ÞAÐ er víst að bera í bakkafullan lækinn að skrifa enn eina ferðina um Sverri og Landsbankann. En ef rétt er sem fullyrt er í síðasta Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins að hér sé um að ræða "eitt mesta mál,
Viðhorf

Fjölmiðlarnir og samtryggingin

Íslensk blaðamennska er um margt til fyrirmyndar, en um sumt undarlega heimóttarleg.

Eftir Jakob F. Ásgeirsson.

ÞAÐ er víst að bera í bakkafullan lækinn að skrifa enn eina ferðina um Sverri og Landsbankann. En ef rétt er sem fullyrt er í síðasta Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins að hér sé um að ræða "eitt mesta mál, sem upp hefur komið á síðari helmingi þessarar aldar í íslenzku þjóðlífi" er sannarlega nauðsynlegt að skoða málið frá sem flestum sjónarhornum og reyna að skilja afleiðingar þess í sem víðustu samhengi.

Í rauninni er hér um tvö aðskilin mál að ræða.

Annars vegar það sem með réttu má kalla Landsbanka-mál og varðar einkaneyslu bankastjóranna þriggja á kostnað bankans. Eftir fyrirspurn á Alþingi og við rannsókn Ríkisendurskoðunar upplýstist að nokkru hver sá kostnaður var og jafnframt að bankastjórnin hafði áður gefið viðskiptaráðherra villandi upplýsingar um þetta efni. Almenningi blöskraði svo staðreyndir málsins að afsögn bankastjóranna var óhjákvæmileg. Síðar hefur komið fram að bankastjórarnir höfðu skammtað sér, án vitundar bankaráðsins að því er virðist, "ótakmarkaða risnu" úr sjóðum bankans.

Hins vegar er svokallað Sverris- mál sem hlotist hefur af hefndarskrifum eins bankastjóranna í Morgunblaðið þar sem lyft hefur verið hulunni af ýmsu sem stjórnmálamenn allra flokka hafa talið hentast að þegja um í krafti pólitískrar samtryggingar. Þar má nefna upplýsingar um starfsemi Lindar og hvernig alþingismaður nokkur hefur notað aðstöðu sína til að sölsa undir sig, í trássi við viljayfirlýsingar stjórnvalda, milljónatugahlut í fyrirtækinu Kögun. Af skrifum þessum hafa spunnist geysiharðar deilur með miklum brigslum og fúkyrðum ­ og jafnvel hálf-fræðilegar vangaveltur um skammaryrði í íslensku! Þegar þessar línur eru settar á blað sér ekki fyrir endann á Sverris-málinu, eða öllu heldur Sverris-málunum þar sem bankastjórann fyrrverandi ber víða niður í hefnd sinni.

Landsbanka-málið snýst um almennar siðferðiskröfur í þjóðfélaginu, háttsemi manna í opinberu lífi, ábyrgð ríkisstarfsmanna á gerðum sínum, en líka um skyldur bankaráðsins. Landsbanka-málið er þó að flestu leyti dæmigert spillingarmál þar sem starfsmenn kunna sér ekki hóf og misnota aðstöðu síns. Slík mál eru legíó og gerast á öllum tímum.

Sverris-málin snúast líka um siðferði, rétta málsmeðferð og ábyrgð ­ en mikilvægi þeirra felst e.t.v. fyrst og fremst í þeim alvarlegu spurningum sem þau vekja um pólitíska samtryggingu og hlutverk fjölmiðla.

Forystumenn stjórnmálaflokkanna vissu fyrir löngu allt um Lindar- og Kögunar-málin. En þeir aðhöfðust ekkert. Þeir þögðu vegna þess að þeirra eigin flokkar höfðu sitthvað að fela sem óþægilegt var að kæmist í hámæli. Og þeir komust upp með það vegna þess að fjölmiðlarnir leyfðu þeim það.

Hér á árum áður voru gefin út vikublöð sem höfðu á sér misjafnt orð og voru að mörgu leyti óábyrg sorpblöð. En þau þorðu oft á tíðum að fjalla um mál sem aðrir fjölmiðlar treystu sér ekki til að snerta á. Pressan sagði t.d. frá Lindar-málinu á sínum tíma, en aðrir fjölmiðlar létu eins og það kæmi þeim ekki við, þetta væri bara marklaust slúður.

Almenningur stendur agndofa frammi fyrir þeirri staðreynd að það skuli gerast þegjandi og hljóðalaust að þjóðbankinn tapi 700 milljónum með þeim hætti sem upplýst hefur verið. Og enginn segir orð, enginn fjölmiðill reynir að kanna málavexti ­ og jafnvel þegar slúðurblaðið hefur riðið á vaðið og sagt frá ósómanum, finnur enginn annar fjölmiðill sig knúinn til að taka upp þráðinn og fylgja málinu eftir!

Sverris-mál hafa leitt í ljós að fjölmiðlarnir hafa um margt verið of undirgefnir ráðandi öflum og of ragir við að taka á óþægilegum málum. Hvers vegna? Af hverju hafa fjölmiðlarnir látið sér það vel líka að taka þátt í "samsæri þagnarinnar" með stjórnmálaflokkunum? Almenningur getur ekki tekið það alvarlega þegar fjölmiðlamenn taka allt í einu upp á því nú að skrifa í umvöndunartón um skaðsemi pólitískrar samtryggingar, vitandi fullvel að hún gæti ekki hafa þrifist án þátttöku þeirra sjálfra.

Íslensk blaðamennska er um margt til fyrirmyndar eins og áður hefur verið vikið að í þessum pistlum. En um sumt er hún undarlega heimóttarleg. Eflaust hlýst það af fámenninu og hinum miklu vina- og fjölskyldutengslum í þessu landi sem hvað eftir annað skekkja dómgreind manna og gera þeim ókleift að standa á prinsípum. Á það ekki aðeins við um fjölmiðlana heldur þjóðfélagið allt. Og kannski þar sé að leita skýringanna á því að fjölmiðlarnir hér á landi sýnast oft á tíðum ekki vera jafn sjálfstætt afl og fjölmiðlar víðast hvar annars staðar í lýðfrjálsum ríkjum.

Sverrir Hermannsson á þakkir skildar ef hann með stormsveipa- skrifum sínum verður ekki aðeins til þess að setja hina pólitísku samtryggingu hressilega úr skorðum heldur til að vekja fjölmiðlamenn rækilega til umhugsunar um hlutverk sitt og starfshætti. Þegar allt kemur til alls ræðst mikilvægi Sverris-mála í sögunni ekki af eðli þeirra heldur þeim afleiðingum sem þau hafa. Spillingin er nefnilega ódrepandi og sömuleiðis stjórnmálamenn og háttsettir ríkisstarfsmenn sem reyna að víkja sér undan ábyrgð.