Framleiðsla: Friðrik Þór Friðriksson og Óskar Jónasson. Leikstjórn: Óskar Jónasson. Handrit: Óskar Jónasson. Kvikmyndataka: Sigurður Sverrir Pálsson. Tónlist: Ólafur Gaukur. Aðalhlutverk: Jóhann Sigurðsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Ólafur Darri Ólafsson. Sam- myndir, maí 1998. Leyfð til sýninga fyrir alla aldurshópa.

Kostulegur

fáránleiki

Perlur og svín Gamanmynd

Framleiðsla: Friðrik Þór Friðriksson og Óskar Jónasson. Leikstjórn: Óskar Jónasson. Handrit: Óskar Jónasson. Kvikmyndataka: Sigurður Sverrir Pálsson. Tónlist: Ólafur Gaukur. Aðalhlutverk: Jóhann Sigurðsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Ólafur Darri Ólafsson. Sam- myndir, maí 1998. Leyfð til sýninga fyrir alla aldurshópa. "PERLUR og svín" er önnur kvikmynd Óskars Jónassonar. Hún fjallar um dæmigerðan íslenskan framkvæmdamann sem veður út í þá vitleysu að kaupa gamalt og afdankað bakarí til að græða peninga. Eiginkona hans, sem Lísubakarí er nefnt eftir, tekur þátt í ævintýrinu, meira af vilja en viti, líkt og karlinn hennar. Það verður hjónakornunum til happs að móðir framkvæmdastjóra stærsta keppinautar þeirra strunsar í fússi úr vinnu hjá dóttur sinni og ræður sig til þeirra í staðinn. Sú gamla er mikill kökumeistari og fyrr en varir fara hjólin að snúast. En óvinurinn hyggur á hefndir. Saman við þetta fléttast ýmis hliðarævintýri, s.s. bílaviðskipti sonarins við rússneska togarasjómenn og dæmalaus útþrá frú Lísu, sem dreymir hlýjar sólarstrendur langra myrkra á milli. Þetta er að flestu leyti mjög vel heppnuð gamanmynd. Hún ber þess greinileg merki að íslensk kvikmyndagerð er í þann veginn að slíta barnsskónum og að fullskipað lið atvinnumanna er að skjóta hér rótum. Leikur er með allra besta móti, sem að miklu leyti skrifast á reikning leikstjórans. Óskari tekst greinilega vel að halda utanum leikarahópinn og fastmótaða sýn á söguna sem hann flytur. Handritið er, samkvæmt gamalli íslenskri hefð, veikasti punkturinn, en þó vantar aðeins herslumun. Persónur Óskars eru kostulega fáránlegar en um leið ótrúlega kunnuglegar, sem skapar sérstaka stemmningu sem helst út í gegn. Snurður hlaupa á alla þræði fléttunnar og allt stefnir í óefni í lok myndarinnar, en Óskar leysir vandann með bílaeltingaleik, líkt og í "Sódómu Reykjavík". Þetta Hollywood-minni gæti því orðið höfundarmark hans ef svo heldur sem horfir. Helsti galli frásagnarinnar er að hún er helst til laus í reipunum. Óskar Jónasson er óðum að sanna sig sem einn okkar fremstu kvikmyndaleikstjóra. Með þessari mynd sýnir hann greinilegar framfarir sem vekja bjartar vonir um hvað komi frá honum næst. "Perlur og svín" er bráðskemmtileg kvikmynd sem óhætt er að mæla með við flesta. Hingað til hefur lítil rækt verið lögð við gerð gamanmynda hér á landi og því stendur Óskar aleinn í stóru skarði. Með þessu áframhaldi er þó ekkert líklegra en að hann nái að fylla það fyrr en varir. Guðmundur Ásgeirsson