Í HVERAGERÐISKIRKJU hefst tónlistarhátíðin "Bjartar sumarnætur" á morgun, föstudaginn 12. júní, kl. 20.30 og stendur hún yfir í þrjá daga með jafnmörgum tónleikum, en hátíðin er framlag bæjarins til tónlistar- og menningarmála. Meginuppistaðan fyrsta tónleikadaginn eru verk frá 17. og 18. öld eftir barokktónskáld auk Sónötu fyrir flautu og píanó eftir Poulenc.
Þriggja daga

tónlistarhátíð

Í HVERAGERÐISKIRKJU hefst tónlistarhátíðin "Bjartar sumarnætur" á morgun, föstudaginn 12. júní, kl. 20.30 og stendur hún yfir í þrjá daga með jafnmörgum tónleikum, en hátíðin er framlag bæjarins til tónlistar- og menningarmála. Meginuppistaðan fyrsta tónleikadaginn eru verk frá 17. og 18. öld eftir barokktónskáld auk Sónötu fyrir flautu og píanó eftir Poulenc. Aðstandendur hátíðarinnar telja fullvíst að hún muni skipa fastan sess í bæjarlífi Hvergerðinga í framtíðinni, enda hafi gengið vel í fyrra þegar hún var haldin í fyrsta skipti.

Tríó Reykjavíkur og góðir gestir

"Bærinn vildi halda hátíðina aftur því aðsóknin var mikil í fyrra og viðtökurnar góðar," segir Gunnar Kvaran, sellóleikari í Tríói Reykjavíkur, en tríóið er burðarásinn í hátíðinni. Auk Gunnars leika í tríóinu Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Peter Máté píanóleikari. Gunnar segir að nálægðin við höfuðborgina hafi góð áhrif á aðsóknina því ekki sé um svo langan veg að fara til að hlýða á sígilda tónlist. "Við vildum hafa á efnisskránni að minnsta kosti eitt veglegt kammerverk á hverjum tónleikum í bland við kvartetta, tríó og sönglög," segir Gunnar.

Fimm gestir Tríós Reykjavíkur eru að þessu sinni Gerður Gunnarsdóttir fiðluleikari, Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari, Helga Þórarinsdóttir víóluleikari, Sigrún Hjálmtýsdóttir sópran og Gerrit Schuil píanóleikari. Sönglögin mun Sigrún Hjálmtýsdóttir flytja, en hún kemur fram á öllum þrennum tónleikunum, og segir Guðný Guðmundsdóttir að efnisskráin hafi að nokkru leyti verið byggð upp í kringum sönglögin sem Sigrún flytur. Þrjú þeirra eru samin við ljóð Halldórs Laxness og segja listamennirnir að Nóbelsskáldsins sé minnst með þeim hætti að velja lögunum stað í efnisskránni.

Laugardagurinn undir íslensku tónlistina

Fimmtán íslensk tónverk, stór og smá, verða flutt á hátíðinni og þeim er valin stund laugardaginn 13. júní, en tónleikarnir hefjast þá kl. 17. Meðal verkanna er sónata í F-dúr fyrir fiðlu og píanó eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og segir Guðný að sónatan sé fyrsta íslenska fiðlusónatan sem samin hafi verið. "Þetta er sónata sem hefur legið í gleymsku í áratugi og fékk mjög góðar viðtökur áheyrenda og gagnrýnenda í vetur þegar hún var flutt í Norræna húsinu og var kölluð "Vorsónata Íslands"," segir Guðný. "Við flytjum líka lítinn strengjakvartett, Andante in memoriam eftir Emil Thoroddsen, sem var frændi Sveinbjarnar," bætir hún við. Svo vill til að í júní eru eitt hundrað ár síðan Emil fæddist svo það fer vel á því að flytja kvartettinn, sem Guðný segir að hafi legið í gleymsku um langt árabil, en Emil samdi strengjakvartettinn til minningar um móður sína, Önnu Guðjohnsen. Yngsta verkið á efnisskránni er eftir Áskel Másson frá árinu 1994 og nefnist það Spor, fyrir sópran, selló og píanó. Verkið er samið eftir texta Thors Vilhjálmssonar og var frumflutt af Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Gunnari og Guðnýju í Hafnarborg á síðasta ári. Þótt laugardagurinn verði helgaður íslenskri tónlist leika píanóleikararnir Schuil og Máté fjórhent á píanó Grand Rondeau op. 107 eftir Franz Schubert og þá verður leikin Serenaða í D-dúr op. 25 fyrir flautu, fiðlu og víólu eftir Beethoven.

Klassík og rómantík að síðustu

Síðasta tónleikadaginn, sunnudaginn 14. júní, svífur andi barokks, klassíkur og rómantíkur yfir vötnum í Hveragerðiskirkju, því leikin verða fimm verk eftir höfuðtónskáld þessara stefna. Tónleikarnir hefjast kl. 20.30 með Passacagliu fyrir fiðlu og víólu eftir H¨andel og Halvorsen, Flautukvartett í D-dúr KV. 285 eftir Mozart, Frauenliebe und -leben eftir Schumann og eftir hlé verða leikin Ah! Vous dirai ­ je, Maman fyrir sópran, flautu og píanó eftir Adolphe Adam-Schmidt og að síðustu píanótríó op. 90 eftir Dvorák.

Fyrir þremur árum var tónlistarhátíðin Bjartar sumarnætur aðeins hugmynd, sem laust niður í huga hjónanna Gunnars og Guðnýjar, sem voru í brúðkaupsferð í Hveragerði. "Okkur datt í hug að það væri gaman að halda tónlistarhátíð úti á landi og við spurðum okkur hvort Hveragerði væri ekki ákjósanlegur staður," segir Gunnar. "Við bárum erindi okkar upp við bæjaryfirvöld, sem tóku okkur sérstaklega vel, og í maí á síðasta ári var hátíðin haldin í fyrsta skipti og gekk vonum framar og því erum komin hingað aftur."

Áheyrendurnir mjög einbeittir

Gerrit Schuil píanóleikari ber mikið lof á íslenska áheyrendur og segir þá engum líka. "Þeir hlusta með svo mikilli einbeitingu og skiptir þá engu hvort um ræðir tónlist sem þeir þekkja eða ekki," segir Schuil. "Ég gleymi því aldrei þegar ég lék langa og erfiða sónötu eftir Schubert í Garðabæ fyrir tveim árum. Í fjörutíu og fimm mínútur á hægum hraða og með veikri áferð heyrðist hvorki hósti né stuna. Þetta myndi aldrei gerast í Amsterdam, Berlín eða New York. Áheyrendur þar skirrast ekki við að láta í sér heyrast og gangast blygðunarlaust við öðrum búkhljóðum. Á Íslandi nær maður nefnilega einstöku sambandi við áheyrendur og það myndast oft skapandi andrúmsloft á tónleikum," segir Schuil, við góðar undirtektir félaga sinna.

Vináttan mest um verð

Listamennirnir eru sammála um að tónleikar sem haldnir eru á hátíð sem þessari séu nokkuð frábrugðnir hefðbundnum tónleikum, aðalmunurinn felist í þeirri miklu samveru sem fylgir slíku tónleikahaldi. "Það sem mér finnst gera svona tónlistarhátíð svo skemmtilega," segir Gunnar, "er hin nána samvinna og vinátta sem skapast á milli fólks, þar sem góðir tónlistarmenn hittast og eru saman allan daginn. Aðstaðan hér er einnig mjög góð og það er mjög ánægjulegt að hátíðin skuli vera bæði bænum og okkur til hagsbóta."

Morgunblaðið/Jim Smart "MJÖG ánægjulegt að tónlistarhátíðin skuli vera bæði Hveragerði og okkur til hagsbóta," segja listamennirnir sem koma fram á "Björtum sumarnóttum" í Hveragerðiskirkju um helgina.