Verk eftir Carlotu Duarte og skjólstæðinga hennar frá Chiapas-héraðinu í Mexíkó. Til 20. júní. Opið mánudaga til fimmtudaga frá 9­21; föstudaga frá 9­19, og laugardaga frá 12­16. Aðgangur ókeypis. Sýningarskráin "ODELLA ­ að lifa af", kr. 1.500.

Elska skaltu náungann

eins og sjálfan þig ... MYNDLIST Menningarmiðstöðin Gerðubergi LJÓSMYNDIR

Verk eftir Carlotu Duarte og skjólstæðinga hennar frá Chiapas-héraðinu í Mexíkó. Til 20. júní. Opið mánudaga til fimmtudaga frá 9­21; föstudaga frá 9­19, og laugardaga frá 12­16. Aðgangur ókeypis. Sýningarskráin "ODELLA ­ að lifa af", kr. 1.500. HÉR er um tvær aðskildar ljósmyndasýningar að ræða. Í anddyrinu niðri í menningarmiðstöðinni er myndröðin "SÓPAÐU ALDREI SÍÐDEGIS" eftir mexíkanska nemendur bandarísku nunnunnar Carlotu Duarte, en hún er sjálf af mexíkönsku bergi brotin. Orðið nemendur er hér notað í óeiginlegri merkingu því það eru óbreyttir Maya-indíánarnir frá Chiapas ­ þeir sömu og við þekkjum úr fréttum sem fjendur stjórnarinnar í Mexíkó-borg ­ sem mundað hafa græjurnar á það sem þeim sjálfum fannst markvert. Systir Carlota, sem komin var til Mexíkó frá heimabyggð sinni í Cambridge, Massachusetts, í leit að uppruna sínum, gerði ekki annað en útvega þeim myndavélarnar og framköllunartæknina. Hún lagði sig beinlínis í líma við að kenna indíánunum sem minnst svo vestræn sýn hennar eyðilegði ekki upprunaleg myndgildi þeirra. Eins og allir vita áttu Mayar sér ríkulegt lista- og menningarskeið á for-kólumbískum tíma ­ miðöldum, samkvæmt okkar tímatali; nánar til tekið skömmu fyrir, og á því skeiði sem við köllum landnámsöld, söguöld og þjóðveldistíma. Pýramídar þeirra, lágmyndir, málverk og rúnir eru með mikilfenglegustu minjum sem varðveist hafa í Ameríku. Sú list varð nærtækasta fyrirmynd mexíkanskrar nútímalistar á millistríðsárunum. En í staðinn fyrir hið stórbrotna drama ­ grimmúðleg goð, launhelgar og ógnvekjandi blóðfórnir ­ sem einkenndi hina konunglegu miðaldalist Maya beinist ljósmyndun afkomendanna að því fábrotna lífi sem þeir lifa nú á tímum. Þeir ljósmynda náungann við vinnu sína, mæður með börn sín, gróður jarðar og matargerðina, húsdýrin, heimatilbúið altarið og hátíðarhöldin með grímum sínum, goðmögnum og sviðsettu nautaati. Áherslurnar eru vissulega mismunandi eftir því hver heldur á ljósmyndavélinni. Þannig taka konurnar í Chiapas allt öðruvísi myndir af körlum sínum en karlarnir af þeim. Ungviðið bryddar upp á enn öðrum vinkli. Sýningin er dæmigerð fyrir þá samfélagslegu áherslu sem listamenn á borð við systur Carlotu hafa að leiðarljósi. Listamaðurinn heldur sig til hlés en reynir þess í stað að efla skilning og virkja næmi samferðamanna sinna fyrir eigin hæfileikum og sköpunarkrafti. Er þetta ekki einmitt hugmynd okkar um Guð; hið ósýnilega almætti sem nýtir sér okkur mennina sem verkfæri sitt? Hin sýningin, "ODELLA ­ að lifa af", er í salnum bakvið kaffiteríuna í Gerðubergi. Þessi átakanlega sýning sem ábyggilega nær að væta augu margra sýningargesta er annað samvinnuverkefni systur Carlotu, að þessu sinni við konu af allt öðru sauðahúsi en hún er sjálf. Odella er ein af fjölmörgum, saklausum fórnarlömbum þessa heims. Sem barn mátti hún þola ofbeldi og vanrækslu, og það sem verra var; að vera lokuð að ófyrirsynju inni á geðveikrahæli. Af myndröðinni má sjá að hún hefur aldrei borið sitt barr eftir meðferðina. Öllu stórkostlegra er að sjá hvernig nunnan Carlota Duarte, sem væntanlega lifir skírlífi sem brúður Jesú, heilsar Odellu fagnandi, þó svo að lesa megi milli línanna að sú síðarnefnda hafi lifað allt öðru en grandvöru lífi, enda þrígift, sjö barna móðir ­ án þess að hafa fengið að ala nokkurt þeirra upp. Fordómalaust gengur systir Carlota inn í fáfengilegan hugarheim Odellu Chatel og tekur af henni hverja ljósmyndina eftir aðra, en náin vinátta kvennanna tveggja hefur nú varað í aldarfjórðung. Odella er með allan hugann við elskhugana, útlitið og líkamann. Þótt hún sé bersýnilega heimsk og ljót tekst henni á góðri stund að hrista af sér þunglyndisdoðann og samsama sig þeim sem hún vildi helst líkjast; Liz Taylor og Marilyn Monroe, meðan þær voru og hétu. Með tveim hárkollum, ljósri og dökkri, sem hún skellir eins og vanhirtum sátum á hausinn fyrir framan spegilinn, nær hún að upplifa sig örskotsstund sem heila og heillandi manneskju sem hugsanlega gæti snortið einhvern þótt aldur og útlit hreki hana til endalausrar einveru. Samkennd systur Carlotu virðist takmarkalaus. Með þessum tveim ljósmyndaröðum tekst henni að sýna hvernig list samtímans hefur sig yfir allan grun. Hér er ekki verið að velta sér upp úr þegar fundinni fegurð til að slá ryki í augu kröfulítilla sýningargesta. Kúrsinn er settur á háleitari mið; hvorki meira né minna en samruna hins fagra og góða; hina ósættanlegu þverstæðu allrar sið- og fagurfræði. Þangað stefndi líka frelsarinn forðum þegar hann bað okkur um að sleppa grjótkastinu, gleyma ekki okkar smæsta bróður, elska náungann eins og okkur sjálf og fyrirgefa umyrðalaust okkar versta óvini. Þannig er framlag Carlotu Duarte miklu stærra og tilkomumeira en umfang þess hermir við fyrstu sýn og þannig er það reyndar með alla sanna og brýna list. Halldór Björn Runólfsson HÉRNA reynir Odella Chatel, árið 1988, að líkja eftir Marilyn Monroe og telur að svo vel hafi tekist til að ný kynþokkadís sé fædd.