr. 6 í e-moll eftir J.S. Bach, sundurgreina verkið, útlista frá ýmsum hliðum og bregða nýju ljósi á flutning verka meistarans. Eftir hlé mun Shohat kynna nokkur verka sinna. Gil Shohat er hingað kominn fyrir tilstilli ræðismanns Ísraels vegna 50 ára afmælis Ísraels.

Gil Shohat er fæddur árið 1973 í Tel-Aviv og hefur lokið prófum í tónsmíðum og píanóleik með hæstu einkunn frá Tónlistarháskólanum í Tel-Aviv og Santa Cecilia-tónlistarháskólanum í Róm.

Shohat hefur unnið til fjölda verðlauna, þ.á m. 1. verðlaun Tónlistarháskólans í Ísrael og 1. verðlaun í Arthur Rubinstein-tónsmíðakeppninni auk fjölda námsstyrkja frá Ísrael, Ítalíu og Bretlandi.

Verk hans hafa verið flutt víða í Evrópu og Bandaríkjunum og eru á efnisskrám helstu hljómsveita Ísraels. Shohat hefur samið píanóverk, kammerverk, píanókonsert og fiðlukonsert, sinfóníu, sönglagaflokka og tvær kantötur.

Frá árinu 1996 hefur ítalska útgáfufyrirtækið Ricordi séð um útgáfu verka hans.

Aðgangur er ókeypis.