ÍBÚAR Önundarfjarðar eru óánægðir með framgang mála í tengslum við endurbyggingu Essó- skála á Flateyri. Esso-skáli Olíufélagsins var meðal þess sem snjófljóðið braut niður á Flateyri 1995. Fyrir ári sótti Olíufélagið um leyfi frá bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar til að byggja samskonar þjónustustöð á sama stað. En nú hafa snjóflóðagarðar verið reistir þar fyrir ofan.
Íbúa Önundarfjarðar lengir eftir nýrri bensínstöð

Veðurstofan vill að skálinn

verði sérstaklega styrktur

ÍBÚAR Önundarfjarðar eru óánægðir með framgang mála í tengslum við endurbyggingu Essó- skála á Flateyri.

Esso-skáli Olíufélagsins var meðal þess sem snjófljóðið braut niður á Flateyri 1995. Fyrir ári sótti Olíufélagið um leyfi frá bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar til að byggja samskonar þjónustustöð á sama stað. En nú hafa snjóflóðagarðar verið reistir þar fyrir ofan.

Stefán Guðbergsson framkvæmdastjóri nýbygginga hjá Olíufélaginu segir þá enn ekkert svar hafa fengið frá réttum aðilum. Þeir hafi ætlað sér að hefja bygginguna síðasta sumar og sé því eðlilega farið að lengja eftir formlegu svari. Ef óeðlilegar kröfur, að mati Olíufélagsins, verði gerðar gætu þeir þurft að endurskoða áætlanir sínar.

Samráð við Veðurstofu

Skipulagsstofnun ríkisins sendi Veðurstofu Íslands bréf 28. maí síðastliðinn. Í því kemur fram að Skipulagsstofnun framsendi Veðurstofunni 9. október 1997 spurningu byggingarfulltrúa á Ísafirði, dagsetta 24. júlí 1997 um það með hvaða skilyrðum mætti heimila endurbyggingu bensínafgreiðslu á Flateyri.

Skipulagsstofnun segist í bréfinu, vegna ábendinga byggingarfulltrúans á Ísafirði, árétta tilmæli til Veðurstofu Íslands um að hún setji fram þau þolhönnunarákvæði sem eigi við fyrir bensínstöð á Flateyri. Í bréfinu er vísað til þess að það svæði sem bensínstöðin stóð á heyri undir eftirfarandi ákvæði í samþykktu deiliskipulagi Flateyrar; "... svæði þar sem ný hús skulu sérstaklega styrkt og skulu styrkingar í hverju tilfelli hannaðar í samráði við Veðurstofu Íslands."

Önfirðingar óánægðir

Í síðustu viku sendu Önfirðingar bréf til Veðurstofu Íslands og bæjarstjórnar Ísafjarðar með undirskriftum 300 íbúa. Í bréfinu lýsa þeir yfir óánægju sinni vegna þess að veiting leyfis fyrir endurbyggingu Essó-skálans hafi dregist á langinn. Þeir segja einnig að engum þurfi að dyljast mikilvægi þess að nýr söluskáli megi rísa sem fyrst svo Önfirðingar, nærsveitamenn og ferðamenn fái notið þjónustu skálans.

Í texta með undirskriftalistanum segir einnig: "Ómögulegt er að skilja til hvers snjóflóðagarðarnir eru ef að setja á svo óeðlilegar kröfur um byggingu á svæðinu. Við skorum á þá sem hingað til hafa valdið þessum seinagangi að leggjast frekar á eitt til að skálinn rísi."

Nýbyggingar séu öruggar

Veðurstofa Íslands sendi Skipulagsstofnun svar síðastliðinn mánudag. Í því eru þolhönnunarákvæðin sett fram: "Veðurstofan telur viðunandi að bensínstöðin rísi á umræddum stað ef hún verður styrkt til að þola áraun sem nemur 40 kN á fermetra í stefnu frá Skollahvilft." Kristján Jónasson, verkefnisstjóri hættumats á Veðurstofunni, segir að leggja þurfi áherslu á þá grundvallarvinnureglu að gera skýran mun á nýbyggingum og þeim sem þegar standa og að þær séu sem öruggastar. Kristján segir það rétt að málið hafi dregist um of en ekki sé æskilegt að hver bendi á annan heldur verði stefnt að sameiginlegri farsælli lausn.