ÚT Á bátsnafnið Hafmey SF-100 barst mér fyrir allnokkru bréf frá Þingflokki jafnaðarmanna með ávarpinu "Ágætu sjómenn", ásamt "tillögu til þingsályktunar um veiðileyfagjald". Bréf þetta mun hafa verið fjölfaldað í stórum stíl og ætlað að rata í bréfalúgur flestra sjómanna landsins.
Aumasta betlimál samtímans

Veiðileyfagjald er fráleitt brýnasta réttlætismál samtímans, segir Daníel Sigurðsson , heldur miklu fremur aumasta betlimál samtímans.

ÚT Á bátsnafnið Hafmey SF-100 barst mér fyrir allnokkru bréf frá Þingflokki jafnaðarmanna með ávarpinu "Ágætu sjómenn", ásamt "tillögu til þingsályktunar um veiðileyfagjald".

Bréf þetta mun hafa verið fjölfaldað í stórum stíl og ætlað að rata í bréfalúgur flestra sjómanna landsins.

Í bréfinu er því meðal annars haldið fram að veiðileyfagjald sé brýnasta réttlætismál samtímans og látið að því liggja að þingsályktunartillagan feli í sér kjarabætur til handa sjómönnum. Lítum á rökin:

"Veiðileyfagjald er tekið af hagnaði útgerðarmanna og það tryggir einnig arðsemi í sjávarútvegi til lengri tíma. Það að auka arðsemi við fiskveiðar skapar svigrúm til kjarabóta til handa sjómönnum."

M.ö.o. er verið að staðhæfa að auknar álögur á fyrirtæki auki arðsemi!!

Efnahagsvandamál samtímans eru þá svona auðleyst eftir allt saman. Þeir hagfræðingar samtímans sem vilja á annað borð láta taka sig alvarlega hljóta að reka í rogastans við þessi tíðindi og þeir gengnu að snúa sér við í gröf sinni. Tollahækkanir á brennivín hafa löngum verið drjúg búbót fyrir þurftarfreka ríkishít en eins og dropi í hafið miðað við þá flóðgátt sem hagfræðiuppgötvun Þingflokks jafnaðarmanna hefur nú opnað fyrir hinn nýja "skattmann" (G.H.H): Tollahækkanir á milljónir lítra af skipaolíu hljóta nú að vera á næsta leiti og allir græða! Þingflokkurinn staðhæfir í bréfinu að veiðiheimildum sé úthlutað ókeypis til fámenns hóps útgerðarmanna.

Skv. upplýsingum Fiskistofu mun fjöldi útgerða sem nú fá úthlutað veiðiheimildum (sóknardagaveiðiheimildir ekki meðtaldar) vera talsvert á annað þúsund. Eru útgerðirnar í mörgum tilvikum almenningshlutafélög og hleypur hluthafafjöldi sumra hverra á þúsundum. Þrátt fyrir háar tölur er það þó staðreynd að útgerðarfyrirtækjum hefur fækkað með tilkomu kvótakerfisins, enda eitt af markmiðunum með kerfinu að stækka fyrirtækin. Tekið skal fram að með grein þessari er ekki verið að taka afstöðu til kvótakerfisins sem slíks heldur aðeins veiðileyfagjalds.

Þegar framsal veiðiheimilda var gefið frjálst féll markaðsverð sjálfra skipanna og bátanna og mörg fleytan varð nánast verðlaus. Þetta var það gjald sem útgerðarmenn í raun greiddu fyrir framseljanlegar aflaheimildir. Þegar á heildina er litið hefur aflaheimildum því engan veginn verið úthlutað ókeypis.

Veiðileyfagjald er fráleitt brýnasta réttlætismál samtímans heldur miklu fremur aumasta betlimál samtímans. Betl í skjóli skrumskælingar á hugtakinu þjóðareign um beina hlutdeild í arðsemi höfuðatvinnuvegs þjóðarinnar án þess þurfa að leggja eyri af mörkum sjálfur hvað þá svitadropa. "Réttlæti" eða hitt þó heldur gagnvart þúsundum hlutabréfakaupenda í sjávarútvegi og þeirra sem þar vinna! Veiðileyfagjald er brýnt kosningamál flokks sem finnst óréttlátt að vera smár á þingi. Flokki þessum hefur gengið illa að ná til kjósenda samanborið við systurflokka hans í Evrópu, enda virðist flokksvélin fremur gera ráð fyrir gervigreind en hyggjuviti meðal kjósenda þegar hún talar til þeirra. Talsmönnum flokksins væri hollt að fara að átta sig á því að sjómenn eru ekki trúgjarnari en gengur og gerist þó vera kunni að þeir séu eitthvað hjátrúarfyllri. Sjómönnum er auðvitað algerlega ljóst að kjör þeirra myndu rýrna en ekki batna við tilkomu veiðileyfagjalds. Skoplegt áróðursbréf Þingflokks jafnaðarmanna mun þar engu breyta.

Í þingsályktunartillögunni er sértæk gjaldtaka Norðmanna af olíuhagnaðinum færð sem rök fyrir því að við ættum að taka upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi. Þessi röksemdafærsla snýst upp í andhverfu sína þar sem Norðmenn leggja ekki veiðileyfagjald á sjávarútveginn. Í Noregi er því ekki að finna rökin fyrir veiðileyfagjaldi heldur þvert á móti gegn því.

En hvar skyldi þingflokkur þessi hafa fundið hugmyndabanka við sitt hæfi fyrst hann fann hann ekki í Noregi? Í virtri amerískri hagfræðistofnun e.t.v.? Nei, vísast til á íslenskri fornbókasölu.

Hugmyndin að veiðileyfagjaldi sem sértækum skatti er nefnilega mörghundruð ára gamall uppvakningur sóttur í óréttlátt verðlagskerfi dönsku Einokunarverslunarinnar á Íslandi, en þar fór hluti af útflutningsverðmæti fiskafurða í útflutningsuppbætur landbúnaðarafurða sem leiddu til þess að útgerð drabbaðist niður og eymd þjóðarinnar jókst enn frekar.

Það er út af fyrir sig virðingarvert að þingflokkurinn skuli lesa sér til í Íslandssögunni, en hitt er verra að hann skuli ekki draga réttan lærdóm af henni.

Höfundur er véltæknifræðingur og kennari við Vélskóla Íslands.

Daníel Sigurðsson