UNDANFARNA daga hafa keppinautar Hagkaups verið að svara þeirri verðlækkun sem gerð var þegar rekstrarfyrirkomulagi Hagkaups var breytt nýlega. Verð hefur verið lækkað á 4.000-5.000 vöruliðum í Fjarðarkaupum. Hjá 10-11 verslununum hefur einnig átt sér stað mikil verðlækkun.
Verðsamkeppni á höfuðborgarsvæðinu

Fjarðarkaup lækka verð

á þúsundum vöruliða

UNDANFARNA daga hafa keppinautar Hagkaups verið að svara þeirri verðlækkun sem gerð var þegar rekstrarfyrirkomulagi Hagkaups var breytt nýlega. Verð hefur verið lækkað á 4.000-5.000 vöruliðum í Fjarðarkaupum. Hjá 10-11 verslununum hefur einnig átt sér stað mikil verðlækkun.

Að sögn Sveins Sigurbergssonar í Fjarðarkaupum eru þessar aðgerðir liður í að svara yfirlýsingum Hagkaups um að þar sé alltaf hægt að gera betri kaup. "Við höfum undanfarið komið út sem ódýrasti stórmarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og við ætlum að halda áfram að skipa það sæti. Þessar verðlækkanir að undanförnu eru bara byrjunin en við komum til með að endurskoða verð á öllum vörum hjá okkur og gefum ekkert eftir í þessari samkeppni," segir Sveinn. Þegar hann er spurður um þá vöruflokka sem lækkað hafa í verði segir hann það alla daglega neysluvöru eins og til dæmis grænmeti, ávexti, mjólkur- og kjötvöru.

"Það má með sanni segja að það sé skollin á bullandi verðsamkeppni hér á höfuðborgarsvæðinu og verðið breytist daglega. Boltinn er þegar farinn að rúlla og þetta er þróun sem við sjáum ekki fyrir endann á."

Eiríkur Sigurðsson kaupmaður í 10-11 segir að verð breytist daglega á sumum vöruliðum í 10-11 verslununum þessa dagana. "Við fylgjumst vel með verðbreytingum allan ársins hring en undanfarið hefur verið sérstaklega mikið um verðbreytingar í kjölfar nýrrar Hagkaupsverslunar.

Við ætlum að bjóða svipað verð og Hagkaup og höfum því verið að lækka verð á ýmsum vöruliðum eins og á ávöxtum, grænmeti og annarri ferskri vöru. Það er mismunandi hversu mikil verðlækkunin er en hún er geysilega mikil á ávöxtum og grænmeti."

Eiríkur segir að mikill verðmunur sé á Hagkaupi og Nýkaupi og hann segist furða sig á að neytendur skuli ekki hafa mótmælt breytingum á sjö Hagkaupsverslunum í Nýkaup. "Verðmunurinn er mjög mikill og nú er búið að taka út hagstæða valkosti í Nýkaupi eins og gulu línuna sem var ódýrari og til dæmis allar ódýrar kjötvörur. Sem dæmi um verðmun í þessum verslunum hafa viðskiptavinir getað keypt eina öskju af innfluttum jarðarberjum á 69 krónur í Hagkaupi á meðan askja af sömu stærð var seld á 198 krónur í Nýkaupi og kílóið af papriku hefur verið fáanlegt á innan við fjögur hundruð krónur í Hagkaupi á meðan það kostar um sjö hundruð krónur í Nýkaupi."

Grænmeti og ávextir lækka í Hagkaupi

Jón Björnsson framkvæmdastjóri hjá Hagkaupi segir að undanfarið hafi þeir lækkað verð enn frekar á mörgum af þeim 7.000 vöruliðum sem lækkaðir voru í verði þegar verslunin var opnuð í Smáranum. "Okkar stefna er að fylgja markaðnum og bjóða alltaf lægra verð en almennar hverfaverslanir og þeirri stefnu höfum við verið að fylgja undanfarna daga." Hann segir að sem dæmi um verðlækkun megi nefna að bananar hafi lækkað um 75%, tómatar um 60% og paprikur um 44%.

Fylgjumst með markaðnum

"Verðið er óbreytt í Nýkaupi frá því sem það var í Hagkaupi fyrir þessar breytingar en þó hafa einstaka vöruflokkar lækkað í verði," segir Finnur Árnason framkvæmdastjóri hjá Nýkaupi. Þegar hann er spurður hvort Nýkaup hafi að undanförnu lækkað verð á algengum neysluvörum, s.s. á ávöxtum og grænmeti eins og sumar aðrar verslanir hafa verið að gera, segir hann að þeir fylgist með verðinu á markaðnum og leggi áherslu á að vera samkeppnisfærir.

VERÐ á íslenskri grænni papriku var afar mismunandi í gær og lýsandi fyrir þann verðóróa sem er á markaðnum. Ódýrust var íslensk paprika á 289 krónur kílóið en dýrust var hún á 695 krónur kílóið í Nýkaupi og 698 krónur í Nóatúni. Verslanir eins og Fjarðarkaup, Hagkaup og 10-11 buðu kílóið af papriku á um 385-389 krónur kílóið.

VERÐ á ávöxtum og grænmeti breytist jafnvel oft á dag í helstu stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu.

Morgunblaðið/Arnaldur