Í ÖRLYGSHÖFN við Patreksfjörð hefur fundist skipsflak sem talið er vera frá árinu 1694. Egill Ólafsson, safnvörður að Hnjóti, segir að flakið hafi áður fundist árið 1923, fallið í gleymsku en komi nú aftur í ljós þar sem árfarvegur Hafnarvaðals hefur grafið það upp á ný. "Þegar flakið fannst árið 1923 náðu bændur á Hnjóti þremur plönkum úr skipinu.
Skipsflak frá 1694 finnst við Patreksfjörð

Í ÖRLYGSHÖFN við Patreksfjörð hefur fundist skipsflak sem talið er vera frá árinu 1694. Egill Ólafsson, safnvörður að Hnjóti, segir að flakið hafi áður fundist árið 1923, fallið í gleymsku en komi nú aftur í ljós þar sem árfarvegur Hafnarvaðals hefur grafið það upp á ný.

"Þegar flakið fannst árið 1923 náðu bændur á Hnjóti þremur plönkum úr skipinu. Síðan hvarf það og gleymdist, en mér var sagt frá því hvar það lá. Nú hefur ströndin breyst allmikið vegna árinnar og því kemur skipið aftur í ljós. Þarna virðist vera botninn á skipinu, ég veit ekki hvað mikið af honum, en flakið er þarna," sagði Egill sem nýlega rakst á flakið.

Stuðst við annála

Heimildir úr Eyrarannál, sem ritaður var af Magnúsi Magnússyni sýslumanni á sautjándu öld, segja frá komu nokkurra erlendra skipa til Patreksfjarðar: "Sumarið 1694 kom franskt stríðskip að Vatneyri í Patreksfirði. Þess kapteinn var Jóhannes Diesepar er lengi hafði verið hvalveiðimaður hér við land. Hann hafði tekið tvö ensk skip við komuna frá Vestur Indíum hlaðin með sykur, tóbak og aðrar dýrmætar vörur, og sigldi með þau inn á fyrrnefnda höfn í Vatneyri. Nokkrar enskar fiskiduggur lágu um þennan tíma á Tálknafirði, hverjar þeir fyrst rændu og tóku alla frakt af þeim og í skip sín inn lögðu, og settu síðan eld upp á þessar duggur létu þær logandi sigla út af Tálknafirði." Skipin brunnu svo á sjó úti og þau rak upp í höfnina eins og hvert annað rekald, segir Egill.

Egill segir að þessi lýsing renni stoðum undir þann grun sinn um að flakið í Örlygshöfn sé frá árinu 1694. "Þegar ég skoðaði flakið kom í ljós að timbrið hafði farið í eld, og eftir allmikla leit í annálum fann ég fyrrnefnda sögu. Það eru mjög miklar líkur á því að þarna séu leifar af einu skipinu, og ef þetta reynist rétt er þetta mjög merkilegur fundur."

Egill segir lýsinguna í annálnum passa vel við rek skipa um fjörðinn. "Þeir láta skipin sigla út Tálknafjörðinn, út á Patreksfjarðarflóann, og vitanlega hafa þeir ekki getað látið skipin sigla þarna út nema í norðanátt og svo þegar þeir koma þarna út, rekur skipin undan norðanáttinni og ber þarna á land. Eitt skipið rekur þarna að Hafnarvaðlinum og það er það skip sem við erum að fást við nú," sagði Egill.

Að sögn Egils er von á þjóðminjaverði innan skamms til að kanna flakið, og aldursgreina það, en ekki má hreyfa við því þar sem það flokkast undir náttúruminjar.