TÓNLISTARSKÓLANUM í Reykjavík var slitið 29. maí sl. í Háteigskirkju í 68. sinn. Strengjasveit Tónlistarskólans í Reykjavík, undir stjórn Marks Reedman, lék fyrsta þátt Salzburg-sinfóníu W.A. Mozarts. Skólastjórinn, Halldór Haraldsson, flutti ræðu um helstu atburði skólaársins og efstu mál á baugi nú eins og væntanlegan Listaháskóla Íslands o.fl.

Skólaslit Tónlistar-

skólans í Reykjavík

TÓNLISTARSKÓLANUM í Reykjavík var slitið 29. maí sl. í Háteigskirkju í 68. sinn. Strengjasveit Tónlistarskólans í Reykjavík, undir stjórn Marks Reedman, lék fyrsta þátt Salzburg-sinfóníu W.A. Mozarts. Skólastjórinn, Halldór Haraldsson, flutti ræðu um helstu atburði skólaársins og efstu mál á baugi nú eins og væntanlegan Listaháskóla Íslands o.fl. Að því loknu afhenti hann þeim nemendum sem nú útskrifast frá skólanum skírteini sín. Að þessu sinni brautskráðust 17 nemendur frá skólanum með 19 lokapróf en tveir nemendur luku tvenns konar prófum. Fjórir nemendur luku tónmenntakennaraprófi, þrír nemendur blásarakennaraprófi, einn fiðlukennaraprófi, tveir píanókennaraprófi, fimm burtfararprófi og fjórir einleikaraprófi.

Skólaárið hófst með námskeiði tveggja kennara frá Guildhall School of Music and Drama í skapandi tónlist og tónlistarmiðlun. Margir aðrir góðir gestir sóttu skólann heim á skólaárinu, "Rollin' Phones", fjórar sænskar saxófónstúlkur héldu fyrirlestur-tónleika í lok október, "Arctic-Brass"-blásarakvintettinn frá Noregi hélt einnig fyrirlestur-tónleika í lok október, breski flautuleikarinn Avril Williams, mörgum hér að góðu kunn frá því hún starfaði í Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir allmörgum árum, hélt námskeið fyrir nemendur skólans, hinn þekkti bandaríski fiðluleikari og stjórnandi Sidney Harth hélt námskeið í byrjun desember, Sibyl Urbancic hélt námskeið í spuna í febrúar og Philip Jenkins kom í heimsókn með fjóra efnilega unga listamenn sem héldu tónleika á vegum skólans og sjálfur hélt hann námskeið fyrir píanónemendur og -kennara. Af fyrirlestrum má nefna að hljómsveitarstjórinn Andreas Peer Kähler hélt námskeið um eistneska tónskáldið Arvo Pärt, en tónskáldið var statt hérlendis um það leyti, Runólfur Þórðarson hélt fyrirlestur um Feruccio Busoni og Margrét María Leifsdóttir um fiðlusmíði.

Nemendaskipti við hin Norðurlöndin hafa haldið áfram á vegum Nordplus og önnur lönd Evrópu gegnum Erasmus-skiptinemakerfið. Nefna má að nú í ár er í fyrsta sinn sem Nordplus-nemandi lýkur einleikaraprófi frá skólanum. Í janúar var aðalfundur Nordplus haldinn í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem 24 fulltrúar frá tónlistarháskólum hinna Norðurlandanna mættu.

Tónleikahald var mikið í vetur, alls voru haldnir 49 tónleikar á vegum skólans, þar af 25 opinberir tónleikar utan skólans og 24 reglulegir tónleikar innan skóla. Af þessum tónleikum voru tvennir hljómsveitartónleikar, þrennir strengjatónleikar, tvennir kammertónleikar og tónleikar með þáttum úr óperunni Carmen eftir Bizet. Þá eru ótaldir þeir tónleikar sem nemendur skólans tóku þátt í á UNM eða Ung Nordisk Musik-hátíðinni í upphafi skólaárs.

Listasjóður Tónlistarskólans í Reykjavík veitti tveimur nemendum viðurkenningu með bókargjöf fyrir framúrskarandi árangur í námi, þeim Álfheiði Hrönn Hafsteinsdóttur, sem lauk einleikaraprófi, og Áka Ásgeirssyni, sem lauk tvenns konar prófum.

Í lok skólaslita gáfu nemendur þeir sem brautskráðust skólanum þarfa gjöf, vandaðan píanóbekk! Hildigunnur Halldórsdóttir hafði orð fyrir 10 ára júbílöntum sem gáfu skólanum peningagjöf í "Júbílantasjóð" skólans, fyrir munn 30 ára júbílanta talaði Hafsteinn Guðmundsson sem færði skólanum peningagjöf til geisladiskakaupa og Jakobína Axelsdóttir, 40 ára júbílant, gaf skólanum öll píanóverk Brahms á geisladiskum. Að lokum ber að nefna að fyrr á árinu gaf frú Dóra Sigurjónsdóttir, eftirlifandi systir Hólmfríðar Sigurjónsdóttur, fyrrverandi yfirkennara og skólastjóra skólans, bókasafninu hljómplötusafn hennar, Sigurður og Sieglinde Björnsson gáfu skólanum mikið safn nótna og hljómplatna og Hermína S. Kristjánsson, stofnandi og í mörg ár deildarstjóri píanókennaradeildar, gaf skólanum nýlega nótnasafn sitt, fjölda innbundinna nótna í vönduðumn útgáfum.

NEMENDUR sem brautskráðust frá Tónlistarskólanum í Reykjavík nú í vor ásamt skólastjóra, Halldóri Haraldssyni.