Hornafirði-Gamli vatnstankurinn á Fiskhól er nú í endurbyggingu. Tankurinn var byggður árið 1949 og var hluti af fyrstu vatnsveitu Hafnar, sem var stórvirki á sínum tíma og gjörbreytti lifnaðarháttum íbúanna, því áður var allt neysluvatn fengið úr brunnum.

Gamli vatnstankurinn á

Fiskhól endurbættur

Hornafirði - Gamli vatnstankurinn á Fiskhól er nú í endurbyggingu. Tankurinn var byggður árið 1949 og var hluti af fyrstu vatnsveitu Hafnar, sem var stórvirki á sínum tíma og gjörbreytti lifnaðarháttum íbúanna, því áður var allt neysluvatn fengið úr brunnum. Þá gerði vatnsveitan það að verkum að hér var hægt að stórauka atvinnustarfsemi, einkum fiskvinnslu, og í kjölfarið var byggt frystihús. Gamli vatnstankurinn skipar því veglegan sess í atvinnusögu Hafnar.

Tankurinn var hannaður og teiknaður af Sigurði Thoroddsen verkfræðingi og er eina mannvirki sinnar tegundar á landinu. Hann gnæfir yfir byggðina á Höfn og hefur sett mikinn svip á bæinn. Tankurinn tekur 200 tonn af vatni. Fyrir nokkrum árum hætti hann að þjóna hlutverki sínu, því nýtt mannvirki tók við af honum. Bæjarstjórn Hornafjarðar tók þá ákvörðun að rífa hann en þá upphófust mikil mótmæli í bænum m.a. með söfnun undirskrifta til styrktar þessu mannvirki.

Í kjölfarið var stofnaður áhugamannahópur sem hlotið hefur nafnið "Verndum vatnstankinn", sem samdi um það við bæjarstjórn að taka að sér að sjá um endurbætur á tanknum og afla til þess fjár. Fjársöfnunin hefur gengið mjög vel og fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar hafa lagt þessu málefni lið með fjárframlögum. Þá hafa margir lagt fram vinnu sína endurgjaldslaust svo sem arkitektastofan Kím sf. (en tveir eigendur hennar, Árni og Sigbjörn Kjartanssynir, eru fyrrverandi Hornfirðingar), Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen, og síðast en ekki síst Hildigerður Skaftadóttir formaður Verndum vatnstankinn. Fjársöfnun er næstum lokið, en þó ekki alveg. Tekið er á móti framlögum bæði í útibúi Landsbankans á Hornafirði og í Sparisjóði Hornafjarðar.

Framkvæmdir við endurbætur á tanknum eru þegar vel á veg komnar og er stefnt að því að þeim verði lokið um miðjan þennan mánuð.

Morgunblaðið/Sigurður Hannesson GAMLI vatnstankurinn á Fiskhól setur svip á bæinn.