SAMSTARFSSAMNINGUR B-lista framsóknarmanna og S-lista Sameiningar, sem mynda meirihluta í sameiginlegu sveitarfélagi Dalvíkur, Svarfaðardals og Árskógshrepps, var kynntur á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar í vikunni. Þar kemur m.a. fram að áfram verði unnið sem best úr þeim fjármunum sem fást til uppbyggingar Hafnasamlags Eyjafjarðar.
Meirihlutaflokkar í sameiginlegu sveitarfélagi

við utanverðan Eyjafjörð Hafnasamlögin sameinist

SAMSTARFSSAMNINGUR B-lista framsóknarmanna og S-lista Sameiningar, sem mynda meirihluta í sameiginlegu sveitarfélagi Dalvíkur, Svarfaðardals og Árskógshrepps, var kynntur á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar í vikunni.

Þar kemur m.a. fram að áfram verði unnið sem best úr þeim fjármunum sem fást til uppbyggingar Hafnasamlags Eyjafjarðar. Þá verði haldið áfram viðræðum við Hafnasamlag Norðurlands um sameiningu hafnasamlaganna.

Einnig kemur fram að fylgst verði með stefnumörkum Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar og unnið markvisst með Ferðamálamiðstöð Eyjafjarðar að eflingu ferðamála og að koma á samstarfi aðila í ferðaþjónustu á svæðinu.

Unnið verði að nýju aðalskipulagi fyrir sveitarfélagið þar sem gert verði ráð fyrir iðnaðar- og atvinnusvæði með tilliti til að nýta þær auðlindir sem hvert svæði hefur upp á að bjóða. Sveitarfélagið skapi sem best starfsumhverfi og aðstöðu fyrir fjölbreyttan atvinnurekstur og þjónustu.

Hitaveita á Árskógsströnd

Þá er í samstarfssamningnum gert ráð fyrir að lögð verði hitaveita á Árskógsströnd og kannaðir möguleikar á hitaveitu í Svarfaðardal. Þau íbúðarhús sem ekki geti tengst hitaveitu njóti niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði. Áhersla verður lögð á úrbætur í vegamálum í Svarfaðardal, unnið að lýsingu heimreiða í dreifbýli og aðkeyrslum í þéttbýli. Einnig er stefnt að því að halda þjóðvegum í sveitarfélaginu opnum alla virka daga í samvinnu við Vegagerðina.

Loks vill meirihlutinn að mótuð verði fjölskyldustefna fyrir sveitarfélagið og að allt nefndarfólk sæki námskeið um verkefnasvið sitt og vinnuaðferðir.