Ítalía mætir Chile í 2. riðli HM í Bordeaux í Frakklandi í dag og verða Roberto Baggio og Christian Vieri miðherjar saman í fyrsta sinn. Í liði mótherjanna eru Ivan Zamorano og Marcelo Salas, eitt besta miðherjapar heims, sem gerðu 23 af 32 mörkum Chile í undankeppninni.


Nýtt miðherjapar

hjá silfurliði Ítala Ítalía mætir Chile í 2. riðli HM í Bordeaux í Frakklandi í dag og verða Roberto Baggio og Christian Vieri miðherjar saman í fyrsta sinn. Í liði mótherjanna eru Ivan Zamorano og Marcelo Salas, eitt besta miðherjapar heims, sem gerðu 23 af 32 mörkum Chile í undankeppninni.

Ítalía átti í erfiðleikum með að skora á leiðinni til Frakklands og ekki bætir úr skák að miðherjinn Alessandro del Piero er meiddur og spilar því ekki í dag. "Ég virði Ítalíu og knattspyrnusögu þjóðarinnar," sagði Nelson Acosta, þjálfari Chile, í æfingabúðum liðs síns í gær. "Ítalía getur sigrað okkur en til þess að svo fari þarf liðið að leika vel í 90 mínútur." Cesare Maldini, þjálfari Ítalíu, var ámóta hógvær. "Chile er með mjög gott lið og þeir fá tilhlýðilega virðingu frá okkur. Eins og gefur að skilja eru Salas og Zamorano helsta ógnin en það eru fleiri leikmenn í liðinu og ég hef sérstaklega hrifist af [miðjumanninum Jose Luis] Sierra og [varnarmanninum Javier]."

Maldini hefur ákveðið að láta Alessandro Nesta hafa gætur á Zamorano. "Ég er mjög ánægður með að eiga að halda Zamorano niðri," sagði varnarmaðurinn hjá Lazio. "Ég veit hvernig hann spilar enda hef ég séð hann með Inter og mér er fullkunnugt um að þar er hættulegur leikmaður á ferð. Vonandi hef ég lært eitthvað um hann eftir að hafa leikið á móti honum í úrslitum UEFA-keppninnar."

Zamorano sagði að ítalska liðið gæti snúið leik sér í hag hvenær sem væri. "Þetta verður erfitt en sjálfstraustið er mikið hjá okkur."

Ítalía og Chile eru sigurstranglegust í B-riðli en liðið í öðru sæti mætir sigurvegara A-riðils og það virðist ekki eftirsóknarvert hlutskipti.

Líkleg byrjunarlið.

Chile: 1-Nelson Tapia; 3-Ronaldo Fuentes; 15-Moises Villarroel, 5- Javier Margas, 6-Pedro Reyes, 4- Francisco Rojas; 8-Clarence Acuna, 7-Nelson Parraguez, 20-Fabian Estay; 9-Ivan Zamorano, 11-Marcelo Salas.

Ítalía: 12-Gianluca Pagliuca; 5- Alessandro Costacurta; 3-Paolo Maldini, 6-Alessandro Nesta, 4- Fabio Cannavaro, 17-Francesco Moriero; 9-Demetrio Albertini, 11- Dino Baggio, 16-Roberto Di Matteo; 18-Roberto Baggio, 21- Christian Vieri.

Reuters ÍTALINN Fabrizio Ravanelli til hægri reynir að ná boltanum af Svíanum Joakim Björklund í vináttulandsleik þjóðanna í júníbyrjun en Ravanelli leikur ekki á HM vegna veikinda.