Í ÁRSLOK 1997 voru 188 íbúðir í eigu Húsnæðisstofnunar ríkisins, það er einni íbúð færra en í árslok 1996. Alls þurfti stofnunin að leysa til sín 158 íbúðir á síðasta ári og voru það aðeins fleiri íbúðir en hún hefur þurft að leysa til sín á undanförnum árum.
Húsnæðisstofnun yfirtók 158 íbúðir í fyrra Í ÁRSLOK 1997 voru 188 íbúðir í eigu Húsnæðisstofnunar ríkisins, það er einni íbúð færra en í árslok 1996. Alls þurfti stofnunin að leysa til sín 158 íbúðir á síðasta ári og voru það aðeins fleiri íbúðir en hún hefur þurft að leysa til sín á undanförnum árum. Frá þessu er skýrt í nýútkominni ársskýrslu stofnunarinnar. Flestar íbúðirnar, sem stofnunin á nú, voru keyptar á sl. þremur árum. Reynt hefur verið eins og kostur er að stytta þann tíma, sem líður frá því að stofnunin kaupir íbúð á nauðungarsölu og þar til hún er sett í sölu. Hefur sú regla verið höfð að leiðarljósi, að setja íbúðir ekki í sölu fyrr en þær hafa verið rýmdar, til þess að tryggt sé, að nýr eigandi geti fengið hana afhenta á umsömdum tíma. Sem fyrr voru flestar íbúðir stofnunarinnar í Reykjavík eða 43. Á Reykjanesi voru þær 41, en einnig fjölgaði íbúðum á Vestfjörðum talsvert á árinu, það er úr 16 íbúðum í 32.