SAMNINGAR tókust í gær í deilu 10.000 ökumanna á vöruflutninga- og fólksflutningabifreiðum í Noregi en verkfall þeirra hefur staðið í tæpan mánuð og valdið miklum vandræðum. Um 8.000 félagar í samtökum háskólamenntaðra manna eru enn í verkfalli og 231 flugumferðarstjóri ætlar að leggja niður vinnu á morgun.
Samið við bílstjóra í Noregi en flugumferðarstjórar boða verkfall

Gæti stöðvað flug

til og frá landinu

Ósló. Reuters.

SAMNINGAR tókust í gær í deilu 10.000 ökumanna á vöruflutninga- og fólksflutningabifreiðum í Noregi en verkfall þeirra hefur staðið í tæpan mánuð og valdið miklum vandræðum. Um 8.000 félagar í samtökum háskólamenntaðra manna eru enn í verkfalli og 231 flugumferðarstjóri ætlar að leggja niður vinnu á morgun.

Viðræður við bílstjórana stóðu í alla fyrrinótt og loksins náðist "besti samningur nokkru sinni" eins og einn samningamanna þeirra orðaði það. Var hann um 13% kauphækkun en atvinnurekendur segjast nú tilneyddir til að hækka gjaldskrár til að hafa eitthvað upp í útgjaldaaukann.

Gudmund Restad, fjármálaráðherra Noregs, hefur sagt, að samið hafi verið um allt of miklar launahækkanir í mörgum samningum undanfarið og því sé mikil hætta á ofþenslu í efnahagslífinu.

Sjúkraliðadeila í kjaradóm

Norska stjórnin vísaði í fyrradag deilu 1.500 sjúkraliða og annars starfsfólks í heilsugæslunni til kjaradóms og skipaði þeim að hætta verkfalli, sem væri farið að stefna lífi margra sjúklinga í hættu. Talsmenn sjúkraliða eru ekki sammála því og segjast þeir ekki munu mæta til vinnu fyrr en þingið hafi samþykkt tilskipun ríkisstjórnarinnar en það getur dregist í viku.

Samtök háskólamenntaðra manna, AF, voru áður kennarafélag aðallega en ná nú til miklu fleiri, til dæmis presta, flugumferðarstjóra, starfsfólks í heilsugæslunni og fleiri. Þau voru ekki aðilar að samningum annarra félaga opinberra starfsmanna í síðasta mánuði en þá var samið um 6% kauphækkun. Um 8.000 félagar í Af eru í verkfalli og á morgun ætlar 231 flugumferðarstjóri að leggja niður vinnu. Það gæti stöðvað allt flug til og frá Noregi og innanlandsflugið í suðurhluta landsins.